Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ég fann það sem mig vantaði í púsluspilið mitt
Sunnudagur 30. janúar 2011 kl. 15:12

Ég fann það sem mig vantaði í púsluspilið mitt

Öll erum við meðvituð um mikilvægi þess að hugsa vel um líkamlega heilsu okkar. Allt sem við gerum fyrir líkamann hefur áhrif á hugann. Þannig stuðlum við ómeðvitað að góðri andlegri líðan þegar við ræktum líkamann. En það er líka hægt að stuðla að betri líkamlegri líðan með því að rækta hugann sérstaklega.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í gegnum árin hef ég ávallt haft eitthvað fyrir stafni sem eflir sálarlíf mitt, en ég hef samt alltaf þurft að leita lengra, að einhverju sem gerir mig ,,sadda” ef svo má að orði komast. Þannig hef ég verið í stöðugri leit að andlegri næringu. Ég hef fundið ýmislegt og tileinkað mér, en svo eftir einhvern tíma þarf ég alltaf að leita lengra. Ég hef alltaf verið í góðri tengingu við minn Guð og engla alheimsins, en það hefur samt alltaf vantað eitthvað ,,pínulítið” uppá.


Ég kynntist Innhverfri Íhugun

Fyrir rúmu ári varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Innhverfri Íhugun, á ensku Trancintental meditation. Ég hafði reyndar farið á kynningu á IÍ fyrir um 15 árum, en fannst þá kostnaðurinn við að læra tæknina of mikill. Í fyrra vor heyrði ég svo af því að bandaríski leikstjórinn David Linch, hafi komið til Íslands gagngert til þess að kynna þessa ævafornu tækni fyrir Íslendingum. Í troðfullu Háskólabíói sagði hann frá reynslu sinni af iðkun IÍ sl. 30 ár. Hann sagðist hafa trú á því að Íslendingar væru opnir fyrir andlegum þroska og að hann vildi leggja sitt af mörkum til þess að sem flestir Íslendingar lærðu og í framhaldinu stunduðu IÍ. Hann tilkynnti að sjóður í hans nafni myndi tímabundið styrkja Íslendinga til þess að læra IÍ. Almennt kostar námskeið á annað hundrað þúsund, en með stuðningi DL greiða Íslendingar aðeins 10.000 kr. á meðan þetta átak varir. Nú þegar hafa um 1000 Íslendingar lokið námskeiði.


Hvað er Innhverf Íhugun?
IÍ er aldagömul indversk íhugunartækni, einföld og náttúruleg sem Maharishi Mahesh Yogi hefur innleitt á Vesturlöndum (Bítlarnir lærðu af honum). Tæknin gengur útá að iðka íhugun í 20 mínútur kvölds og morgna í stól með lokuð augu. Það er einfalt að læra IÍ, auðvelt að iðka hana og iðkunin felur ekki í sér neins konar heimspeki, hegðun eða lífsvenjur. Í dag iðka rúmlega sex milljónir manna, á öllum aldri, um allan heim, af ólíkum uppruna og með ólíkan menningarlegan og trúarlegan bakgrunn, Innhverfa Íhugun.

Það sem heillar mig mest við þessa tækni, er einfaldleikinn, það þarf ekki að fara í sérstök föt, gera sérstakar æfingar, vera í sérstöku herbergi, andrúmslofti o.s.frv. Það þarf bara að finna sér næði setjast niður loka augunum og hugsa möntruna sína. Á námskeiðinu fær maður úthlutaðri möntru sem maður á bara fyrir sig. Námskeiðið gengur út á að kenna manni tæknina og hvað það er sem gerist þegar maður nær tökum á henni. Meðan á iðkun stendur kyrrist hugurinn smám saman þar til hljóðasta ástandi er náð þ.e. ,,tæri vitund“ sem lýsa má sem sviði allra möguleika hugans. Í þessu ástandi starfar heilinn á einstaklega samræmdan hátt á sama tíma og líkaminn öðlast djúpa hvíld og losar streitu.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að alheimurinn sé ein heild og allt sem í honum er tengist með einum eða öðrum hætti og þess vegna skipti máli hvað við segjum, gerum og hugsum. Innhverf Íhugun hefur styrkt mig í þessari trú. Meira en 600 rannsóknir hafa verið gerðar við 250 háskóla og rannsóknarstofnanir í 33 löndum sem staðfesta áhrif innhverfrar íhugunar á huga, líkama, hegðun og samfélag.


Áhrif Innhverfrar Íhugunar á samfélög
Þegar IÍ er iðkuð af 1% fólks í samfélögum, framkallar hún samstillingaráhrif sem hafa verið sannreynd með rannsóknum og felast í almennum framförum sem og fækkun neikvæðra þátta á borð við slys, glæpi og ofbeldi. Samstillt þjóðarvitund mun þannig á eðlilegan hátt valda miklum breytingum í átt til jákvæðni, velmegunar og framfara á öllum sviðum lífsins.


Innhverf Íhugun á Suðurnesjum
Á Suðurnesjum hafa nú um 60 einstaklingar lært tæknina og vonandi að flestir þeirra iðki íhugun reglulega. Við höfum fengið afdrep á Suðurgötu 15 til að stunda hópíhugun einu sinni í viku (frjáls mæting). Þegar íhugað er í hóp eru áhrifin margföld og skila sér lengra en til manns eigin sjálfs. Þau skila sér út í samfélagið. Ef einhvern tímann hefur verið þörf á að standa saman og leggja sitt til samfélagsins, þá er það núna.
Suðurnesjamenn eru hlutfallslega stór hópur þeirra sem hafa lært IÍ síðustu tvö árin. Nú stendur til að halda námskeið hér suðurfrá sem hefst með kynningarfyrirlestri í Virkjun 28. janúar nk. kl. 19:30. Ég vil hvetja alla sem vilja bæta líf sitt og líðan og um leið hafa góð áhrif á samfélagið sitt, að mæta á kynninguna.


Ég hef fundið það sem ég leitaði að, ég hef ekki þurft að leita annað síðan ég kynntist þessari tækni. IÍ er fyrir mér eins og að vera komin heim.
Ég vona að þessi pistill verði til þess að vekja forvitni hjá einhverjum. Ég fullvissa ykkur að það er margfalt 10 þúsund króna virði að læra Innhverfa

Íhugun og sú þekking fer aldrei frá þér.
Nánari upplýsingar um IÍ má finna hjá ihugun.is eða í síma 557 8008


Hjördís Árnadóttir