Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ég æfi sund og elska það
Miðvikudagur 3. júlí 2013 kl. 14:17

Ég æfi sund og elska það

Ég hef æft sund með Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar í 12 ár og langar mig að segja frá minni upplifun af því að æfa sund hjá ÍRB undir stjórn yfirþjálfara Anthony D. Kattan. Þegar Anthony hóf störf hjá ÍRB sumarið 2010 hafði ÍRB náð 3 sundmönnum í landsliðsverkefni á vegum SSÍ. Einungis ári síðar hafði hann hækkað töluna upp í 6. Árið eftir það voru sundmennirnir 14 og nú í ár náðu 16 sundmenn lágmörkum í landslið. Takið eftir því að þetta eru 16 af 28.

Auk þess hefur ÍRB unnið Aldursflokkameistaramót  Íslands 3 ár í röð. Þá var Unglingameistaramót  Íslands haldið í fyrsta sinn í ár og þar vann ÍRB með yfirburðum. Það að fara úr 3 sundmönnum í 16 sem náð hafa lágmörkum í landslið og að vinna hvert stórmót á fætur öðru hlýtur að segja að eitthvað gott sé að gerast hjá ÍRB.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En það er fleira en árangur sem skiptir máli. Málið er að andleg líðan og árangur haldast hönd í hönd. Þegar að íþróttamönnum kemur og það ættu allir að vita sem hafa einhverja reynslu af íþróttum. Ef andleg líðan er slæm, þá er frammistaðan slæm. Ef sundmönnum ÍRB liði illa sæist það á árangri þeirra. Svo einfalt er það.

Anthony hefur unnið stórkostlegt starf hjá ÍRB en til þess að ná þessum árangri hafa orðið miklar breytingar á því hvernig sundíþróttin er stunduð í Reykjanesbæ. Ein af fyrstu og stærstu breytingunum var aukin áhersla á aga. Til þess að ná langt í sundinu eða bara hverju sem er í lífinu er agi lykilatriði. Til að ná árangri þarf að byrja á því að vinna fyrir honum. Þetta er lexía sem sundið hefur kennt mér og nota ég þetta á fleiri svæðum en bara í sundinu.

Aukinn agi fól í sér að gerðar voru meiri kröfur til þess að sundmenn mættu oftar á æfingu. Komið var á kerfi þar sem sundmenn þurfa að mæta á tiltekinn fjölda af æfingum ef þeir ætluðu að halda sínum stað í afrekshópum sunddeildarinnar. Um leið og þetta kerfi var sett á fór það illa í suma. Mörgum foreldrum og sundmönnum fannst þetta einfaldlega of mikið en um leið og fólk fór að sjá miklar framfarir hjá börnum sínum urðu flestir sammála því að til þess að ná þeim árangri sem afrekshópar ÍRB sækjast eftir þá verða sundmenn að æfa meira en þeir gerðu áður en Anthony hóf störf sín hér. 

Þessi árangur sem afrekshópar ÍRB sækjast eftir er ekki eitthvað sem sundstjórnin eða þjálfarar hafa ákveðið að stefna að og neyða sundmenn að fylgja. Það vorum við sundmennirnir sem settum okkur það markmið að verða besta liðið á Íslandi. Til þess að ná því markmiði urðum við að æfa meira en önnur lið. Sundmenn hjá ÍRB eru þó ekki að æfa meira en önnur lið úti í heimi. Fyrir u.þ.b. tveimur árum dvaldi ég í mánuð í Nýja Sjálandi. Þar æfði ég með North Shore sem hefur verið besta lið landsins síðan árið 1995. Þetta lið sem er hinum megin á hnettinum notar sama kerfi og við hvað varðar mætingu. Það er fólk út um allan heim tilbúið að leggja mikið á sig til þess að ná langt og andlegi þátturinn skiptir öllu. Fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því hversu mikið af undirbúningi fyrir keppni fer fram í höfðinu. Sérstaklega í einstaklingsgreinum eins og sundi. Þú ert ekki að bregðast heilu liði með því að missa af æfingu eða standa þig illa. Þú ert bara að bregðast sjálfum þér. Þegar að keppnisdegi kemur sést það hverjir það voru sem héldu því andlega í jafnvægi við hið líkamlega.

Til þess að halda sundmönnum við efnið hefur skipulagðri markmiðssetningu verið komið á og er skylda fyrir alla iðkendur í afrekshópum að skila inn markmiðum fyrir hvert mót og fylla út svokallaða Æfingarbók í hverri viku þar sem velt er fyrir sér frammistöðu á æfingum liðinnar viku. Þjálfarinn sér sundmönnum stöðugt fyrir lágmörkum og hvetur þá til þess að setja sér markmið og ná þeim.

Þjálfarinn lætur sundmenn vita þegar þeir eru ekki að fylgja tilteknum kröfum afrekshópa og bendir þeim á að ef þeir sjái ekki fram á að geta það sé í boði að færa sig í hóp þar sem kröfurnar eru minni. Anthony er duglegur að láta sundmenn vita ef sundin þeirra voru slæm, ef tæknin mætti vera betri og ef sundmenn þurfa að mæta meira til að uppfylla mætingaskyldu. Þetta gerir hann alls ekki á niðurlægjandi eða neikvæðan hátt og er einfaldlega bara að vinna sitt starf sem þjálfari. Það er mjög misjafnt hvernig fólk tekur í uppbyggjandi gagnrýni og ábendingum frá öðrum. Hann er einnig mjög duglegur að hrósa sundmönnum fyrir góð sund og frábæra tækni. Hann hrósar þeim alltaf í lok hverrar æfingar. Það hafa verið örfá skipti sem hann hefur ekki sagt við hópinn að hann hafi staðið sig vel að æfingu lokinni og sennilega höfum við ekki verið að standa okkur vel þegar það hefur gerst. ÍRB veitir einnig verðlaun fyrir það eitt að mæta vel. Þeir sem mæta vel fá hluta af æfingargjöldum sínum endurgreidd í sundsjóð sem við getum notað til að greiða dýr sundtengd verkefni s.s. landsliðsferðir.

Ég er ánægð með hve mikið Anthony hefur gert fyrir mig sem sundmann og fyrir liðið í heild. Stjórn ÍRB hefur einnig staðið sig mjög vel í sinni vinnu og án öflugs stuðnings foreldra gætum við ekki verið eins góð og við erum.

Erla Sigurjónsdóttir
Sundmaður í Landsliðshópi Íþróttabandalags Reykjanesbæjar