Eineltismál í Garðinum
Taka þarf á eineltismálum í Garðinum. Það þarf hver og einn að vera tilbúinn að skoða sjálfan sig, því samfélag okkar byggist á því fólki sem hér býr. Við erum á villigötum að benda í eina átt hvað varðar einelti. Hér í Garðinum beinist það að skólanum, Gerðaskóla. Börnin sem koma þar saman daglega eru börnin okkar. Þau verja drjúgum tíma þar á degi hverjum en líka annars staðar; íþróttum, kirkjustarfi, tónlistarskóla o.fl. og þar fara fram samskipti. Það er krefjandi að eiga góð og virðingaverð samskipti í umhverfi þar sem einstaklingarnir eru ólíkir. Það má líta á skólann og aðra skipulagða starfsemi sem„æfingastöð“ í samskiptum fyrir fullorðinsárin. Þegar við erum að æfa okkur gerum við örugglega mistök og oft stór mistök. Hvernig tökum við á samskiptavandamálum þegar þau koma upp? Einelti byrjar oftast sem samskiptavandamál sem geta síðan þróast út í einelti ef ekki er tekið á þeim. En þá segi ég – vinnum saman að því að uppræta eineltið. Við getum ekki ætlast til að börnin okkar séu góð í samskiptum og leysi málin sín á farsælan hátt ef við fullorðna fólkið getum það ekki. Börn læra af fyrirmyndum frekar en orðum. Það skiptir máli hvernig við ölum börnin okkar upp og skilum þeim inn í skólann, út úr skólanum og út í lífið. Það er sameiginleg ábyrgð margra aðila, foreldra, kennara, leikskólakennara, íþróttaþjálfara og starfsmanna stofnana sem börnin okkar sækja. Það er enginn undanskilinn. Mér finnst þó mikilvægast að byrja heimavið.
Ef við tölum í upphrópunum og órökstuddum staðhæfingum leysist ekkert. Hættum að segja endalausar eineltissögur (sem vissulega eru margar sorglegar og hrikalegar) og förum að hefjast handa við að laga til framtíðar. Við erum föst í forapytti og ófaglegum vinnubrögðum varðandi þessi mál hér í Garðinum. Ég kalla eftir vinnufundum allra foreldra í Gerðaskóla þar sem skólastefna er mótuð og hvernig tekið skuli á eineltismálum. Styrkjum foreldrahópinn t.d. með því að allir fari á samskiptanámskeið/eineltisnámskeið, fái fróðleik um góðar uppeldisaðferðir og hvernig megi taka á samskiptamálum svo dæmi séu nefnd. Þetta eru bara hugmyndir að einhverju upphafi. Allir sem sinna börnum í Garðinum ættu líka að taka þátt í þessari vinnu. Margir vinnustaðir fara á svona námskeið, af hverju ekki við í Garðinum. Fjöldi íbúa hér er eins og í mörgum stórfyrirtækjum. En það verða allir að mæta og láta sig málið varða. Engar afsakanir um að það sé svo mikið að gera og segja: það er alltí lagi hjá mér og mínum börnum, mínum börnum líður svo vel í skólanum, ég treysti mér ekki til að mæta af því hitt fólkið er ómögulegt, ég er búin að reyna svo mikið og ekkert lagast hingað til. Ég get sagt það að foreldrar hér í Garðinum geta virkilega bætt sig í að láta sig málin varða á faglegan hátt, haft meira samstarf við skólann og sinnt foreldrahlutverkinu sínu betur. Skólinn getur örugglega gert slíkt hið sama sem og aðrir sem sinna börnunum okkar. Þetta gerist ekki á einni nóttu heldur þróast og við skulum muna að enginn einn getur breytt þessu eða borið ábyrgðina. Hluti af því að breyta neikvæðum aðstæðum er að viðurkenna vandamálið, hugsa um leiðir til breytinga og síðan framkvæma, skref fyrir skref í átt að settu marki. Gerum okkur grein fyrir að það tekur tíma, þarfnast seiglu (þrautseigju) og líklega mistaka á leiðinni að settu marki. En verum auðmjúk og notum boxhanskana varlega í þeirri vinnu.
Höfum sjálfstraust og þroska til að takast á við eineltismálin. Opnum umræðuna á faglegan hátt. Hættum að ræða hlutina í eldhúsinu, í heita pottinum og á andlitsbókinni. Hittumst augliti til auglits og vöndum okkur í að leysa þessi mál til framtíðar. Þar er samvinna lykilorðið.
Ef við erum endalaust að benda á hvað aðrir eru ómögulegir og erfiðir og ekki sé hægt að tala við þennan eða hinn þá erum við föst og það endanlega í hjólförum sem við komumst aldrei upp úr. Framkoma okkar hefur áhrif á framkomu annarra. Kyngjum stoltinu, því sem við höfum sagt í fortíðinni og leyfum okkur að taka skref fram á við. Í því felst ávinningur og árangur.
Að vera jákvæður merkir að leita lausna og líta á vandamál sem verkefni. Við þurfum að hafa jákvæðni og virðingu að leiðarljósi í viðleitni okkar að uppræta einelti í Garðinum. Það ætti ekki að vera efi í huga nokkurs manns að þetta er verkefni sem er nauðsynlegt að takast á við, með heill barnanna okkar og bæjarfélagsins í heild í huga. Ekki láta öðrum eftir alla vinnuna – ábyrgðin felst í því að hver og einn leggi sitt af mörkum. Það er samfélags- og siðferðisleg skylda okkar allra.
Virðingafyllst
Jónína Magnúsdóttir
Íbúi og foreldri í Garðinum.