Ekkert verið framkvæmt í 10 ár
Ég er mikið í umferðinni, bæði á Reykjanesbrautinni og innanbæjar í Reykjanesbæ.
Á alltof mörgum stöðum í bænum okkar eru tifandi tímasprengjur í umferðinni og tímaspursmál hvenær það verður alvarlegt slys eða jafnvel banaslys.
Umferðarmannvirki Reykjanesbæjar eru sprungin en ekkert hefur verið gert í því í tíu ár, ekkert síðan framkvæmdum við Parísartorg lauk. Í tíu ár hefur bara verið horft á vandamálin sem hlaðast upp við aukna umferð í ört stækkandi bæjarfélagi.
Tökum dæmi:
Njarðarbraut, frá Atlantsolíu í Innri-Njarðvík, til Nettó við Krossmóa er umferðarmesta æð bæjarins, með 14.500 bíla umferð á sólarhring. Ég leyfi mér að segja, að fyrir utan höfuðborgarsvæðið og Reykjanesbrautina, sé þessi leið hættulegasti vegur landsins vegna umferðarþunga. Á ótal stöðum eru tengingar inn á Njarðarbrautina í lamasessi, eins og frá Reykjanesbraut inn á Fitjar við Bónus þar sem fólk er að taka marga óþarfa sénsa. Einnig liggur leið barna, fótgangandi eða á hjólum, á leið í skóla og tómstundir, á mörgum stöðum yfir Njarðarbraut, t.d. við Biðskýlið vegna Njarðvíkurskóla og við Krossmóa vegna dansskólans Danskompaní. Umferðarþunginn er mikill á þessum stöðum með tilheyrandi umferðaröngþveiti sem ekki skánar þar sem útskot fyrir strætó passa bara engan veginn fyrir strætó og skapa ótrúlega hættu og óþarfa tafir á umferð.
Til þess að komast hjá þessu umferðaröngþveiti á Hringbraut og Njarðarbraut reyna ökumenn að taka eina af þremur krókaleiðum gegnum bæinn;
Sjávarleiðina frá Duus til ÓB á Fitjum en til dæmis aftan við gömlu sundlaugina er ekki gott að vera hjólandi eða fótgangandi í myrkri þar sem lítil sem engin lýsing er til staðar. Þetta er leið krókaleiða og flýtir ekki fyrir. Ökumenn komast hins vegar hjá því að stoppa á illa umferðarstýrðum ljósum á Hringbrautinni sem ómögulegt er að átta sig á hvernig virka.
Önnur leið er gegnum Nónvörðu, Hátún, Sunnubraut og Vallargötu. Þetta er hins vegar enn hættulegri leið en Hringbraut og Njarðarbraut þar sem þetta eru íbúagötur.
Þá er ein leið eftir og það er Reykjanesbraut ofan Reykjanesbæjar en engin ætti að þurfa að smeygja sér inn í mestu umferðaræð landsins þar sem um fara 20.000 bílar á sólarhring bara til þess að flýta för innanbæjar.
En hvað er til ráða?
Best væri að flýta ofanbyggðaveginum, fyrir ofan Móahverfið og að Flugvöllum, sem hefur lengi verið í farvatninu en eins og önnur mannvirki verður að hugsa hann út frá sjónarmiðum og öryggi íbúa. Þessa framkvæmd þarf að ráðast í strax því Skólavegurinn annar ekki allri umferðinni sem fylgir þessari stóru byggð sem er að rísa fyrir ofan Grænulautina.
Ráðumst í að bæta umferðarmannvirkin okkar með hag barnanna fyrir brjósti, lækkum hraðann í umferðinni, stýrum ljósum rétt, bætum útskotssvæði bæði fyrir strætó og aðra vegfarendur.
Fækkum þrengingum á stofnbrautum eins og á Grænásbrautinni á Ásbrú. Við hljótum með allt þetta landsvæði á Ásbrú að geta gert viðunandi útskot fyrir strætó og öruggar gangbrautir eða undirgöng.
Við eigum líka að tengja Ásbrú betur við önnur hverfi Reykjanesbæjar. Þetta má gera með því að leggja Reykjanesbraut frá Fitjum til Grænáshringtorgs í stokk þannig að Fitjar, Ásahverfi og Ásbrú verði samtengd hverfi.
Bætum við hringtorgum, undirgöngum, gangbrautum, útskotum og lýsingu, lækkum hraðann, upplýsum og verndum börnin, minnkum flækjustigið og pælingarnar, förum að framkvæma!
Ég boða breytingar í umferðarmálum í Reykjanesbæ og mun láta verkin tala.
Guðbergur Reynisson,
er í 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.