Einkaframtakið og auðlindirnar
Það held ég að flestum ef ekki öllum hafi alltaf verið ljóst að aðkoma einkaframtaks að orkumálum þjóðarinnar er mikilvæg. Án aðkomu þess hefðu sennilega enga virkjanir verið byggðar. Þar hafa smiðir, jarðvinnuverktakar og verkfræðingar öðlast reynslu, þekkingu og verkefni sem nýst hefur samfélaginu til framdráttar. Og svo mun verða áfram.
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ birti hér í gær hástemmda grein um mikilvægi einkaframtaksins. Og gaf í skyn í grein sinni að næðu fyrirhugaðir samningar við Magma ekki fram að ganga jafngilti það útrýmingu einkaframtaks á orkusviði. Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að bæjarstjórinn yfirdramtiseri hlutina svolítið fyrir sér , nái hugmyndir hans um einkavæðingu nýtingar auðlindarinnar ekki fram að ganga.
Það liggur fyrir að jarðhitaauðlindin á Suðurnesjum er í eigu opinberra aðila að langmestu leyti. Og var raunar áður en til einkavinavæðingarinnar kom. Magmamálið snýst ekki um hverjir eiga auðlindina . Heldur snýst það um hverjir munu nýta þá auðlind í framtíðinni. Hversu lengi og hvernig. Og hvert arðurinn af þeirri nýtingu muni renna. Sú umræða getur aldrei snúist um hvort verið sé að útrýma einkaframtaki á orkusviði eins og bæjarstjórinn leggur upp með.
Það held ég að öllum sé nú orðið ljóst, að einkavinavæðingin á Hitaveitu Suðurnesja voru mistök. Mistökin lágu fyrst og fremst í því að þáverandi eigendum HS var meinað af einkavæðingarnefnd að bjóða í hlut ríkisins. Og ekki virðist eftirleikurinn hafa bætt stöðu fyrirtækisins eins og lagt var upp með.
Það er alls ekki svo fjarri lagi sem nú er haldið fram að erlent skúffufyrirtæki sé nú að hirða auðlindina, þó ljóst sé að eignarétturinn sé í höndum opinberra aðila. Hvort og hverjum er selt er hinsvegar í höndum handhafa nýtingaréttarins. Sá aðili sem nýtingaréttinn hefur er þannig í oddastöðu hvað varðar framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Það sjáum við best á hver staðan er á sölu orku til álverisns í Helguvík. Átti ekki allt að vera frágengið hvað þann þátt varðar?
Það held ég að við Árni Sigfússon séum algerlega sammála um að það verður einkaframtakið sem mun að lokum rífa okkur út úr þeirri kreppu sem einkavinavæðing flokks hans hefur komið þjóðinni í. En það verður þá að vera einkaframtak sem byggir á trausti samfélagsins sem að baki stendur. Á það virðist skorta í Magma málinu.
Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson