Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Einn svartur ruslapoki!
Laugardagur 20. apríl 2013 kl. 14:16

Einn svartur ruslapoki!

Í tilefni að Grænum apríl ætlar Olís í samvinnu við Reykjanesbæ að gefa hverjum íbúa einn svartan ruslapoka og hvetja þannig til umhverfisátaks helgina 20.-21. apríl nk.  

Grænn apríl er verkefni sem hópur áhugafólks um umhverfismál hrinti í framkvæmd í fyrsta sinn árið 2011. Markmiðið er að fá ríkisstjórnina, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að kynna vöru, þekkingu og þjónustu sem er græn og umhverfisvæn og styður við sjálfbæra framtíð á Íslandi.
Aprílmánuður var meðal annars valinn vegna þess að dagur jarðar er haldinn hátíðlegur víða um heim í apríl og hinn íslenski dagur umhverfisins er einnig í apríl ár hvert. Jafnframt er apríl sá mánuður þar sem Ísland er að vakna af vetrardvala og því tilvalið að takast á hendur verkefni sem snúa að umhverfinu.
Tilgangur félagsins er að vinna að því að gera aprílmánuð að grænum mánuði á Íslandi þar sem lögð er áhersla á að kynna og bjóða upp á upplýsingar um þekkingu, vöru og þjónustu sem telst vera græn og umhverfisvæn. Með sameinuðu átaki er ætlunin að gera umhverfisumræðuna skemmtilega, líflega og kúl fyrir alla Íslendinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grænn apríl er átak áhugafólks um umhverfisvernd, grænt atvinnulíf og leiðtogamöguleika Íslands á sviði sjálfbærni. Með því að sameina kraftana má setja grænar framfarir í sviðsljósið einn mánuð á ári og kynna þannig fyrir almenningi öll þau mikilvægu grænu verkefni, vörur og þjónustu sem í boði eru á Íslandi í dag.  

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á www. graennapril.is

Laugardaginn 20. apríl nk. geta íbúar Reykjanesbæjar tekið virkan þátt í verkefninu og komið við á þjónustustöð Olís - Básinn við Vatnsnesveg, en þar er opið frá kl. 7.30-23.30, og fá þar hver einn svartan ruslapoka.  Næst er svo að ganga um hverfið sitt þessa helgi og týna upp ruslið sem á vegi verður, loka pokanum vandlega þegar hann er fullur og skilja eftir við gangstétt eða þann stað þar sem hverfisvinir geta nálgast hann.  

Mánudaginn 22. apríl nk. tekur þjónustumiðstöðin við ábendingum um hvar poka er að finna í síma 420-3200. Hverfisvinir fara því næst um bæinn og koma pokunum á réttan stað til förgunar.
Margar hendur vinna létt verk og munum að þetta er bærinn okkar og ábyrgðin okkar.

Kveðja Berglind Ásgeirsdóttir
Garðyrkjufræðingur hjá Reykjanesbæ