Aðsent

Ég biðst fyrirgefningar
Þriðjudagur 28. mars 2017 kl. 14:50

Ég biðst fyrirgefningar

- Aðsend grein frá Ásmundi Friðrikssyni

Við sem töluðum fyrir uppbyggingu United Silicon í Helguvík og fögnuðum 500 milljóna króna fjárfestingasamningi við félagið í apríl 2014, trúðum loforðum fyrirtækisins um fjölbreytt og vel launuð störf, góðan rekstur í sátt við samfélagið, lög og reglur. En nú er okkur illa brugðið.

Mengunarvandamál, ófullkomin verksmiðja og svikin loforð um laun einkenna upphaf starfseminnar. Umhverfisstofnun hefur ekki fengið annað eins verkefni í hendur og jafnvel er talið að tækjabúnaður fyrirtækisins sé ekki í samræmi við skilyrði i fjárfestingasamningi fyrirtækisins við ríkið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samkvæmt fjárfestingasamningi íslenska ríkisins við United Silicon tryggir samningurinn félaginu að hámarki 15% tekjuskatt, 50% afslátt af almennu tryggingagjaldi, afslátt af fasteignaskatti, 50% lægra en áskilið hámarkshlutfall og gjaldhlutfall gatnagerðargjalds er 30% lægra en almenn gjaldskrá Reykjanesbæjar. Innflutningur eða innkaup innanlands á byggingarefnum og framleiðsluaðföngum skulu undanþegin aðflutningsgjöldum samkvæmt fjárfestingasamningi fyrirtækisins. Þá á félagið rétt á þjálfunaraðstoð starfsmanna að upphæð tvær milljónir evra. Heildarstuðningur við fyrirtækið er því rúmar 700 milljónir króna.

Kæri lesandi, ég er einn þeirra sem samþykkti þennan gjörning. 
Með þessari eftirgjöf gjalda hefur fyrirtækið töluverða yfirburði og forskot á vinnumarkaði en hvernig nýtir fyrirtækið sér þessa yfirburði yfir annan rekstur í Reykjanesbæ?

Í stað stóriðjusamninga álveranna greiðir United Silicon starfsmönnum sínum 1.470 kr/klst. í dagvinnu sem er undir lágmarkstekjum fyrir fullt starf  og  2.646 kr. í 16 klst. yfirvinnu sem er með 80% á 1.470 kr/klst.  en ekki á 1.503m kr./klst. sem er áðurnefndur lágmarkstaxti. Til að komast upp fyrir lágmarkstekjumark dagvinnu greiðir fyrirtækið 65.000 króna bónus á dagvinnu á mánuði. 

Þá setur fyrirtækið upp vinnuplan með viðveru starfsmanna í tólf tíma. Þeir setja ekki á eðlilegar vaktir því þá verður fyrirtækið að semja við verkalýðsfélögin um vaktafyrirkomulag sem kallar á hærri launagreiðslur.

Með þessu launafyrirkomulagi greiðir United Silicon starfsmönnum sínum 450.000 krónur á mánuði en sambærileg laun samkvæmt stóriðjusamningum tryggja starfsmönnunum álvera 6-700.000 krónur á mánuði í vaktavinnu, launin sem United Silicon lofaði í upphafi. Á ársgrundvelli sparar fyrirtækið sér 100 milljónir króna í launagreiðslur og Reykjanesbær verður af 15 milljónum í útsvar. Alvarlegast í málinu öllu er að fyrirtæki sem notið hefur 700 milljóna fjárfestingasamnings greiðir starfsmönnum sínum laun sem eru í grunninn undir tekjuviðmiðunarmörkum.

Ég, sem þingmaður, vill biðja þjóðina afsökunar á því að hafa greitt götur fyrirtækis sem hefur fengið hundruð milljóna stuðning frá skattgreiðendum til að byggja upp rekstur í landinu en greiðir starfsmönnum sínum laun sem eru grundvölluð á taxta sem er undir tekjuviðmiðum í landinu. Þá hefur fyrirtækið lítil eða engin tök á mengun frá rekstri fyrirtækisins í Helguvík, er í alls konar málarekstri við verkalýðsforystuna, fyrirtæki og bæjarfélagið og vinnur hvorki með eða fyrir samfélagið sem vildi starfa með því í upphafi vega. Fyrirtæki sem þannig kemur fram við starfsmenn sína, samfélag og umhverfi  í trássi við gefin loforð á sér ekki von um bjarta framtíð.
 

Ásmundur Friðriksson alþingismaður