Einstaklingsmiðað nám! Falleg hugsjón en hver er veruleikinn ?
Nýjasta æðið ef svo má segja í skólamálum í dag er svokallað einstaklingsmiðað nám. Þetta nám miðar að því að hver nemandi fái nám og kennslu við sitt hæfi. Þessu mótmælir enginn enda tel ég nú víst að hver einasti kennari vilji sínum nemendum allt það besta og vilja örugglega taka hverjum nemanda á þeirra forsendum. En hvernig er þetta í framkvæmd? Miðað við stöðuna í dag er þetta ekki hægt svo vel sé. Skólar í dag hafa tekið miklum framförum er varðar þjónustu við þá sem búa við námserfiðleika og eru alltaf að leita leiða til að bæta þjónustuna enn frekar. Nemendur sem eru í meðallagi í námi fylgja öll því námsefni og þeim markmiðum sem aðalnámskráin segir til um fyrir hvern árgang, en það eru nemendurnir sem eru fyrir ofan meðallag í námi sem fái e.t.v. ekki kennslu við hæfi.
Einstaklingsmiðað nám ætti fyrst og fremst að beinast að jöðrunum því nemendurnir í miðjunni eru í nokkuð góðum málum með kennslu og námshraða við hæfi. Bráðger börn þurfa meiri örvun en þau fá, á sama hátt og börn með námserfiðleika fá meiri örvun en gengur og gerist. Skólamenn tala fjálglega um það að kennarar VERÐI að mæta hverjum og einum nemanda, kynnast honum vel og áhugamálum hans til þess að geta boðið nemandanum einstaklingsmiðað nám, þetta gera kennarar nú þegar og hafa reynt af fremsta megni að koma til móts við ALLA nemendur. En ef vel á að takast í þessum málum þá þurfa að koma til meiri bjargir. Kennarar eru almennt með of stóra bekki til þess að kynnast nægilega vel nemendum sínum til þess að gera sér grein fyrir því hvar skóinn oft kreppir.
Að ætlast til þess að kennari með t.d. 25 nemendur á sínum snærum þekki þá hvern og einn svo persónulega að þeir viti allt um nemandann er bara ekki hægt. Það ættu ekki að vera fleiri en 15 nemendur á hvern kennara ef ætti að vera unnt að kynnast þeim svo náið, kennarinn þarf jú að geta gefið hverjum og einum meiri og betri tíma en nú er. Eru ekki ca. 6-8 börn á hvern leikskólakennara ? af hverju ætti þá kennari að geta verið með 25 nemendur ?
En það er heldur ekki nóg að fækka nemendum á hvern kennara, það vantar ýmislegt fleira eins og námsefni við hæfi. Það vantar tilfinnanlega námsefni t.d. á unglingastigi fyrir nemendur með námserfileika og þá einnig verðum við að fá upplýsingar um hvaða námsefni eigi að bjóða bráðgeru nemendunum. Við þurfum einnig meira samband eða tengingu við framhaldsskólann þegar við ætlum nemendum okkar meira og flóknara námsefni, bæði hvað varðar námsefnið sjálft svo og námsmatið. Hvernig taka framhaldsskólarnir við þessum nemendum, fá þessir nemendur nám sitt metið þar eða.... Kennarar reyna að komast að áhugasviði nemenda sinna til þess að krydda nám þeirra með einhverju sem þeir hafa áhuga á, oft er um að ræða áhuga er tengist einhverri iðn en þá kemur babb í bátinn, það má jú ekkert kosta því það vantar alltaf fjármagn, verknám er dýrt þ.e. aðföngin. Og hvað gera danir þá ?
Þá reynir á hugmyndaauðgi kennarans að reyna finna einhvern flöt á því að koma til móts við nemandann og leita jafnvel út af örkinni til þess að finna bjargirnar sjálfir, en er það í verkahring kennara einnig að finna bjargirnar ? Eru það ekki skólarnir og eða sveitarfélögin sem eiga að sjá um þá hlið ? Ríkið gæti nú, í ljósi þess að það kemur fram með slíkar hugsjónir, lagt til meira fjármagn til sveitarfélaganna til að efla þennan þátt. Ef ekki kemur til meira fjármagn, tenging við framhaldsskólana og meiri gróska í námsefni þá er betur setið heima en af stað farið, þetta dettur þá um sjálft sig.
