Ég hef haft áhrif!
Á morgun 1. mars, gefst sjálfstæðisfólki kostur á að velja öflugan lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
Síðustu fjögur ár hefur menningarlíf og atvinnulíf hefur verið minn vettvangur í bæjarmálunum. Mér finnst mjög ánægjulegt að finna að ég hafi getað lagt mitt af mörkum í samfélaginu og að það hafi haft áhrif. Ég sé bara tækifæri fram á við og vil áfram hafa góð áhrif.
Það hefur verið lærdómsríkt og ánægjulegt að starfa með því góða og duglega fagfólki sem vinnur hjá Reykjanesbæ undanfarin 4 ár. Samstaða og einhugur til þess að gera alltaf betur ef kostur er hefur einkennt þá vinnu og árangurinn hefur skilað sér, oft hægt, en oftar örugglega og sjáanlega.
Fjölmörg verkefni bæði stór og smá eru í farveginum og er það von mín og einlæg ósk að ég fái brautargengi til þess að starfa áfram að þeim verkefnum. Reykjanesbær hefur mikla möguleika á að verða eitt af sterkari atvinnusvæðunum á landinu og það er bjargföst trú mín að við getum og munum laða að okkur fjölbreytt atvinnutækifæri á komandi árum.
Á menningarsviðinu er Hljómahöllin eitt af stóru verkefnunum, en einnig má nefna friðlýsingu og enduruppbyggingu Bryggjuhússins, Fischer´s húss og Gömlu Búðar ásamt áframhaldandi vinnu við markaðssetningu Víkingaheima og Duus húsa í heild sinni sem styður vel við menningartengda ferðaþjónustu.
Það er markmið mitt nú eins og áður að ímynd og ásýnd Reykjanesbær verði eftirsóttur búsetukostur fyrir fólk sem velur lífsgæði með fjölskylduhagina í forgrunni ásamt því að láta fordóma hvers lags lönd og leið og temja sér jákvætt og hvetjandi viðhorf öllum til heilla.
Virðingarfyllst,
Björk Þorsteinsdóttir.