Ekki er allt sem sýnist
Í greinargerð bæjarstjóra Sveitarfélagsins Garðs, vegna ársreikninga 2011 segir hann m.a. Niðurstaða árseikninga 2011 sýnir að rekstur sveitarfélagsins er á réttri leið og nálgast jafnvægi sem er það markmið sem stefnt er að.
Hið rétta er að ársreikningur sveitarfélagsins Garðs vegna ársins 2011, er merkilegur fyrir margra hluta sakir. Fyrir það fyrsta þá staðfestir eiginfjárstaða sveitarfélagsins, að sala á hlut þess í Hitaveitu Suðurnesja og uppgreiðsla skulda í kjölfarið hefur haft jákvæð áhrif á afkomu sveitarfélagsins. Á síðasta ári voru 444 milljónir færðar úr Framtíðarsjóði til annara sjóða og litar sú staðreynd allan ársreikninginn. Millifærðar voru 177,4 milljónir til B hluta fyrirtækja sem gerir það m.a að verkum að liðurinn „Annar kostnaður“ er látinn lækka samkvæmt þeirri bókhaldsaðferð sem notuð er. Þetta gefur í raun villandi mynd af rekstrinum og nær hefði verið að færa slíka millifærslu sem einskiptistekjur þ.e. tekjur sem koma aðeins einu sinni inn. Á þann hátt á að vera auðveldara að glöggva sig á raunverulegum rekstri. Það að nýta sér slíka lækkun í bókhaldslegri framsetningu eins og gert er hér, er auðvitað bara pólitískur loddaraskapur eins og hann gerist verstur.
Í öðru lagi hlýtur það að vekja athygli og vekja fólk til umhugsunar sú staðreynd að u.þ.b 30% af tekjum sveitarsjóðs koma frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Tekjur sveitarsjóðs sjálfs duga því ekki nema fyrir u.þ.b helmingi rekstrarútgjalda. Á heimasíðu Jöfnunarsjóðs kemur fram að 10% tekna sveitarfélaga að meðaltali koma frá Jöfnunarsjóði. Sú staðreynd að útgjaldareglur Jöfnunarsjóðs taka sífelldum breytingum hlýtur að kalla á umræðu innan bæjarstjórnar, því að breytingar á þessum reglum geta haft veruleg áhrif á afkomu bæjarsjóðs.
Í þriðja lagi vekur það athygli að meirihlutinn talar nú um verulegan árangur í fjármálastjórn þegar það liggur fyrir að breytingar á skuldastöðu eru einvörðungu tilkomnar vegna sölu eigna. Ekki verður séð að einhver árangur hafi náðst í að minnka útgjöld sveitarfélagsins þrátt fyrir fullyrðingar bæjarstjóra. Einvörðungu er um að ræða leik að tölum eins og bent hefur verið á hér á undan. Gjöld bæjarsjóðs voru veruleg og umfram tekjur á síðasta ári eins og þau voru árið 2010. Handbært fé frá rekstri sveitarsjóðs er neikvætt um tæpar 100 milljónir og það var einnig neikvætt á árinu 2010.
Samkvæmt ársreikningi er handbært fé 675 milljónir í árslok 2011 en það var 2,4 milljarðar í árslok 2008. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að það muni aukast í ljósi þeirrar staðreyndar að eiginlegur rekstur sveitarfélagsins stendur ekki undir sér. Þess má vænta að launagreiðslur sveitarfélagsins hækki á þessu ári þar sem launaskerðingar þær sem ákveðnir starfsmenn tóku á sig á síðasta ári eru væntanlega að ganga til baka á þessu ári. Einnig má reikna með að launahækkanir sem áttu sér stað á almennum vinnumarkaði í febrúar sl. komi til með að auka launagreiðslur sveitarfélagsins.
Taka verður með í reikninginn að þegar tekjur sveitarfélagsins aukast þá lækkar framlag Jöfnunarsjóðs þannig að veruleg óvissa verður á rekstri sveitarfélagsins. Rekstraráætlun sem skilar jákvæðri niðurstöðu breytir þar engu. Sé einhver vilji til þess meðal meirihluta bæjarfulltrúa að koma rekstri sveitarfélagsins í jafnvægi hljóta þeir að leggja fram raunhæfar tillögur um hvernig skera megi niður í rekstri þannig að tekjur dugi fyrir útgjöldum. Annars er hætt við að handbært fé sveitarfélagsins verði uppurið innan fárra ára og sveitarfélagið fari að safna skuldum á nýjan leik.
Fyrir hönd N listans,
Jónína Holm.