Ég er kominn heim
Ég flutti til Reykjanesbæjar um miðjan ágúst 2018 ásamt Kristínu konunni minni. Á þessum tíma var hún að vinna á Keflavíkurflugvelli og kunni því vel. Við höfðum velt því fyrir okkur að flytjast búferlum meðal annars vegna þess að hraðinn og læti borgarinnar heillaði ekki lengur. Við ákváðum því að setja stefnuna í vestur og flytja til Reykjanesbæjar. Stór hluti ákvörðununarinnar var einnig sú að íbúðaverðið hér var mun hagstæðara og gátum við þannig selt litlu íbúðina okkar og notað það sem kom inn til að versla okkur einbýlishús í Innri-Njarðvík. Þetta var stór og mikil ákvörðun en þegar hingað var komið fann ég að þetta var hið eina rétta, mér leið eins og ég væri kominn heim.
Hér upplifði ég að fólk horfði í augun á þér og bauð góðan daginn. Vinalegur en ákveðinn metingur var á milli íþróttaliðanna tveggja, fólk elskaði að syngja og hafa gaman og nágrannakærleikurinn var eins og í ævintýri. Ég var aftur orðinn partur af samfélagi. Tilfinning sem ég hafði ekki fundið fyrir síðan ég bjó á Sauðárkróki en þar var ég fyrstu tuttugu ár ævi minnar.
Í kjölfarið var það því það eina rökrétta í stöðunni að stofna fjölskyldu. Í febrúar 2020 kom síðan frumburður okkar Ásta Bertha í heiminn. Einhverjum fimmtán mánuðum síðar mætti Sunna Stella systir hennar á svæðið. Þetta hafa því verið ansi viðburðarík síðustu ár og má í raun segja að lífið hafi ekki verið að fullu byrjað fyrr en ég flutti hingað.
Fleiri leikskólar
Það breytist allt þegar maður eignast börn.
Þegar börn eru komin í spilið fer maður að treysta á sveitarfélagið á annan máta en áður. Þá horfir maður til þjónustu sem nauðsynlegt er að hafa aðgang að þannig við foreldrarnir getum aftur farið að taka þátt í daglegu lífi og aflað tekna fyrir fjölskylduna. Við vorum einstaklega heppin þegar kom að því að finna dagmömmu fyrir eldri dóttur okkar. Kristín konan mín hafði verið í sundi og lenti á spjalli við konu sem vildi svo til að búa við hliðina á dagmömmu. Í ljós kom svo að hún var með laust pláss fyrir okkur.
Þegar síðan kom að leikskólagöngu hjá henni vorum við svo heppin aftur að hún var síðasta barnið til að komast inn það haustið. Þá hafði Kristín verið búin að hringja í alla leikskóla í Reykjanesbæ til að reyna að snapa pláss fyrir barnið. Með þá yngri þá vorum við svo aftur heppin að við römbuðum á góða konu sem var einmitt að hefja starf sem dagmamma og var til í að fá hana til sín. Það vildi svo til að þetta var í vikunni áður en Kristín hóf störf aftur eftir fæðingarorlofið.
Öll þessi dagvistun dætra okkar hefur því komið til af einskærri heppni. Það á ekki að vera þannig. Við vitum um stóran hóp foreldra í bæjarfélaginu sem ekki eru jafn heppnir. Þeir sömu foreldrar hafa þannig þurft að leita leiða til, eða jafnvel fresta því, að mæta til vinnu því hvergi var hægt að finna stað fyrir börnin. Þetta orsakar tekjutap sem kemur strax á eftir tekjutapinu sem orsakast af því að fara í fæðingarorlof.
Samfylkingin leggur mikla áherslu á að breyta þessum hlutum í hag fyrir alla foreldra en sveitarfélagið okkar samanstendur af fjöldamörgum barnafjölskyldum og ábyrgðin því mikil.
