„Ég ætla bara að brenna í dag“
Hjá all flestum þýðir þetta að ætla að ganga/skokka á hlaupabrettinu í 30 til 60 mínútur eða fara á annað upphitunartæki á 50-70% álagi. En er þetta besta fitubrennsluleiðin?
Það er vísindalega sannað að ef að við höldum púlsinum lágum á æfingunni í langan tíma þá erum við að brenna fitu á meðan æfingunni stendur en brennsla eftir æfinguna (EPOC) er ekki mikil. Þar að auki er þessi æfingaaðferð catabolísk sem þýðir að það verður vöðvaniðurbrot sem hefur í för með sér að efnaskiptahraði (metabolic) lækkar en við viljum einmitt hafa efnaskiptahraðann mikinn því þá er fitubrennslan meiri.
En hvað eigum við þá að gera ef við ætlum „bara að brenna í dag“?
Jú, við þurfum að taka almennilega á því. Það er allavega tvennt sem rannsóknir sammælast um að skili okkur mun meiri fitubrennslu í heildina. Annars vegar skorpuþjálfun (interval) og hins vegar lyftingar.
Í lyftingum er fitubrennsla ekki mikil á æfingunni sem slíkri heldur notar líkaminn aðallega kolvetni en brennsla eftir krefjandi lyftingaræfingu er mjög mikil og getur varað í langan tíma á eftir. Eins byggjum við upp vöðvamassa í lyftingum og aukum þar af leiðandi efnaskiptahraða okkar (metabolic).
Í skorpuþjálfun verður súrefnisskuld sem líkaminn verður að vinna upp eftir æfingu og helst efnaskiptahraði uppi eftir æfinguna. Það sem gerist einnig í lyftingum og skorpuþjálfun er að það verður mjólkursýrumyndun sem stuðlar að aukinni framleiðslu vaxtarhormóna. Vaxtarhormón auka svo fitubrennslu.
Þannig að ef þú ætlar "bara að brenna í dag" þá vil ég miklu frekar sjá þig rífa í lóðin eða taka öfluga skorpuþjálfunaræfingu. Nú eða bara mæta á Metabolic námskeiðið okkar sem, eins og nafnið gefur til kynna eykur efnaskiptahraða svo um munar. Þar vinnum við í skorpuþjálfun með þol-, styrktar- og kraftæfingum.
Gangi þér vel
Helgi Jónas Guðfinnsson,
styrktarþjálfari, kennari við ÍAK einkaþjálfaranám Keilis og körfuknattleiksþjálfari
www.styrktarthjalfun.is *Nýtt Metabolic námskeið á Ásbrú hefst 17. október*
www.facebook.com/styrktarthjalfun