Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ég veit hvað ég hef
Föstudagur 24. apríl 2009 kl. 10:36

Ég veit hvað ég hef

...en ég veit ekki hvað ég fæ. Þetta er það sem virðist ráða afstöðu margra til ESB og spurningarinnar um aðild Íslands að sambandinu. Þessi afstaða er skiljanleg, ekki síst með tilliti til þess hræðsluáróðurs sem andstæðingar aðildarviðræðna hafa rekið. Þar hefur ýmsum ranghugmyndum verið haldið á lofti, oft að því er virðist gegn betri vitund.

Allir virðast sammála um að sú peningastefna sem við búum við í dag þjóni hvorki hagsmunum fyrirtækja né heimila í landinu til framtíðar. Krónan dugi okkur ekki í því gríðarlega uppbyggingarstarfi sem við eigum fyrir höndum. Í viðleitni sinni til að beina umræðunni frá eina raunhæfa kostinum í stöðunni, sem er að taka upp evru, hafa aðrir flokkar en Samfylkingin reynt að slá ryki í augu fólks með því að velta upp hugmyndum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Í hinni sérstöku kosningabaráttu, sem brátt er á enda, hefur berlega komið í ljós að kjósendur þyrstir í umræður og fróðleik um ESB. Þjóðin hefur vaknað til vitundar um mikilvægi þess að við kynnum okkur hvaða kosti full aðild að sambandinu færir okkur. Þetta er eitt af meginkosningamálum Samfylkingarinnar enda teljum við okkur vita að aðildarviðræður eru besta leiðin til þess að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll.

Kjósandi góður í Suðurkjördæmi. Með því að setja X við Samfylkinguna í kjörklefanum á morgun sýnir þú ábyrgð og víðsýni í stað ábyrgðarleysis og þröngsýni. Um leið lýsir þú þig reiðubúinn að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir eitt til tvö ár, til að skera úr um hvort við eigum að gerast fullgildir aðilar að ESB. Á morgun hefur þú einstakt tækifæri til að hafa áhrif á framtíð okkar Íslendinga.

Anna Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024