Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 15. apríl 2002 kl. 10:39

Ellert í Garðinn: Furðuleg frétt

Þegar ég kom heim úr stuttu fríi vakti frétt í Víkurfréttum og reyndar í öðrum fjölmiðlum einnig nokkra undrun mína. Eflaust hefur fréttin líka vakið furðu margra annarra. Fréttin sem ég á við er að Ellert Eiríksson núverandi bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ skuli nú stuttu fyrir kosningar gefa undir fótinn að hann geti vel hugsað sér að gerast sveitarstjóri í Garði fái H-listinn meirihlutaaðstöðu, sem Finnbogi Björnsson hefur leitt til þessa. Þetta segir Sigurður Jónsson sveitarstjóri í Garði í bréfi til blaðsins.Að sjálfsögðu kemur mér eða öðrum það ekkert við hvort Ellert ætlar að vinna eftir kosningar eða hvað hann yfir höfuð stefnir að þ.m.t. að taka þátt í baráttu um sveitarstjórastöðu í Garðinum.
Ég get þó ekki orða bundist til að vekja athygli á nokkrum þáttum varðandi þessa frétt .
Með því að gefa undir fótinn að hann geti vel hugsað sér að taka að sér stöðu sveitarstjóra í Garðinum er E.E. að taka þátt í kosningabaráttunni í Garðinum ásamt því að vera einnig þátttakandi í kosningabaráttunni í Reykjanesbæ. Ellert gegnir ennþá stöðu bæjarstjóra og er í heiðurssæti lista Sjálfstæðismanna. Að undanförnu hefur hann tekið að sér ýmis trúnaðarstörf fyrir Reykjanesbæ m.a. stöðu formanns Hitaveitu Suðurnesja hf.Hann kemur alls staðar fram með Árna Sifússyni í baráttunni í Reykjanesbæ.
Það hlýtur að teljast mjög furðulegt að ætla sér á þann hátt sem að ofan greinir að verða þátttakandi í kosningabaráttu í tveimur sveitarfélögum.
Reyndar get ég nú ekki sagt annnað en það er ansi skemmtilegt að bæjarstjóri Reykjanesbæjar skuli eftir 12 ára starf sem bæjarstjóri vilji hann hætta þar og lýsir yfir að hann vilji hvergi annars staðar starfa en í Garðinum (reyndar lýsir því yfir að hann ætli að búa áfram í Keflavík).
Þetta eru að sjálfsögðu góð meðmæli fyrir okkur meirihlutamenn. Það er alveg rétt að á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging í Garðinum. Mikið hefur verið um framkvæmdir og þjónustan við íbúana aukin. Við viljum halda áfram á sömu braut sem styuðjum F- listann, lista framfarasinnaðra kjósenda í Garði og treystum því að kjósendur kunni að meta störf okkar.
Ég hef metið Ellert , sem mikilhæfan og heiðarlega stjórnmálamann.Okkar samskipti hafa verið mjög góð.
Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ lögðu á það áherslu að tilkynna hver yrði þeirra bæjarstjóraefni.
Að gefa undir fótinn eins og E.E. hefur gert varðandi stöðu sveitarstjóra í Garði og yfirlýsingar H-listans í framhaldi af því er ekki hægt að líta á öðruvísi en beina þátttöku í kosningabaráttunni í Garðinum. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að E.E. gæfi út svona svör eins og hann hefur gert.
Með þessu hefur Ellert stillt sér upp með Finnboga Björnssyni og hans liði til að berjast á móti okkur F- listamönnum. Ég er sveitarstjóraefni F-listans og lít svo á að með sínu svörum vilji E.E. vera þátttakandi í að stuðla að því að koma mér frá ásamt núverandi meirihluta.
Miðað við alla framvindu málsins hlýtur það að vera krafa kjósenda bæði í Garði og Reykjanesbæ að fá afdráttarlausa yfirlýsingu frá Ellert Eiríkssyni hvort hann sé sveitarstjóraefni H-listans í Garði eða ekki.Það hlýtur að vera í hans stíl.

Sig. Jónsson, sveitarstjóri í Garði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024