Einfaldara rekstrarform og lækkun leigugreiðslna náist samningar
Á fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar 6. júlí sl. var fjallað um breytingar á Eignarhaldsfélaginu Fasteign (EFF). Samþykkt var einróma tillaga þess efnis að haldið yrði áfram samningsumleitunum við lánastofnanir þannig að hagur sveitarfélaganna sem aðild eiga að EFF yrði tryggður.
Ástæða þess að farið var að huga að breytingum voru einkum þær að Háskólinn í Reykjavík og bæjarfélagið Álftanes gátu vegna fjárhagsörðugleika ekki lengur staðið undir skuldbindingum sínum gagnvart EFF. Einsýnt þótti að við EFF myndu blasa erfiðleikar ef ekkert yrði að gert.
Frá því í desember sl. hafa átt sér stað samningsumleitanir milli stjórnar EFF og lánastofnana í samræmi við heimild hluthafafundar. Stefnt var að því að ná samningum sem fælu það í sér að sveitarfélögin yfirtækju lánin á þeim eignum sem þau nú leigja og tækju eignirnar þar með til sín aftur. Lánastofnunum hugnaðist ekki uppskipting félagsins með þeim hætti og hafa viðræður leitt til annarrar útfærslu sem mun verða sveitarfélögunum hagstæð náist samningar. Gert er ráð fyrir að hlutverk EFF minnki og verði einfaldara; viðhald eigna færist til sveitarfélaganna, leigueignir annarra en sveitarfélaga færist frá félaginu auk eigna sveitarfélagsins Álftaness. Gengið verði frá nýjum samningum við lánastofnanir sem m.a. ættu að leiða til lægri kostnaðar fyrir sveitarfélögin.
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hefur fylgst náið með þróun þessara mála og lagt sitt af mörkum í umræðu um þau. Haldnir hafa verið sameiginlegir fundir með öllum sveitarfélögunum sem aðild eiga að EFF og svo hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þar hefur gefist kostur á að fara mjög ítarlega yfir allar hliðar á rekstri EFF og framtíðarfyrirkomulagi. Sérstakur samningahópur var skipaður til þess að leiða viðræður við lánastofnanir sem Lárus Blöndal lögmaður leiðir. Hópurinn hefur skoðað ýmsa möguleika við endurskipulagningu á rekstri EFF og metið kosti þeirra og galla.
Það er eðlilegt að fólk velti málefnum Fasteignar fyrir sér og myndi sér skoðun á þeim. Meðal þess sem komið hefur fram í umræðunni er að heppilegt væri að EFF yrði gjaldþrota. Sú leið væri að mati undirritaðrar og þeirra sem skoðað hafa málið gaumgæfilega slæm einkum vegna þess að við gjaldþrot myndi stjórn félagsins sem nú er skipuð fulltrúum sveitarfélaga hverfa frá og við stjórninni tækju lánastofnanir, auk þess sem niðurstaða úr slíku ferli væri ekki líkleg til að leiða til betri útkomu fyrir sveitarfélögin en sú leið sem nú er unnið að.
Bæjaryfirvöld í Sandgerði hafa farið vandlega yfir málefni EFF og þá kosti sem eru í stöðunni. Við mat á þeim eru að sjálfsögðu hagsmunir Sandgerðisbæjar hafðir í fyrirrúmi. Það er mat bæjaryfirvalda að sú leið sem unnið er að við endurskipulagningu á rekstri EFF sé vænleg. Náist samningar munu leigugreiðslur lækka, í lok leigutímans mun eignarhald fasteignanna færast til sveitarfélaganna og grundvöllurinn fyrir rekstri EFF styrkjast.
Sigrún Árnadóttir
bæjarstjóri Sandgerðisbæjar