Ég myndi ekki vilja vera með mér í framhaldsskóla

— Menntun fullorðinna einstaklinga

Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri, skrifaði ágæta grein í Kvennablaðið um 25 ára regluna svokölluðu sem takmarkar aðgang fullorðinna einstaklinga að framhaldsskólum.

Ég vil byrja á að hrósa henni fyrir að fara aftur í skóla sem fullorðinn einstaklingur eftir að hafa reynt í tvígang að ljúka framhaldsskóla. Mér finnst frábært þegar fólk ákveður að sækja sér menntun, sama hver hún er og hvar hún er fengin. Það skiptir engu hvað það er. Framhaldsskólar, iðnnám, háskólamenntun eða endurmenntun.

Rétt eins og Anna Margrét hafa þúsundir einstaklinga - meðal annars brottfallsnemenda - komið aftur inn í skólakerfið og haldið áfram í framhalds- og háskólanám. Það er jákvætt fyrir alla. Það er mikilvægt að fólk hafi greiðan aðgang að námi, og það er full þörf á að hlúa betur að fjölbreytni og sveigjanleika þeirra námsúrræða sem standa fólki til boða.

En ég er ekki viss um að aðgengi fullorðinna einstaklinga að framhaldsskólakerfinu sé endilega hagkvæmasta lausnin sem við getum boðið þeim uppá. Vissulega þarf að tryggja að allir sem vilja sækja sér menntun geti það. Óháð búsetu og lífskjörum, og hvenær sem er á lífsleiðinni. En það getur verið að besta leiðin fyrir fullorðna einstaklinga til að sækja nám sé ekki í framhaldsskólunum.

​Hérna komum við að yfirskrift greinar minnar. Ég sem fullorðinn einstaklingur myndi ekki vilja sitja í bekk með mér sem unglingi. Ekki misskilja mig. Ég var einstaklega skemmtilegur og kurteis unglingur, en áherslurnar mínar á þeim tíma voru allt aðrar en þær sem ég hef núna.

Það er nefninlega alsendis óvíst að fólk sæki aftur í nám, nema vegna þess að núna eru önnur tækifæri til að sækja menntun en í þeim sömu framhaldsskólum og viðkomandi aðilar flosnuðu úr. Frumgreinadeildir bjóða upp á sérhæfð úrræði fyrir fullorðna námsmenn sem flestir framhaldsskólar gera ekki lengur - ekki síðan öldungadeildirnar voru lagðar niður. Þarna er boðið upp á sveigjanlega og nútímalega kennsluhætti sem mæta þörfum og kröfum fullorðinna nemenda, í skólaumhverfi sem lagar sig að nemendum, frekar en að nemendur þurfi að laga sig að skólakerfinu.

Það er margt gott gert í fjársveltum framhaldsskólum og hugsið ykkur hvað við gætum gert með alvöru innspýtingu í menntakerfið. En það þarf jafnframt að styrkja enn betur þau námsúrræði sem standa fullorðnum einstaklingum til boða, þar sem frumgreinadeildum er núna gert mjög erfitt fyrir með fjárframlögum sem eru langt undir því framlagi sem fylgja yngri námsmönnum.

Fullorðnir námsmenn eiga á rétt á viðeigandi úrræðum í menntakerfinu, námsaðstöðu sem hentar og kennslu við hæfi. Þau eiga ekki að þurfa að snúa til baka í það umhverfi sem hugsanlega brást þeim og er ekki lengur hannað eða ætlað að sinna þeim.

Arnbjörn Ólafsson,
Höfundur skipar 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi