Ég er alveg í rusli yfir þessu
Góðvinur minn Gylfi Guðmundsson sendi mér bréf í síðasta blaði Víkurfrétta þar sem hann lýsti á skemmtilegan hátt viðskiptum sínum við starfsmenn Kölku sem er nýja sorpeyðingarstöðin okkar Suðurnesjamanna.
Ekki veit ég nákvæmlega hvernig samskiptum þínum Gylfi við starfsmenn Kölku lauk, en eitt mátt þú vita að stjórn Kölku hefur sett sér það að markmiði að þjónusta stöðvarinnar verði til fyrirmyndar.
Umhverfi verður snyrtilegt og ímynd Kölku verður okkur Suðurnesjamönnum til sóma, en framkvæmdum er ekki lokið við hlið og girðingu umhverfis stöðina, nú á næstu dögum verður lokið við að setja upp fína girðingu ásamt tilheyrandi hliðum og merkingum sem á að gefa til kynna hvernig menn eiga að umgangast þessa glæsilegu stöð.
Vel má vera að þú með þessa fínu kerru frá Húsasmiðjunni ( ég held að við séum að auglýsa alltof mikið fyrir Húsasmiðjuna með þessum skrifum okkar ) hafir náð að komast inn á svæði þar sem gestir með fínar kerrur eiga ekkert erindi.
En kæri Gylfi það er gult skilti utan við aðkomuna að Kölku með upplýsingum um opnunartíma og fl. Getur verið að þú eins og sannur Íslendingur hafir ekki lesið upplýsingarnar fyrr en allt er komið í kalda kol hjá þér – frekar óþægileg staða fyrir reyndan skólamann?
Þannig er með allt sem er nýtt, það verður að fást reynsla á hlutina og kann að vera og eru raunar miklar líkur á því að opnunartími Kölku verði endurskoðaður einhvern tíma síðar.
Vel getur verið að skiltið hafi ekki sést, það minnir mig á söguna um Sandgerðinginn sem fór gangandi frá Sandgerði til Keflavíkur. Hann sagði að þokan hafi verið svo svört á Miðnesheiðinni að hann hafi ekki séð fet fram fyrir sig, verið rammvilltur, þar til að hann sté næstum því með vinstri löppina fram af berginu við Helguvík. Þá fyrst var honum nóg boðið og hann gekk aftur beinustu leið heim til Sandgerðis.
Að lokum Gylfi, Kalka á eftir að vera viðkomustaður margra Suðurnesjamanna um ókomna tíð og stjórnin leggur áherslu á að starfsmenn taki vel á móti öllum viðskiptavinum Kölku.
Ég hvet því alla til að sýna smá þolinmæði á meðan stöðin er að komast af stað þar til byrjunarörðugleikar okkar verða að baki.
Ps. Vopnaðir hermenn við veginn að Helguvík og Kölku á dögunum voru ekki á vegum stjórnar til að koma í veg fyrir að “kallar” með fínar kerrur villist ekki inná svæðið.
Með sumarkveðju
Reynir Sveinsson formaður Kölku.
----------
Myndin: Hermennirnir voru ekki á vegum stjórnar Kölku, segir í bréfi Reynis Sveinssonar. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson