Ekki brenna af dauðafæri
– Ellert Grétarsson skrifar
Ég hef hingað til haldið mig nokkurn veginn utan við pólitíska umræðu nema helst þegar kemur að umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þar hef ég grjótharðar skoðanir sem ég fer ekkert í launkofa með og gef engan afslátt af enda nóg komið af níðingsskap á íslenskri náttúru. Hef lýst því yfir að ég kjósi engan flokk sem ekki setji náttúruvernd í fyrsta sæti. Meira að segja Vinstri Grænir komast ekki í þá náð eftir að þeir samþykktu rammaáætlun sem opnar möguleikann á samfelldri röð jarðvarmavirkjana eftir endilöngum Reykjanesskaga frá Reykjanestá að Þingvallavatni.
Þetta er auðvitað einstrengingsleg afstaða, ég viðurkenni það. Maður verður að skoða málin í víðara samhengi. Pólitík snýst auðvitað um meira en bara umhverfismál.
Oftast hef ég skilað auðu á kjördag því mér hugnast ekki hinir gömlu, svokölluðu fjórflokkar. Ástæðurnar eru margar og flestum ljósar. Fáir aðrir valmöguleikar hafa verið í boði, a.m.k einhverjir sem mér hefur fundist vit í og atkvæðis míns virði. Hugmyndin um persónukjör hefur mér fundist heillandi en því miður eigum við ekki þann valmöguleika – ekki enn sem komið er. Ég vil frekar kjósa persónur en flokka.
Kominn er tími á breytingar í Reykjanesbæ og þess vegna ætla ég að ljá Beinni leið atkvæði mitt. Sú afstaða ræðst fyrst og fremst af þeim persónum sem þar eru innanborðs. Ég þekki og treysti því fólki til að gera breytingar.
Í heilt kjörtímabil sat ég flesta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ og fylgdist með umræðunni. Guðbrandur Einarsson sat þar sem oddviti Samfylkingar en hann leiðir nú framboðslista Beinnar leiðar. Sem bæjarfulltrúi og persóna ávann hann sér fljótt virðingu mína. Þarna fór maður sem var ávallt samkvæmur sjálfum sér.
Hann var alltaf gríðarlega vel undirbúinn og setti sig vel inn í öll mál. Allan tímann hélt hann meirihlutanum vel við efnið með gagnrýnum en mjög málefnalegum málflutningi. Enda fór það svo að Sjálfstæðismenn fjölmenntu í opið prófkjör Samfylkingarinnar gagngert til að fella Guðbrand og sýnist mér að þeir hafi síðan átt nokkuð náðuga daga í bæjarstjórn.
Hann var alltaf gríðarlega vel undirbúinn og setti sig vel inn í öll mál. Allan tímann hélt hann meirihlutanum vel við efnið með gagnrýnum en mjög málefnalegum málflutningi. Enda fór það svo að Sjálfstæðismenn fjölmenntu í opið prófkjör Samfylkingarinnar gagngert til að fella Guðbrand og sýnist mér að þeir hafi síðan átt nokkuð náðuga daga í bæjarstjórn.
Kjósendur í Reykjanesbæ hafa í fyrsta skipti í mörg ár galopinn möguleika til breytinga. Valkostirnir eru fleiri en áður. Ég trúi því ekki að óreyndu bæjarbúar ætli að brenna af þessu dauðafæri alveg upp við marklínuna.
Ellert Grétarsson,
íbúi í Reykjanesbæ.