Framtíðarskólinn - Verknámsskólinn
Eru skólar strákavænir ! Nei það tel ég ekki svo vera. Strákar þurfa oftar meira verknámsmiðað nám heldur en stelpur og því rekast margir þeirra illa innan grunnskólans eins og hann er byggður upp. Strákar (einnig stelpur, en færri) þurfa nám sem byggir á því að gera eða skapa, “Lerning by doing”. Drengir (oftast) sem rekast illa í skóla, hafa jafnvel verið greindir með ofvirkni með athyglisbresti eða aðrar greiningar s.s. með lestrarerfiðleika snemma á grunnskólaaldri missa oft fótanna í náminu og jafnhliða versnandi námsárangri fer hegðun þeirra oft einnig versnandi. Í ljósi reynslu minnar hef ég sérstaklega skoðað þessi mál og komist að þeirri niðurstöðu að til þess að koma til móts við þennan hóp þyrfti að stórefla verklega kennslu í grunnskólanum. Helst hefði ég viljað sjá að grunnskólanum væri skipt upp í bóknám og verknám þegar á unglingastigi 8. til 10. bekkur, en það myndi sjálfsagt reynast of dýr biti fyrir sveitarfélögin að halda slíkri deild úti fyrir fremur litla hópa. Í Grunnskólanum í Sandgerði varð úr að stofna lítinn verknámsbekk þ.e. stefnt er að því að stórefla verklega kennslu fyrir þá nemendur sem koma í þann bekk og mikið er lagt upp úr því að efla félagsfærni nemenda og bæta líðan. Ef nemanda líður illa og finnur sig ekki í náminu þá er engin von til þess að námsárangur hans verði betri. En það er mjög dýrt að halda uppi verknámi og því hef ég verið að velta fyrir mér frekari kostum.
Þá er ég loks að komast að kjarnanum, ég legg til að sveitarfélögin Reykjanesbær, Sandgerði og Garður hugsanlega Vogar setji á fót sameiginlegan verknámsskóla á grunn- og framhaldsskólastigi sem hafi þessa 3 árganga innan borðs auk aldurshópsins 16 – 18 ára tala nú ekki um ef það er ætlun stjórnvalda að setja skóla- eða fræðsluskyldu á hópinn 16 til 18 ára. Hvar ætti sá hópur að vera ? FS gæti ekki tekið við þeim öllum og hvað þá ? á að hafa þessa árganga innan grunnskólans ? En aftur að verknámsskólanum, þessi skóli væri þá rekinn sameiginlega, en einnig ætti að fá samtök iðnaðarins, stéttarfélög og fyrirtæki á svæðinu til þess að koma að kostun slíks skóla enda þeirra hagur einnig að stórefla verkmenntun í landinu, einnig væri hugsanlegt að ríkið (styrk) / framhaldsskólinn FS tæki þátt í slíkri þróunarvinnu. Þessi skóli yrði einnig að geta tekið á námsvanda nemenda t.d. lestrarvanda og vinna að því að öll hjálpargögn sem hægt er að nota í bóknámi s.s. hljóðsnældur séu framleiddar með öllu námsefni og aðlagaðar kennsluaðferðir notaðar s.s. munnleg próf. Fyrirtæki sem tækju þátt gætu þá e.t.v. notið einhverrar ívilnunar frá hendi sveitarfélaganna sem gæti verið hvati fyrir þau að taka að sér einstaka þætti s.s. verklegt nám innan síns fyrirtækis þannig að nemendur fái bæði kennslu og þjálfun til verka. Við búum við það að ungt fólk á svæðinu sérlega drengir flosna upp úr framhaldsskóla af því að þeir hreinlega höndla ekki námið og þrátt fyrir að framhaldsskólinn bjóði upp á verknám þá fylgir öllu námi bóklegar greinar sem þessir nemendur þurfa að ganga í gegnum á sama hátt og aðrir nemendur þó svo að upp á námsgetu þeirra skortir t.d. varðandi lestrargetu. Þessi verknámsskóli gæti hugsanlega einnig boðið upp á verknám fyrir 16 – 18 ára sem þeir gætu svo lokið í almennum framhaldsskóla og væru þá hugsanlega búnir með allar bóklegar greinar, þyrftu aðeins einhver misseri í verklegu og sveinspróf væri tekið í framhaldsskólanum. Ég tel að FS eigi mjög erfitt með að taka við þessum nemendum sem þurfa svo mikinn stuðning þannig að við værum að leysa úr vanda grunnskólanna og FS auk þess sem er aðalatriðið að koma betur til móts við þarfir nemenda með námsörðugleika.
Ef þessi tillaga mín gæti orðið að veruleika þá tel ég að Reykjanesbær ætti að hafa forgöngu í málinu þar sem það er í raun sterkasta sveitarfélagið til þess að halda utan um slíkt samstarf þar sem miðstöð fræðslumála fyrir svæðið er hér í bænum.
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir
Félagsfræðingur & kennari