Ekki skila auðu
Ísland er auðugt land. Land tækifæranna. En er það þannig? Í fullkomnu velferðarsamfélagi er menntun fyrir hvern sem vill, húsnæðiskerfi fyrir ungt fólk og aldraða. Heilbrigðisþjónusta, öldrunarþjónusta, stuðningur við öryrkja, atvinnulausa, flóttafólk. Mannréttindi í heiðri höfð. Að börn og fullorðnir búi við traust og öryggi. Í velferðarsamfélagi ríkir jöfnuður og samkennd. Þannig samfélag viljum við. Samfélag sem tekst á við vandamál líðandi stundar af yfirvegun og mætir umhverfisvá með samstilltu átaki. Sjálfstæð þjóð meðal þjóða sem leggur sitt af mörkum og styður aðra í orði og verki.
Mörgu má breyta til betri vegar. Það er í okkar valdi að ákveða það. Nú nálgast kosningar og ríkisstjórnin er að vonum ánægð með óbreytt ástand, hefur setið sem samlynd hjón heilt kjörtímabil. VG og Sjálfstæðisflokkur með Framsókn á milli sín. Hitt liðið á þingi talar fyrir breytingum, hvert úr sínu horni og hefur ekki náð að stilla saman strengi.
Spurningin er; heldur ríkisstjórnin meirihluta eða komast þau til einhverra áhrifa, sem vilja breytingar?
VG var og er fyrst og fremst flokkur sem lætur sig umhverfið varða og var, fyrir misskilning, talinn lengst til vinstri. Það er rangt. Ær og kýr sannra sósíalista er alþjóðahyggja. Enginn er eyland. Því hafnar VG m.a. í andstöðu sinni við ESB. Íhaldselementið vegur þyngra en róttæknin. VG gengur til kosninga, hönd í hönd við hægrið, sammála um óbreytt ástand og heldur sig við sameiginlegan ramma fjármálaáætlunar stjórnarflokkanna. Það veit ekki á gott um framhaldið.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem fyrrum var frjálslyndur hægri flokkur, ekki laus við félagshyggju, hefur alveg horfið frá slíkum sjónarmiðum og nálgast nú stefnu Miðflokksins m.a. í vaxandi efasemdum um EES-samninginn auk þess að vera sérlegur varðhundur sérhagsmuna í samfélaginu. Hann á samleið með VG í afstöðunni til sjávarútvegsmála og aðildarinnar að ESB. Sammála um óbreytt ástand.
Miðflokkurinn er popúlistaflokkur .
Flokkur fólksins hefur því miður ekki mikla burði en á gott innlegg í baráttu jaðarhópa fyrir bættum kjörum. Sú rödd þarf að heyrast. Svo geta menn skilað rauðu og kosið Sósíalistaflokkinn sem heldur á lofti andófi við ríkjandi öfl. Sú rödd þarf líka að heyrast.
Framsókn hefur losnað við lýðskrumið úr sínum flokki á hógværan hátt og er nú flokkur hæglætis og skynsamlegra lausna. Hann nýtur trausts í núverandi ríkisstjórn með sína málaflokka, félags-, mennta- og samgöngumál og gæti því átt góða samleið með Pírötum, Viðreisn og Samfylkingu í næstu ríkisstjórn, ríkisstjórn tækifæra fyrir alla, með auknum tengslum við Evrópusambandið og upptöku evru. Það var nefnilega fyrrum stefna Framsóknar í tíð Halldórs Ásgrímssonar og Jóns Sigurðssonar áður en popúlistinn og núverandi formaður Miðflokksins var þar óvænt kosinn formaður.
