Eiga eldri borgarar ekki það besta skilið?
– Hanna Björg Konráðsdóttir skrifar
Full ástæða er að líta til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í öldrunarmálum í Reykjanesbæ, á undanförnum árum. Stigin hafa verið stór skref í uppbyggingu öldrunarþjónustu. Á þessu ári var tekið í notkun glæsilegt 60 rúma hjúkrunarheimili við Nesvelli þar sem skipulag og hönnun heimilisins byggir á þeim grunni að mannhelgi er í hávegum höfð og lögð er áhersla á virðingu við íbúana. Í því felst að húsakostir eru sem heimilislegastir, íbúðir er stórar og rúma heimsóknir ættingja og vandamanna og íbúar geta sjálfir sinnt einföldum verkum, sem jafnframt veita gleði og ánægju. Hjúkrunarheimilið er einn áfangi Nesvalla sem er heildstæður þjónustukjarni fyrir eldri borgara, með aðstöðu til félagsstarfs, séreignaríbúðum, búsetuíbúðum og hjúkrunarheimili. Nesvellir uppfylla þarfir flestra, hvort sem í hlut eiga fullhraustir einstaklingar eða hjón eða þeir sem þurfa á einhverri aðstoð að halda. Í þjónustu- og félagsmiðstöð er starfrækt tómstunda- og félagsstarf við allra hæfi og má nefna fjölbreytt námskeið, heilsurækt og ýmsar tómstundir. Glæsilegur veitingastaður í hjarta þjónustumiðstöðvarinnar býður íbúum svæðisins og gestum heimilismat og einnig er þar aðstaða til veisluhalds og skemmtana.
Gerist ekki að sjálfu sér
Þær breytingar sem átt hafa sér stað í þjónustu og umgjörð öldrunarmála á Suðurnesjum eru ekki sjálfsagður hlutur. Um árabil hefur heimaþjónusta sem veitt hefur verið frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verið til eftirbreytni annarra landshluta og víða hefur sú hugmyndafræði verið fordæmisgefandi. Hugmyndin um þróun öldrunarmála var sett fram í framtíðarsýn sjálfstæðismanna fyrir hartnær 8 árum síðan, eða fyrir kosningar árið 2006. Slík heildarlausn hafði ekki sést áður í málefnum aldraðra á Suðurnesjum og lagði grunn að þeirri framtíðarsýn sem í dag er nú orðin staðreynd. Til að hrinda slíku verkefni af stað þurfti allt í senn, skýra sýn á framtíðina, hugrekki, drifkraft og áræðni ásamt þrautseigju við að klára málin. Samfélagið nýtur góðs af og er betra fyrir vikið því öll viljum við vita af foreldrum og ættingjum njóta þess besta sem völ er á, þegar þau hafa lokið góðu ævistarfi. Uppbygging í öldrunarþjónustu er aðeins eitt af mörgum verkefnum sem tekist hafa vel og munu sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ halda ótrauðir áfram veginn og klára þau verkefni sem fyrir liggja með markvissum vinnubrögðum svo tryggja megi velmegun í bæjarfélaginu okkar.
Hanna Björg Konráðsdóttir
Viðskipta- og lögfræðingur og frambjóðandi á D-lista sjálfstæðismanna.