Einfaldur maður
– Baldur Rafn Sigurðsson skrifar
Texti úr lagi frá hljómsveitinni Lynyrd Skynyrd sem ber nafnið Simple Man Lyrics, einfaldur maður, kom í huga mér þegar ég ákvað að taka sæti á lista fyrir bæjarstjórnar-kosningar 31. maí n.k. Textann er hægt að túlka á ýmsan hátt. Fyrst og fremst er inntak hans að við eigum að reyna að hafa stjórn á okkar eigin lífi, reyna að vera hamingjusöm og einnig að hafa stjórn á nærumhverfi okkar. Í textanum er varað við tvöfeldni.
Ágætu íbúar Reykjanesbæjar! Á kjördag fáum við það vald í hendur að hafa áhrif á líf okkar til næstu fjögurra ára. Við þurfum breytingar. Það hefur komið svo berlega í ljós að við sem byggjum Ísland erum orðin þreytt á þeim gömlu stjórnmálahreyfingum sem stjórnað hafa í gegnum tíðina. Þar hefur alltof oft verið ríkjandi hið svokallaði foringjaræði, þar sem leiðtoganum er fylgt þrátt fyrir að fylgjendum séu ljósir annmarkar á hugmyndum hans. Fyrir kosningar gengur síðan yfir loforðaflaumur þar sem öllu á að bjarga er miður hefur farið en lítið verður úr efndum. Þetta getum við kallað tvöfeldni. Kjósendur vilja ekki þannig loforðaflaum heldur stefnu og markmið sem taka mið af raunverulegri stöðu.
Bæjarfulltrúar þurfa að hafa að leiðarljósi að þeir eru að vinna fyrir fólkið en ekki flokkinn. Flokkurinn er ekki stærri en fólkið og gagnvart því þurfa kjörnir fulltrúar að sýna auðmýkt.
Ég hef aldrei áður tekið þátt í stjórnmálastarfi en tók sæti á lista Frjáls afls því að mér þykir vænt um bæinn okkar og tel nauðsynlegt að breytingar verði á stjórn og rekstri bæjarins. Í Frjálsu afli er fólk með ýmsar stjórnmálaskoðanir sem hefur starfað með ólíkum flokkum eða staðið utan skipulegs stjórnmálastarfs. Fólkið í Frjálsu afli vill breytingar með aðkomu íbúa bæjarins.
Fjöldi fólks býr við þá stöðu að eiga ekki fyrir lágmarks framfærslu. Þá þarf að standa vel að þjónustu við fatlaða en sveitarfélögin hafa ekki frá því að þau tóku við þeim málaflokka náð að uppfylla þau gæði þjónustu sem þeim er að lögum skylt að veita. Þá er ljóst að átak þarf að gera í húsnæðismálum.
Nauðsynlegt er að grunnstoðirnar séu traustar til þess að þessum markmiðum verði náð. Til þess að það sé mögulegt þarf að sýna ráðdeild og velta við hverjum steini þegar kemur að fjármálum bæjarins. Undirstaðan hlýtur þó alltaf að vera fjölbreytt og traust atvinnulíf. Við í Frjálsu afli viljum styðja við bakið á raunhæfum atvinnutækifærum án þess að dreifa kröftunum um of. Með því skapast ekki eingöngu tekjur fyrir bæjarfélagið til að standa myndarlega að velferðarmálunum heldur það sem mikilvægara er að fólkið í bænum fær tækifæri sem kemur fjölda fólks úr þeirri stöðu að þurfa á félagslegri aðstoð að halda.
Frjálst afl iðkar ekki þá tvöfeldni sem felst í óraunhæfum loforðaflaum heldur býður uppá stefnu sem felur í sér forgangsröðun í þágu fólksins og raunhæfar hugmyndir um uppbyggingu með aðkomu bæjarbúa. Ég býð mig því fram fyrir Frjálst afl, því að ég er einfaldur maður.
Baldur Rafn Sigurðsson
í framboð fyrir Frjálst afl, X-Á