Píratar eru mestir talsmenn lýðræðislegrar málsmeðferðar, mannréttinda og öflugasta baráttufólk gegn hvers kyns spillingu. Það vegur þungt. Píratar hugsa meira um hvernig ákvarðanir eru teknar en hverjar þær eiga að vera. Þeir vilja t.d. að þjóðin ákveði framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Ef af yrði styðja þeir breytingar sem örva hagvöxt. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og hagfræðingur var höfundur skýrslu um mat á stöðu aðildarviðræðnanna Íslands og ESB þegar þær viðræður voru í gangi, um m.a. hvort aðild að evrópska myntbandalaginu væri fýsilegur kostur fyrir Ísland. Niðurstaðan var skýr. Upptaka evru er einn stærsti einstaki velferðarávinningur sem landsmenn eiga völ á. Látum þjóðina ráða segja Píratar. Það ætti að vera í anda góðra sósíalista í Sósíalistaflokknum líka, en það kemur þá í ljós.
Samfylkingin og Viðreisn eiga samleið í Evrópumálum, atvinnumálum og auðlindamálum fyrst og fremst, en einnig í heilbrigðis-, félags- og menntamálum.
Samfylkingin talar enn um meiri jöfnuð, en gengur illa að benda á leiðir að því markmiði, aðrar en að auka útgjöldin. Skattahækkunaráform Samfylkingarinnar duga ekki til að leysa vanda spítalanna eða heilsugæslunnar. Það er nauðsynlegt að stokka upp heilbrigðiskerfið. Það þarf öflugt hátæknisjúkrahús stutt skilvirkum heilsugæslustöðvum og sérfræðiþjónustu sem er rekin af opinberum aðilum, sjálfseignarstofnunum og/eða einkaaðilum með samningum við sjúkratryggingar ríkisins, sem veita þessum þjónustuaðilum fjárhagslegt og faglegt aðhald. Þetta heitir fagleg uppstokkun á opinbera íslenska heilbrigðiskerfsinu, en ekki einkavæðing og er ávísun á betra og skilvirkara heilbrigðiskerfi og öldrunarþjónustu en við eigum að venjast, svo því sé hér haldið til haga.
Samfylkingin virðist, öfugt við Viðreisn, líta svo á að unnt sé að reka ríkissjóð til lengri tíma með halla. Samt eiga Viðreisn og Samfylkingin samleið um frjálslynda hugmyndafræði og margvíslegar mikilvægar breytingar. Þessir flokkar verða að koma fram sem eining um nánari evrópska samvinnu, ESB, um stöðuga mynt, tímabundinn nýtingarrétt auðlinda í þjóðareign og réttlátt endurgjald fyrir auðlindanýtingu á grundvelli markaðslausna og framseljanlegra aflaheimilda. Þessir flokkar og þeirra frjálslyndu hugmyndir eru líklegri en kyrrstöðustefna ríkisstjórnarinnar til að auka jöfnuð og hagvöxt til lengri tíma með nýsköpun og þekkingariðnaði, auka tekjur í ríkissjóð án skattahækkana og efla velferðarkerfið. Í því felst tækifæri fyrir alla.
Forsætisráðherrann, vinsælasti stjórnmálamaður landsins, heldur spilunum þétt að sér, en er til í að leiða næstu ríkisstjórn. Hvaða? Haldi stjórnarflokkarnir meirihluta má ætla að þeir túlki niðurstöðuna sem svo að þeir eigi að halda áfram að vera ánægðir með óbreytt ástand. Það er vondur kostur í land tækifæranna.
Gegn því þarf sameiginlega viðspyrnu einkum Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar um að mynda öfluga ríkisstjórn frjálslyndra hugmynda um kerfisbreytingar og ábyrga ríkisfjármálastefnu. Framsóknarflokkurinn verður að koma með í þann leiðangur. Til þess er honum vel treystandi en þá þurfa þessir flokkar að ná meirihluta saman sem er enn tæpt, vilji menn breyta. Þannig fjögurra flokka ríkisstjórn fengi gott aðhald frá VG í umhverfis- og loftslagsmálum og kröftugt slíkt frá sósíalistunum í félags- og mannréttindamálum. VG þarf að ná aftur vopnum sínum og tekst það kannski best í stjórnarandstöðu að svo komnu máli. Að kjósa Pírata, Viðreisn, Samfylkinguna eða Framsókn er því góður kostur, bara spurning um áherslumun.
Skúli Thoroddsen.