Samkaup hluthafafundur
Samkaup hluthafafundur

Aðsent

  • Eldri borgarar í heimabyggð
  • Eldri borgarar í heimabyggð
Mánudagur 26. maí 2014 kl. 12:37

Eldri borgarar í heimabyggð

– Brynja Kristjánsdóttir skrifar

Samfélagsleg ábyrgð okkar er að öldruðum séu veittar bestu aðstæður sem mögulegt er til að búa við áhyggjulaust ævikvöld. Öllum öldruðum íbúum ætti að vera sá kostur mögulegur að geta eytt ævikvöldinu í heimabyggð, þar sem þeir hafa jafnvel eytt allri ævinni. Því er brýn nauðsyn að hér í Garði verði starfrækt hjúkrunarheimili sem getur uppfyllt óskir og vonir íbúanna.

Hjúkrunarheimili sem rúmar 15 – 20 íbúa er stefna sjálfstæðismanna og óháðra  á kjörtímabilinu með samvinnu við aðila sem koma að þeim málum.

Á stefnuskrá sjálfstæðismanna og óháðra er að bæta enn betur aðstöðuna fyrir tómstundastarf 60 ára og eldri. Það gerist með því að aðstaðan verði stækkuð og flutt í annað húsnæði til að auka möguleika á fjölbreyttari starfsemi.  Fleiri möguleika fyrir karlmenn til tómstundaiðkunnar eins og pílukast, billjard og boccia . Einnig að hafa möguleika á að halda skemmtanir, dansa og iðka leikfimisæfingar af ýmsu tagi.

Stækkun húsnæðis veitir líka þá möguleika að fleiri Garðbúar geta stundað tómstundastarfið eins og atvinnuleitendur, öryrkjar og þeir sem heima eru. Þannig er hægt að rjúfa enn betur félagslega einangrun. Tómstundastarfið hefur notið mikillar ánægju  þeirra er stunda það og framundan eru góðir tímar í þeim málum.

Þjónustukönnun meðal eldri borgara er fyrirhuguð til að meta þarfir og stöðu íbúanna svo bæta megi og auka við það sem betur má gera. Þjónustustigin við aldraða eru margvísleg s.s heimaþjónusta, heimahjúkrun, félagstarf aldraðra, dagdvöl, hvíldarinnlögn og hjúkrunarheimili. Öll þessi þjónusta er í boði fyrir íbúana ýmist á vegum sveitarfélagsins eða HSS, nema dagdvölin.

D listi sjálfstæðimanna og óháðra mun á næsta kjörtímabili, fáum við til þess stuðning kjósenda, vinna ötullega að því að þeir sem eru farnir að horfa til efri áranna geti áhyggjulaust hugsað til þess tíma sem framundan er. Mikilvægt er að eldri borgarar eins og aðrir íbúar finni sig örugga og hamingjusama í heimabyggð.

Setjum X við D á laugardaginn.

Bestu kveðjur

Brynja Kristjánsdóttir
í 5. sæti á lista sjálfstæðismanna og óháðra.

Bílakjarninn
Bílakjarninn