Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Einkavæðing HS Veitna, ekki gott
Mánudagur 27. janúar 2014 kl. 11:13

Einkavæðing HS Veitna, ekki gott

- segir Friðjón Einarsson oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ

Fyrirhuguð sala á hlut Reykjanesbæjar og Reykjavíkur í HS Veitum hefur vakið mikla athygli að undanförnu. Þetta er stór ákvörðun þar sem í fyrsta sinn er verið að einkavæða veitufyrirtæki á Íslandi. Einkavæðing orku- og veitufyrirtækja hefur víða verið í umræðunni og ekki er langt síðan að hluti Hitaveitunnar gömlu var einkavæddur (HS Orka). Þá átti einkavæðingin að vera bjargvættur álversins í Helguvík því virkjunaráform fyrirtækisins væru of dýr og áhættusöm fyrir sveitarfélögin. Ekki er hægt að segja að þessi sala hafi verið álverinu til góðs. Flestir kannast við einkafyrirtækin sem nú eru horfin t.d. Geysir Green, Magma, Reykjavik Invest o.fl. Einkavæðing veitufyrirtækja hafa því miður reynst dýrkeypt fyrir almenning víða í Evrópu og sorglegt að við skulum ekki læra af mistökum annarra.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ hafa verið á móti þessari einkavæðingu í mörg ár og ítrekað mótmælt þessum hugmyndum. Það kemur því á óvart að fyrrum oddviti A-listans í Reykjanesbæ skuli í blaðagrein hrósa sjálfstæðismönnum fyrir söluna.

Í sömu grein er sjálfstæðismönnum einnig hrósað fyrir að hækka ekki þjónustugjöld hjá Reykjanesbæ. Gaman hefði verið í þessu sambandi að fyrrum oddviti hefði látið þess getið að það voru bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ sem hófu fyrst þessa umræðu um þjónustugjöld í lok september með bókun í bæjarráði. Það tók nokkuð langan tíma að fá sjálfstæðismenn í bæjarstjórn að hætta við 5% hækkun gjalda. En það tókst og fyrir það ber að þakka.

Friðjón Einarsson
Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024