Einnar messu virði
Í dag kl. 17:00 mun bæjarstjórn Reykjanesbæjar taka afstöðu til samnings við Hrafnistu um rekstur hjúkrunarrýma á Nesvöllum. Með því að staðfesta samninginn er ljóst að stjórnun heimilisins að Nesvöllum verður send burt úr bænum.
Hrafnista veitir ágæta þjónustu en getur ekki verið að heimamenn geti veitt jafngóða þjónustu? Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) hefur einnig sýnt því áhuga að sjá um reksturinn og hefur reyndar rekið 18 hjúkrunarrými í millibilsástandi á meðan beðið var eftir nýju rýmunum á Nesvöllum. Samlegðaráhrif reksturs þeirra rýma hefur nýst HSS við að veita Suðurnesjamönnum öllum heilbrigðisþjónustu.
Ef samið yrði við HSS um reksturinn þá nyti stofnunin ávinnings af samrekstrinum og starfsfólk héldi vinnu sinni. Ef HSS fær ekki önnur verkefni þegar hjúkrunarrýmin færast frá stofnuninni þá er augljóst að uppsagnir starfsmanna fylgja í kjölfarið, stofnunin veikist til muna sem kemur aftur niður á þjónustu hennar við íbúa Suðurnesja á öllum aldri.
Ég hef sem Suðurnesjamaður áhyggjur af þessari stöðu. Afstaða til þess hver sér um rekstur nýrra hjúkrunarrýma á Nesvöllum á ekki að vera byggð á flokkapólitík heldur á gæðum þjónustu og um leið á áhrifum ákvörðunarinnar á eina af lykilstofnunum samfélaganna á Suðurnesjum.
Er það ekki einnar messu virði að fresta ákvörðun um rekstraraðila og fara betur yfir það hvað heimamenn geta boðið? Ef heimamenn geta boðið jafn góða þjónustu og Hrafnista, þá er enginn vafi á því að því fylgir ávinningur fyrir samfélagði allt.
Ég skora því á bæjarstjórn Reykjanesbæjar að fresta afgreiðslu málsins, kynna stöðuna fyrir íbúum og meta á ný kostina sem í boði eru.
Oddný G. Harðardóttir,
Suðurnesjamaður og þingmaður Samfylkingarinnar