Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

En lítill hluti starfsfólks hefur veikst ...
Föstudagur 24. febrúar 2023 kl. 15:31

En lítill hluti starfsfólks hefur veikst ...

Íbúum Reykjanesbæjar ætti nú flestum að vera ljóst að innan sveitarfélagsins er unnið að viðamiklum endurbótum á húsnæði Myllubakka- og Holtaskóla, eftir að mygla greindist í báðum skólum. Starfsfólk skólanna hefur lengi kallað á aðgerðir og vakið athygli á því að veikindi og einkenni sökum óheilnæms vinnuumhverfis hafi verið töluverð þeirra á meðal.

Fram kom í viðtali við formann bæjarráðs Reykjanesbæjar í Morgunblaðinu þann 14. febrúar sl.sem bar yfirskriftina “Milljarðar vegna mygluviðgerða” að “Því miður hafi starfsfólk í sumum tilfellum fundið fyrir einkennum myglu en lítill hluti þeirra veikst”. Annan tón ber við í viðtali við trúnaðarmenn starfsfólks í Myllubakka- og Holtaskóla í Morgunblaðinu þann 21. febrúar undir yfirskriftinni “Margir í veikindaleyfi vegna myglu”. Því spyr ég mig, hvenær finnst okkur um að ræða “lítinn hluta starfsfólks”?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum áður lýst yfir vonbrigðum okkar með hversu alvarlegt ástand hefur skapast vegna skorts á viðhaldi á húsnæði sveitarfélagsins og höfum lagt áherslu á að góð samskipti þurfi að vera á milli starfsfólks stofnana og annarra notenda húsnæðis þar sem mygla hefur greinst. Sú staðreynd að starfsfólki sveitarfélagsins sé ítrekað boðið upp á ummæli bæjarfulltrúa um að "lítið sé um veikindi" og að "fáir hafi veikst" eru í besta falli vanvirðing við þann hóp starfsfólks sem hefur sannarlega fundið fyrir áhrifum á heilsu sína, sumir til langframa. Þessi sami hópur fólks hefur árangurslaust reynt að ná eyrum ráðamanna undanfarin misseri en ekki náð í gegn. Áhrifin á heilsu nemenda eru ekki síður áhyggjuefni þeirra starfsmanna sem til ráðamanna hafa leitað.

En eru þessi skrif mín nú ekki að bera í bakkafullan lækinn? Þarf eitthvað að ræða þetta frekar, það er jú verið að vinna að úrbótum? Það er vissulega gott að gefa nokkuð góða mynd, í viðtölum við fjölmiðla og í fundargerðum bæjarráðs og bæjarstjórnar, af þeim fjárhæðum sem verja á til að laga ástandið. 7 milljarðar króna eru áætlaðir í verkið, það teljum við ekki eftir okkur, enda nógir peningar til, að sögn formanns bæjarráðs. Í sömu andrá og formaður greinir frá þeirri fjárhæð sem verja á í að koma nú almennilega í veg fyrir mygluna, viðurkennir hann að vandann megi rekja einhver ár aftur í tímann og að eftirliti og viðhaldi bygginga hafi verið ábótavant undanfarin ár.

Það gjald sem starfsfólk geldur nú í vaxandi mæli með heilsu sinni, reynist hins vegar erfitt að fá viðurkennt. Það er þvert á móti ítrekað afgreitt sem léttvægt, enda vissulega erfið og viðkvæm umræða. Alvarleiki málsins gagnvart starfsfólki og nemendum verður ekki mældur í milljörðum. Alvarleikinn er nefnilega óháður því hversu margir veikjast alvarlega og hversu lengi. Ein alvarleg veikindi eru einum alvarlegum veikindum of mikið.

Trúnaðarmenn skólanna hafa tjáð mér að innan Myllubakkaskóla hafi myglan haft áhrif á heilsufar yfir 20 starfsmanna, sem hafa ýmist sagt starfi sínu lausu, farið í veikindaleyfi eða fundið fyrir versnandi heilsu sem rekja má til myglu. Þetta eru um 30% af starfsfólki skólans! Veikindadagar og fjarvistir sökum myglunnar eru margfalt fleiri í Myllubakkaskóla þar sem ástandið hefur lengi verið slæmt, en í Holtaskóla, þar sem veikindadagar af þessum sökum telja nú þegar að lágmarki 300 daga á skólaárinu. Að baki þeim dögum standa um 16 starfsmenn sem eru um 25% starfsmannahópsins. Þrír starfsmenn hafa sagt starfi sínu lausu í Holtaskóla og fleiri íhuga að stíga það skref er mér tjáð.

Það þarf mjög einbeittan vilja til að hundsa eða snúa út úr þessum staðreyndum. Það að starfsfólki, sem býr við skert lífsgæði af þessum sökum, þyki því sýnd ítrekuð lítilsvirðing þegar kjörnir fulltrúar koma fram og lýsa vandanum og áhrifum hans á heilsu sem "vægum" kemur ekki á óvart. Sér í lagi skil ég vel að starfsfólk upplifi lítilsvirðingu þegar við stærum okkur af því hversu miklum fjármunum eigi að verja í umbætur nú þegar skaðinn er skeður, nóg til af fjármunum og allt í blóma í Reykjanesbæ enda bara “lítill hluti starfsfólks sem hefur veikst”.

Heilsa og velferð starfsfólks sveitarfélagsins verður ekki metin til fjár. Því miður eru áhrif þeirra vinnubragða sem formaður bæjarráðs lýsir í fyrrnefndu viðtali, alvarleg fyrir hóp starfsfólks og ekki hægt að spóla til baka. Samkennd og virðing fyrir velferð starfsfólks kostar hins vegar ekkert. Þar mættum við, kjörnir fulltrúar, byrja á að biðja starfsfólk afsökunar á því að hafa ekki hlustað, að hafa brugðist of seint við. Við sem fulltrúar sveitarfélagsins, eigum fyrst og fremst að sýna þeim samkennd sem glíma við áhrif óheilnæms vinnuumhverfis á heilsufar sitt í stað þess að draga úr alvarleika stöðu þeirra.

Orð mega sín vissulega lítils þegar skaðinn er skeður. Þó vil ég, fyrir hönd okkar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, koma á framfæri kærum kveðjum til okkar ágæta starfsfólks sem stendur í þessum sporum; Við tökum það nærri okkur hver staða ykkar er og biðjum ykkur afsökunar á því hversu seint var gripið til úrbóta af alvöru. Við munum gera það sem í okkar valdi stendur til að svo alvarlegum ábendingum frá starfsfólki sveitarfélagsins verði sinnt betur og mun hraðar en raun ber vitni. Um leið vonum við af heilum hug að þið náið öll fullri heilsu á ný og óskum þess að sveitarfélagið fái að njóta starfskrafta ykkar áfram, eða að nýju, þegar svo verður.

Helga Jóhanna Oddsdóttir,
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.