Markmiðin okkar eru meðal annars þau að hvetja fleiri íbúa til að verða dagforeldra og styrkja þau til þess með stofnstyrk. Auk þess að sveitarfélagið muni greiða fyrir námskeið sem undanfara fyrir þau. Auk þess munum við bæði kaupa og byggja fleiri leikskóla sem geta tekið inn átján mánaða börn á leikskóla. Reykjanesbær mun einnig niðurgreiða kostnað til þeirra foreldra sem eru með börnin sín hjá dagforeldri þegar börnin eru orðin átján mánaða þannig að þau borgi eins og börnin væru á leikskóla.
Höfum hlutina í lagi
Annað risastórt atriði sem ég áttaði mig á eftir að börnin komu til var hversu óþægilegt það er að vera í bæ þar sem ég get ekki treyst á heilsugæsluna. Fyrst um sinn fórum við alltaf á HSS þegar eitthvað kom upp á en fengum þar þurrt viðmót og oft rangar greiningar þegar stelpurnar okkur urðu veikar. Í kjölfarið fórum við því til Reykjavíkur til að fá annað álit sem reyndist alltaf rétt og eftir nokkur skipti ákváðum við að fara alltaf beint til Reykjavíkur. Okkur fannst það algjör óþarfi að leggja það á stelpurnar okkar að hanga inn á HSS í daufri biðstofu bíðandi eftir lækni sem nennti engan veginn að sinna okkur. Ég veit að ég er alls ekki einn um þessa upplifun en þessi grunnþjónusta verður að vera í lagi.
HSS þarf að koma sér í aukið samtal við okkur íbúana. Við eigum skilið samtalið um hvað sé að gerast innandyra og hvert framhaldið er. Ég man þegar ég var nýfluttur í bæinn þá fór ég á leiksýningu þar sem mikið grín var gert af HSS og ég man að ég hugsaði að þetta gæti nú ekki verið svo slæmt. Þesii túlkun var það ótrúleg að ég hló með sjálfum mér og hugsaði að það hlyti nú að vera betur lagt í heilbrigðistofnun sem þjónar svona stóru sveitarfélagi. Því miður þá virðist þetta vera raunin.
Í mörg ár höfum við lesið fréttir er varða þessa einu heilbrigðisstofnun okkar. Fregnir sem segja til um óánægju með þjónustu, langan biðtíma og skort á fjármagni. Eigum við að þurfa að lesa þetta ár eftir ár? Er ekki hægt að breyta þessu og þróa þjónustu í hag okkar íbúa sem þurfum á þessari þjónustu að halda? Þessu verðum við að breyta og ef fjármagnið er það eina sem þarf til að laga þetta þá verðum við að fara að herja á fjárlagavald ríkisins því við sem samfélag eigum skilið hæfa heilbrigðisþjónustu líkt og allir aðrir þegnar þessa lands.
Ég vil þó taka það fram að þeir barnalæknar sem koma tvisvar í viku þegar maður á pantaðan tíma eru til mikillar prýði og bæta því við að ungbarnaverndin hefur reynst okkur vel.
Þá finnst mér einnig ábótavant að hverfi á stærð við Innri Njarðvík og Ásbrú skuli ekki hafa aðgang að almennilegri verslun og/eða þjónustu. Til samanburðar búa fleiri á Ásbrú en í Grindavík og í Innri Njarðvík búa fleiri en í heimabæ mínum, Sauðárkróki. Á þessum stöðum myndi aldrei ganga að hafa eina litla og dýra hverfissjoppu. Við hljótum að geta fundið leið til þess að gera það arðbært og aðlaðandi fyrir einhverja af þessum helstu þjónustuaðilum og verslunum að vera með útibú í þessum hverfum.
Reykjanesbær er uppfullur af frábæru fólki sem á að geta haft aðgang að sjálfsagðri þjónustu.Við höfum við gert vel en við getum gert betur og ætlum að gera betur.
Höfum hlutina í lagi.
Sverrir Bergmann Magnússon,
3. sæti á S-lista Samfylkingar og óháðra.