Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 23. janúar 2001 kl. 09:19

Einu sinni var

„Ísland úr Nato og herinn á brott“, glumdi í fundarsal bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þegar gemsinn hans Jóa Geirdal hóf upp raust sína. Bæjarfulltrúar hrukku í kút og unaðshrollur fór um nokkra Samfylkingarmenn þegar þeir heyrðu þennan lagbút. Bjartar minningar um Keflavíkurgöngur og sælar samverustundir við gerð kröfuspjalda komu upp í hugann. Já, það verður að segjast að Jóhann er trúr sannfæringu sinni...

Grænásinn fyrir heyrnarlausa
Senn líður að því að lóðir á Grænássvæðinu verði auglýstar til úthlutunar og bíða víst margir með mikilli eftirvæntingu eftir því. Þó er ljóst er að hávaðamengun á svæðinu verður nokkur. Á þorrablóti UMFN og Kvenfélags Njarðvíkur, sem haldið var í Stapa um helgina, var þeirri hugmynd varpað fram að svæðið yrði auglýst sem byggingarsvæði fyrir heyrnarlausa af þessum sökum.

Óþekkur bæjarstjóri
Ellert Eiríksson viðurkenndi á fundi bæjarstjórnar í síðust viku að hann gerðist stundum svo djarfur að aka frá Sjávargötu yfir á Grundarveg, en sú leið er aðeins ætluð fyrir AVR. Ellerti finnst hins vegar að sú leið eigi tvímælalaust að vera opin fyrir almenna umferð. Umferðaskipulag Reykjanesbæjar var til umræðu á fundinum og bæjarstjóri stakk einnig upp á því að Grundarvegur yrði opnaður fyrir umferð við Sparisjóðinn í Njarðvík. Foreldrar í Njarðvík verða vafalaust lítt hrifnir af þessum tillögum Ellerts en þær falla að sama skapi í kramið hjá fótalúnum og lötum bæjarbúum sem geta ekki hugsað sér að leggja bifreiðum sínum og ganga spottakorn...

Félagi Jóhann
Eins og áður hefur komið fram er Jóhann Geirdal trúr sannfæringu sinni en hann hefur þann skemmtilega ávana að kalla bæjarfulltrúa „félaga“ þegar hann ávarpar þá á bæjarstjórnarfundum. Oftar en einu sinni hefur hann komið með fyrirspurnir til „félaga Jónínu“ og „félaga Böðvars“, svo einhverjir séu nefndir. Jónína Sanders svaraði Jóhanni á sömu mynt um daginn og það var ekki annað að sjá en að Jóhanni líkaði nafngiftin vel - félagi Jóhann skal það vera!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024