Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ég vil mótmæla þessari fyrirsögn!
Fimmtudagur 15. apríl 2010 kl. 17:09

Ég vil mótmæla þessari fyrirsögn!

Við Suðurnesjamenn erum komnir í mikinn vanda með að fá fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og langur vegur er frá því að við séum að fá þá þjónustu sem okkur ber. Vandi virðist vera mikill í að laða að heimilislækna og þeir sem ætla sér að starfa áfram á Íslandi virðast ekki sækjast eftir að koma til starfa á Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Því var mér mjög brugðið þegar ég sá fyrirsögnina á forsíðu Víkurfrétta þann 15. apríl. Þar stendur á flennistóru letri að við séum í gíslingu læknamafíu. Við hverja er átt? Er hér verið að eiga við þá lækna sem þó starfa enn á Suðurnesjum? Eru þetta þakkirnar og velviljinn. Ég held að nær væri að við færum að rýna í ástæðu þess að læknar annars vegar fást ekki til starfa og hins að þeir sem fáist vilji ekki vera starfandi á Suðurnesjum. Greinum vandann, vinnum lausnamiðað í stað þess að fara í eitthvað „blame game“.

Í áratugi hafa heimilislæknar einir sérfræðistétta verið fastbundnari og átt erfiðara með að starfa sjálfstætt en aðrir sérfræðilæknar. Þetta hefur valdið mikilli togstreitu og hrakið þá frá því að velja sér að starfa í þessu umhverfi. Þetta verður til þess að þeir leita frekar starfa erlendis eða leita í aðrar sérfræðistéttir. Yfirvofandi er gríðarlegur landflótti heilbrigðisfagfólks og við verðum að bregðast við hratt og vel. Það er alveg sama hvað fólki finnst um launakjör þeirra eða hvað fólki finnst að þeir eigi að leggja til samfélagsins. Staðreyndirnar eru að þeir flýja þetta umhverfi hvort sem okkur líkar betur eða verr og á meðan banka nágrannaþjóðirnar á dyrnar hjá þeim með boð um gull og græna skóga.

Ég vil halda því fram að lausnin sé einföld. Bjóðum heimilislæknum að taka þátt í tilraun þar sem HSS verður einkarekið. Bjóðum þeim að ef þeir uppfylli greinargóðan þjónustusamning fái þeir sem nemi tekjum fyrir 19 stöðugildi og málið er dautt.

Sama vil ég gera við skurðstofurnar. Það er ekki praktískt fyrir Ríkissjóð að reka þær áfram í núverandi samdrætti að mati Heilbrigðisráðuneytis. Gott og vel. Við eigum samt rétt á þjónustu fyrir íbúana og því vert að skoða hvernig við getum mætt þörfum þeirra í gefnum aðstæðum. Það eru jú við íbúarnir sem erum fórnarlömb þessara aðstæðna og önnur fórnarlömb eru það heilbrigðisfagfólk sem hefur gefið alla sína orku í áratugi til að veita þjónustu í heimabyggð en hefur nú fengið reisupassann.

Hvernig getum við mættum þessum þörfum? Jú sköpum atvinnu, gott starfsumhverfi og gjaldeyrisstekjur fyrir íbúa og HSS með því að veita hópi skurðlækna aðstöðu til þess að leigja skurðstofurnar í einkarekstri. Heilbrigðisráðherra getur svo keypt eins margar aðgerðir af þessum hópi og honum hentar. Aðalatriðið er að þjónusta við íbúana sé í forgang að svo miklu mæli sem það er unnt. Með þessum hætti gætum við líka skapað störf og viðskipti fyrir aðra þjónustuaðila í ferðaþjónustu á svæðinu.

Vegna ástandsins sem hefur algerlega keyrt úr hófi fram, hefur undirrituð ásamt hópi fagaðila undirbúið stofnun félags til að mæta þessum þörfum og sent formlegt erindi þar um til Framkvæmdarstjóra HSS og til Heilbrigðisráðherra. Það hjálpar okkur enginn ef við hjálpum okkur ekki sjálf!


Adda Sigurjónsdóttir frmkv.stj.