Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Endurreisn efnahags- og atvinnulífs, trausts og góðra gilda
Laugardagur 11. apríl 2009 kl. 14:51

Endurreisn efnahags- og atvinnulífs, trausts og góðra gilda

Þegar leitað er lausna út úr erfiðleikum sem þjóðin glímir nú við er endurreisn orðið sem allt snýst um.  Endurreisn efnahags- og atvinnulíf, endurreisn traust og virðingar og endurreisn góðra  gilda.  

Leggja verður ríka áherslu á að endurreisa fjármálakerfið allt, lækka vexti og afnema gjaldeyrishöftin svo atvinnulífið fái eðlilega fyrirgreiðslu.  Áhersla á mannfrekar og arðbærar framkvæmdir er einnig nauðsynleg til að vinna gegn atvinnuleysi eins og kostur er. Skýr framtíðarsýn í peningamálum þarf að vera til staðar sem atvinnulífið í landinu getur byggt áætlanir sínar á. Samvinna ríkis, atvinnurekenda og sveitarfélaga er áríðandi í þessu efni.  Það er hagur allra að skapa umhverfi sem leggur traustan grunn að endureisn til framtíðar. Hér má ekki einblína á skyndilausnir eða þrönga eiginhagsmuni.
 
Við verðum að spyrna okkur kröftugleg upp úr þeirri lægð sem við erum í og fara skynsamlega með þá fjármuni sem við höfum úr að spila. Sérstaklega þarf að huga að ungu fólki og taka tillit til þeirra þarfa.  Þau verða að sjá framtíð sína hér á landi og möguleika til að takast á við áskoranir og skapandi og eftirsóknarverð störf. Án þátttöku unga fólksins verður erfitt að ná góðum árangri. Áhersla á menntun og nýsköpun eru lykilatriði í þessu sambandi.  Skapa þarf forsendur stöðugleika, vaxtalækkunar og afnáms verðtryggingar.  Liður í því er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga til samninga um hana með sérstöðu Íslands í forgrunni.  Náist samningar sem þjóðin getur fallist á er upptaka evru sjálfsögð í framhaldinu.

Velferðarmál mega ekki verða útundan í endurreisninni því án samhjálpar og samábyrgðar verða aukaverkanir kreppunnar enn alvarlegri og varanlegri. Heimilin eiga mörg við fjárhagserfiðleika að stríða, fyrirtæki missa starfsgrundvöll og áhyggur og vanlíðan vex. Mæla þarf árangur vinnu við endurreisnina reglulega.  Markmið endurreisnarinnar hlýtur að vera að sem flestum líði vel.  Fleirum líði vel heima hjá sér, í vinnunni og í samfélaginu öllu. Markmiðið er ekki að þeir ríku verði jafnríkir aftur heldur að jöfnuður, hamingja og vellíðan vaxi meðal íbúa landsins.  

Stjórnmálamenn verða að vinna sér traust og virðingu með orðum sínum og athöfnum. Skortur á trausti og virðingu mun tefja fyrir því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Í komandi kosningum munu kjósendur velja stórnmálamenn sem þeir treysta best til að vinna erfið verk af dugnaði og heiðarleika. Samfylkingin er traustsins verð og með Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar mun Samfylkingin vinna röggsamlega að endurreisninni með áherslu bæði á vinnu og velferð.

Oddný Guðbjörg Harðardóttir
Skipar 2. sæti á framboððslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024