Ég er farin í hundana
Lokaorð Ragnheiðar Eínar Árnadóttur
Já, það er staðreynd – ég er algjörlega farin í hundana. Og er mjög stolt og ánægð með þaÞað fjölgaði sum sé um einn í fjölskyldunni fyrir stuttu þegar Lubbi var kynntur til leiks. Hann er sjö mánaða gamall hvolpur, ljúfur, kátur, stilltur og prúður og það sem mikilvægast er, hann geltir ekki. Nema þegar ryksugan er dregin fram og það er hægt að búa við það.
Lubbi gerir lífið betra og verð ég að viðurkenna að við hjónin erum orðin að skrýtna fólkinu sem við brostum góðlátlega að hér áður fyrr. Fólkið sem póstar myndum af gæludýrunum sínum á samfélagsmiðlum í gríð og erg, fólkið sem talar jafnvel meira um hvað dýrið getur heldur en hvað börnin þeirra eru að gera. Og fólkið sem breytir röddinni þegar það talar við hundinn sinn og notar litlu, sætu, krúttlegu röddina og „mússí mússí“-orðin. Við hoppum af kæti þegar Lubbi er duglegur að pissa og kúka úti og flöggum nánast í hvert sinn þegar við komum heim og þessi elska hefur ekkert gert af sér á meðan.
Og Lubbi heldur okkur við efnið. Við förum ekki bara út að ganga þegar við nennum, heldur förum við út að ganga nokkrum sinnum á dag. Alla daga. Og það er frekar næs. Gæðastundum fjölskyldunnar með kvöldspjalli á strandleiðinni hefur fjölgað í stað þess að allir sitji heima í sinni tölvunni hver. Svo hafa líka bæst við langir göngutúrar þar sem ég nýt einverunnar með heyrnartólin og hin og þessi „Podköst“. Það verður svo spennandi að sjá hvernig þátttakan verður í göngutúrunum á komandi mánuðum þegar vetur verður genginn í garð, en þá reiðir maður sig bara á „Podkastið“.
Við erum ábyrgir hundaeigendur, að sjálfsögðu. Erum alltaf með kúkapoka með okkur á göngunni og gætum þess vandlega að ekkert sé skilið eftir á víðavangi. Það er einfaldlega svo sjálfsagt að allir geri það að það ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna það. Þess vegna verð ég algjörlega rasandi reið þegar ég sé hundaskít á víð og dreif út um allan bæ. Þetta er ógeðslega viðbjóðslegt og á ekki að líðast. Þeir sem geta ekki séð sóma sinn í að þrífa upp eftir hundinn sinn eiga hreinlega ekkert með að halda hund. Við Lubbi erum sammála um það. #lubbalíf