Ég vil vera með
Dominika Wróblewska skrifar.
Fyrr á árinu ákvað ég að fara í smá óvissuferðalag sem fólst í því að taka þátt í pólitík. Fyrst var ég ekki alveg viss út í hvað ég væri að fara og hvort að þetta væri eitthvað sem ég hefði áhuga á að gera. Áhyggjurnar reyndust hins vegar vera algör óþarfi. Því meira sem ég tók þátt í þessu því skemmtilegra var það. Það er óhætt að segja að pólitík sé orðin eitt af mínum áhugamálum. Maður hittir helling af frábæru fólki sem er samt svo mismunandi hvað varðar menntun, reynslu og atvinnu, ræðir við þau um hvernig samfélagi við myndum vilja búa í, því að við eigum það jú öll sameiginlegt að okkur þykir vænt um bæinn okkar.
Mér finnst samt dálítið sorglegt hversu óvirkt ungt fólk er í pólitík. Af hverju skiptir það ungt fólk svo litlu máli hvernig samfélagið þeirra er? Það samfélag sem þau alast upp í, mennta sig, vinna og nota þjónustu? Ég er viss um að ef ég spyrði einhverja af mínum vinum af hverju hafa þau engan áhuga á pólitík myndu eftirfarandi svör koma upp: Óspennandi, ekki á mannamáli og að þetta sé bara fólk að rífast.
Ég get alveg sagt að ég var mjög sammála þeim áður en ég prófaði að taka þátt í þessu sjálf. En svo er eins og ein lítil pólitísk ljósapera hafi kviknað einhvers staðar í kollinum. Þá gerði ég mér grein fyrir því hversu mikilvægt er að hafa skoðanir um samfélagið sitt og hversu mikilvægt það er að taka þátt, beint eða óbeint, til að stuðla að betri bæ handa okkur öllum.
Pólitík getur nefnilega verið allt annað en sandkassaleikir pólitíkusa. Hún getur verið allt það sem skiptir þig máli. Það umhverfi sem þú ert í og þessi þjónusta sem þú notar. Er þá ekki rétti tíminn núna til að velta því fyrir sér hvernig við getum gert okkar samfélag betra? Hvernig við getum skapað samfélag sem ÖLLUM líður vel í? Það er nefnilega þannig, hvort sem þú trúir því eða ekki, að þín skoðun, þinn vilji og þitt atkvæði skipta máli. Það er bara undir þér komið hvort þú viljir láta þínar skoðanir, vilja og þitt sjónarhorn á framtíðarsamfélagi líta dagsins ljós.
Gætir þú hugsað þér að taka þátt í pólitík? Ég mæli með að þú gerir það og hver veit, kannski upplifir þú það sama og ég? Það er líka alltaf pláss fyrir ungt fólk að taka þátt í að breyta samfélaginu.
Dominika Wróblewska
Býður sig fram í 8. sæti hjá Beinni leið