Ekkert að gera í uppbyggingu ferðamannastaða á Reykjanesi
Það urðu margir undrandi þegar ráðherra ferðamála úthlutað nýlega 850 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða að ekki var einni krónu úthlutað til ferðamannastaða á Reykjanesi. Eftiráskýring var að einungis hefði verið úthlutað til staða í rekstri ríkisins. Þetta var frekar billeg skýring og er beinlínis í andstöðu við reglur Framkvæmdasjóðsins að mismuna svæðum eftir eignarhaldi. „Náttúrupassinn“ sem aldrei varð, átti að vera fyrir allra og þar sem þessi fjárveiting kemur í stað „Náttúrupassans“ hefði mátt ætla að það ætti að leiðrétta til allra þeirra sem töpuðu tekjum eða var bannað að innheimta sjálfir inná ferðamannastaði sem höfðu verið byggðir upp.
Á Reykjanesi voru þær hugmyndir hjá Ferðamálasamtökum Suðurnesja að byggja upp svæðið í kringum Gunnuhver og brú milli heimsálfa í svokölluðum „Hundrað gíga garði“ þar sem mætti innheimta gjald. Búið var að byggja upp svæðið við Gunnuhver, setja út gönguleiðir á Reykjanesinu, byggja upp náttúrulaugina í Valbjargargjá og hanna þjónustuhús við Valahnjúk. Leigusamningur lág fyrir við landeigendur og hugmyndir um hvernig landið væri nýtt og nýtt gönguleiðakort af Reykjanesinu var komið út með Hundrað gíga garðinum. Samhliða þessu hafði stjórn Ferðamálasamtaka Suðurnesja unnið að stofnun Geoparks á Reykjanesi og sett upp ráðstefnu um geoparkinn sumarið 2013.
Þegar ný stjórn tók við Ferðamálasamtökunum 2012, eftir átakafund, ákvað þessi nýja stjórn að hætta allri uppbyggingu á Reykjanesinu. Sagt var upp samningnum við landeigendur og uppbyggingu þjónustuhúss við Valahnjúk var hætt og ráðstefnan um geoparkinn var slegin af og upplýsingamiðstöðvum lokað. Að mínu áliti var þessi framganga með hreinum ólíkindum og skemmdarverk í uppbyggingu ferðamennsku á Reykjanesinu. Ekkert er að gerast í dag nema í kringum Bláa Lónið sem virðist lítt una því að aðrir hafi svigrúm á Reykjanesinu nema með þeirra samþykki.
Það er eitt sem ferðaþjónustan á Suðurnesjum verður að muna, hvað sem öðru líður, að til að hingað fáist peningar úr sjóðum, opinberum eða öðrum, þá er frumskilyrði að einhver framtíðaplön um uppbyggingu á svæðinu séu til staðar. Að því leyti er skiljanlegt að Reykjanesið fái ekki úthlutað lengur peningum úr opinberum sjóðum, hér eru engin plön. Hér hefur ekkert verið að gerast í uppbyggingu ferðamannastaða í þrjú ár þrátt fyrir það að fjölgun ferðamanna til landsins hafi vaxið gríðarlega eftir mikla vinnu í markaðsstofum landshlutanna með Ferðamálastofu og Íslandsstofu. Ég vil beina þeim eindregnu tilmælum til stjórna Ferðamálasamtakanna og Geoparksins að koma fram með áætlanir um frekari uppbyggingu á Reykjanesinu og setja sér markmið. Hér eru ótakmörkuð tækifæri til uppbyggingar og kalla ferðamenn eftir því . Að endurvekja hugmyndina um Hundrað gíga garðinn og þjónustuhús við Valahnjúk væri góð byrjun. Þjónustuhúsið „Valan“ hefur þegar verið hannað af besta arkitekt landsins á þessu sviði.
Kristján Pálsson
f.v. formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja