Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Þriðjudagur 19. nóvember 2002 kl. 07:38

Ég hvet ykkur deiluaðilar til að ná áttum - ræða Konráðs Lúðvíkssonar yfirlæknis

Framkvæmdastjórinn er farinn
og flótti brostinn á liðið.
Vírus mér tölvurnar veikir
visinn er læknaskarinn
Hljótt er í húsum sjúkra
hurðum þar vandlega lokað
En ungir og aldnir þar úti
ákalla konur er hjúkra.

Ráðherra heilbrigðismála, ágætu samborgarar.

Þetta er í stuttu máli það ástand sem ríkir innan veggja Heilbrigðstofnunar Suðurnesja. Ef það ekki væri fyrir tilstilli okkar ágætu hjúkrunarkvenna og fámenns hóps lækna væri ástand hér enn bágbornara en raun ber vitni. Mér er ekki kunnugt um að deila þessi hafi enn kostað mannslíf, þótt ómæld óþægindi hafi af hlotist. Enn einu sinni megum við Suðurnesjabúar upplifa bresti og brak í okkar heilbrigðisstofnun og Suðurnesjabúar finna fyrir ófullkomleika þeirrar þjónustu sem við búum við.

Á undanförnum misserum hefur ríkt tortryggilega hljóðlátur friður innan veggja H.S.S. Fundist hefur fyrir bæði félagslegri og faglegri samkennd meðal lækna og sjúklingar hafa fengið að hafa sinn Teit í friði. Fögur öldrunardeild er fullgerð og stolt ríkir vegna fyrstu hæðar D- álmu þar sem þjálfað er og rannsakað sem aldrei áður og fólk situr nú fræðslufundi sem það aldrei hefur haft tækifæri til að gera áður vegna aðstöðuleysis. Sá er hér stendur hefur fundið til ákveðins stolts yfir staðnum og séð fyrir sér tækifæri vera að opnast, sem gætu haft áhrif langt út fyir svæðið. Aðeins herslumun vantar til að við getum talist fullgilt sjúkrahús.
Greinilega hefur þetta verið of dýru verði keypt og því ljóst að framkvæmdastjóri varð að víkja. Á meðan friður ríkti hjá okkur var blásið í herlúðra utan svæðist, annars vegar meðal ófullnægðra kollega og hins vegar innan veggja ráðuneytis sem ekki var ánægt með störf framkvæmdastjóra okkar.

Mikið hlýtur það að vera hreint bú sem nýr framkvæmdastjóri tekur við. Búið að hreinsa herbergi heilsugæslulækna og tölvukerfið nánast óvirkt. Í hennar tíð verður allt uppávið, þar sem byrjað er frá grunni.





Við sem höfum verið gíslar þessa óyndis höfum komið fyrir nokkurs konar varðsveit vaskra kvenna, með fáeinum fallbyssum í bakgrunni. Höfum ekki viljað styggja kollegana í þeirra bárráttu fyrir sínum réttindum sem talin eru bæði grundvallarleg og samtímis kjaraleg. Þeir upplifa sig sem fjötraða á bás án nokkurra möguleika til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Þeir sinna minna og minna af eiginlegum lækningum vegna stöðugt nýrra krafna um vottorðaskrif um hin margvíslegu málefni. Allir vilja fá vottorð um allt liggur mér við að segja, eins og læknar séu dómarar um daglegt líf bæði einstaklinga og fyrirtækja. Nokkurs konar miðstöð um hið mögulega og ómögulega. Þegar þeir fá síðan snupru fyrir sín vottorðaskrif þrátt fyrir allt, brýst út margra ára uppsöfnuð óánægja og nánast fagleg óhamingja.

Í framvarðsveit þessarar óhamingju valdist okkar sveit. Sveitin sem framkvæmdastjórinn var látinn víkja vegna - þessi dýra sveit sem hingað kom úr höfuðborginni og héðan fór að degi loknum.
Hvers vegna einmitt okkar sveit af fjölmörgum kollegum starfandi um allt land? Af hverju er okkar fólk svona sérstaklega óhamingjusamt? Hefur það eitthvað með Suðurnesin að gera? Er það mér að kenna liggur mér við að segja? Ég sem taldi mig finna fyrir faglegri og félagslegri samkennd og hef þreytulaust hrósað mannauði innan veggja þessa fyrirtækis.
„Það er ekkert að ykkur“segja þeir, „ við eru í stríði við kerfið.“

Eftir tæplega þriggja vikna uhugsun hef ég komist að ákveðnum niðurstöðum. Látum þessa aðila heyja sitt stríð. Við getum þar engu breytt um. Á meðan þeir eru hættir hjá okkur, starfa þeir fyrir sama atvinnurekanda annars staðar, á einhvers konar samningi sem báðir virðast geta sætt sig við. Hvers vegna getur þetta ágæta fólk ekki unnið hér með sama samning og það er að vinna annars staðar undir?
Mitt takmarkaða heilabú nær ekki alveg að halda þessu saman. Ef þetta væri verkfall skildi ég það. þá væri reyndar verið að brjóta verkfallslög alla daga og heil stétt væri undir sama fána.Eini botninn sem ég fæ í þetta allt saman er sá, að ekki virðist skipta máli hvar fólkið vinnur, því sami atvinnurekandi greiðir launin. Það sé tilviljunarkennt að stíðið komi niður á okkur, ungum sem öldnum á þessu svæði. Ég sem hélt að starfsumhverfi okkar væri sérstaklega gott.Það er sammerkt með þessu ágæta fólki að þegar það lokar hurðum vinnustaðar síns þá skilur það eftir áhyggjur starfsdagsins innan veggja stofnunarinnar. Það virðist engu breyta hvor það leitar í vestur eða austur næsta dag. Þetta er að sjálfsögðu ákveðið frjálsræði. Mér sýnist samt þetta fyrirkomulag vera illt til að reiða sig á.


Vinnumarkaðssvæði heilbrigðisstarfsfólks frá Íslandi er allur heimurinn. Íslenskt heilbrigðisstarfsfólk með sína góðu menntun er eftirsóttur starfskraftur um allan heim. Á meðan deiluaðilar heyja sitt stríð verðum við að finna leiðir til varnar okkar skjólstæðingum. Við hljótum að reyna aðra aðferðafræði í framtíðinni. Við ætlum okkur að ná í fólk sem vill vera hér af því að það hefur ákveðið að taka þátt í að byggja upp með okkur. Það hlýtur einhver að vilja vera hér af því að hann skynjar styrk þessarar stofnunar sem stendur á alfara vegi í hliði umheimisins og hefur takmarkalaus tækifæri, ef við fáum að láta hugsjónir okkar rætast.
Beitan er hál sem við leggjum fyrir. Hún er persónuleg. Við viljum horfast í augu við fólkið sem vilð ætlum okkur að sækja hingað. Við munum stunda mannaveiðar. Þið sem kusuð að hverfa til annarra hafna eruð að sjálfsögðu velkomin til okkar ef þið sjáið verkin í þessu ljósi.
Á morgun byrjum við aftur, mjög hægt í byrjun en stig vaxandi. Ég hvet ykkur deiluaðilar til að ná áttum.

Mér þykir fyrir því að þið Suðurnesjamenn hafið þurft að líða fyrir stríð annarra.

Konráð Lúðvíksson yfirlæknir H.S.S.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024