Eitrun súrefnisríka sjávarloftsins - Trabantinn verður notaður
Í tenglsum við kísilverið sem Arion banki keypti og haldinn var fundur um í Stapa 21 nóvember síðastliðinn, var hægt að skilja sem svo á frummælendum að framkvæma ætti einhverskonar barbabrellu og uppfæra verksmiðjuna í toppstand fyrir ekki svo fáa smáaura. Svipað og ef einhver reyndi að breyta Trabant í Benz. Það er misskilningur. Eftir að hafa gluggað í drög að tillögu matsáætlunar hjá Verkís verkfræðistofu, sem hægt er að lesa á netinu, er það á hreinu að þeir ætla að nota „Trabantinn“ áfram (http://stakksberg.com/reports/kisilverksmidja-helguvik-matsaaetlun-drog.pdf)
Til að minnka mengunina sem hann mun valda ætla þeir að hafa hann eins lengi og hægt er í gangi. Svo ætla þeir að setja á hann auka púströr (skorstein), sem vísa á beint upp í loftið og ná hátt upp. Strompinn á að nota í þau skipti sem drepst eða drepa þarf á vélinni og setja þarf í gang aftur, því þá er mengunin mest segja þeir. Hún er sáralítil ef vélin er alltaf á fullum snúning (áætl. sex tonn af eiturefnum á dag). Að öllu gamni slepptu er margt upplýsandi í drögunum. Arion ætlar einungis að setja einn ofn (Trabant) í gang áður en verksmiðjan verður seld. Þetta kom ekki skýrt fram á fundinum. Eftirfarandi úrbætur sem eru sagðar „umfangsmiklar“ fóru eflaust ofan garðs og neðan hjá mörgum, en voru tíundaðar í Stapa.
Endurbæta á:
-
Meðhöndlun á flutningi og geymslu hráefna
-
Verklag við málmsteypu
-
Meðhöndlun á steyptum málmi
-
Ofn og stoðkerfin í ofnhúsi,
-
Afsog frá búnaði í ofnhúsi (m.a. vegna tilfella þegar steypa þarf í sæng)
-
Hreinsun útblásturs og meðhöndlun ryks
-
Mannvist í ofnhúsi
-
Innleiða umhverfisstjórnunarkerfi
-
Setja upp neyðarskorsteins (eins og bent er á hér í fyrstu málsgrein)
-
Breyta á meðhöndlun og geymslu framleiddrar vöru
-
Lagfæra á lóð og umhverfi innan lóðar
Einungis þrjár til fjórar af þessum endurbótum eru til þess fallnar að minnka mengun á andrúmslofti bæjarbúa. Úrbæturnar munu samt sem áður ekki minnka eiturefnalosunina niður fyrir sex tonn á dag (sólarhring).
Við hvað er miðað?
Allar tölulegar upplýsingar í matsáætluninni eru aðeins áætlaðar (líka tonnin af eiturefnum). Minnst er á rauntíma mælingar frá síðasta ári, sem allar voru innann umhverfisviðmiða. Viðmiðin eru ef að líkum lætur komin frá ESB. Þeir sem hafa ferðast víða þekkja þá svima tilfinningu, sem við stundum verðum fyrir vegna mengunar í erlendum stórborgum og á sumum svæðum þungaiðnaðar t.d. í Mið-Evrópu. Áratuga aðlögun, jafnvel í kynslóða tali gerir fólkið sem býr við þessar aðstæður líklega sljótt og værukært fyrir súrefnisleysinu.
Vel er þekkt hvernig íbúar hæstu fjallahéraða heimsins þola minna súrefni í andrúmsloftinu, en þeir sem búa t.d. við sjávarsíðuna.
Við skulum líta til Noregs þar sem kísilver eru staðsett í þröngum fjörðum og í einhverjum tilvikum í bæjarkjörnum. Um aldir hafa Norðmenn yljað sér við viðareld. Þeir eru því vanir sótögnum og reyklykt í andrúmi sínu frá aldaöðli. Að auki má gera sér í hugarlund að í skjóli skógi vaxinna djúpra dala leitar heiti reykurinn upp fyrir trjátoppana og jafnvel upp fyrir fjallsbrúnirnar, áður enn hann berst með vindinum, en mannfólkið, sem er flest í innann við tveggja metra hæð frá jörðu, sleppur að mestu við sárustu áhrif hans. Við eigum ekki því láni að fagna á Suðurnesjum, að heit menguninn frá kísilverinu í Helguvík muni svífa í logni upp fyrir trjátoppa og leggi þaðan af stað í loftþynningar ferlið. Um leið og hún kemur út frá verinu tekur golan eða rokið og feykir henni á íbúabyggðina ef vindar blása þannig. Hér er því ekki saman að jafna norskri eða evrópskri súrefnislítilli lognmollu og sérstaklega eiturefna blönduðu, súrefnisríku sjávarlofti, sem hér mun ríkja ef fer sem horfir.
Viltu „vera memm“?
Á Íslandi og sérstaklega á Suðurnesjum hafa íbúar svæðisins í aldanna rás andað að sér fersku súrefnisríku sjávarlofti, stundum þegar blæs af hafi blandað örfínum saltögnum. Líklega er það þess vegna, sem þeim sundlar þegar mengun takmarkar súrefnismagn andrúmsins. Við minnumst þess þegar fiskmjölsverksmiðjan (Gúanóið) var í gangi í Keflavík og lyktina lagði yfir bæjarbúa. VOC er þessi mengun skammstöfuð og þýðir rokgjörn lífræn efnasambönd. Húsmæður urðu að taka allan þvott inn af snúrum, loka öllum gluggum og þola fnykinn (VOC-ið) löngu eftir að vindáttin breyttist. Nostalgían kemur stundum upp hjá sumum þegar Fiskimjölsvinnsla Síldarvinnslunnar í Helguvík og ferska súrefnisríka sjávarloftið eru samferða yfir byggðina, sem gerist endrum og eins, en hvergi í því mæli sem var frá Gúanóinu. Nú vill Arion banki „vera memm“ eins og stundum er sagt og bæta í súrefnisríka sjávarloftið u.þ.b. sex tonnum af eiturefnum alla daga ársins (rúml. 2.000 tonn á ársgrundvelli). Fyrir þá sem þekkja til í efnafræði að þá eru eftirfarandi eiturefni m.a. tilgreind í matsáætluninni brennisteinsdíoxíð (SO2), köfnunarefnisoxíð (NOx), svifryk (PM10), fjölhringa arómatísk vetniskolvetni (PAH16), þrávirk lífræn efni (POP) og ekki má gleyma rokgjörnu lífrænu efnasamböndunum (VOC). Bæjarbúar eru búnir að fá smjörþefinn af þessari loftblöndu.
Nú er það á forræði kjörinna fulltrúa að meta hvort andrúmsloft íbúa sé meira eða minna virði en „sokkinn kostnaður?“ Arion banka. Standa í lappirnar og segja nei þegar þeir spyrja „viltu vera memm“ við að eitra súrefnisríka sjávarloftið.
Reykjanesbæ 28. nóvember 2018,
Tómas Láruson