Eftir vetur kemur vor
Undanfarin ár hafa verið erfið okkur Suðurnesjamönnum, en við höfum eins og svo oft áður sýnt að þegar herðir að þá stöndum við þrátt fyrir allt saman um þau megingildi sem öllum mönnum er eðlileg. Við höfum hvert með sínum hætti reynt að gera líf okkar svo innihaldsríkt sem mögulegt er, um leið og við höfum reynt að leggja okkar af mörkum til aðstoðar þeim er á hafa þurft að halda. Menn hafa sameinast um að halda áfram í von og vissu um betri tíð, í stað þess að nema staðar og bíða lausna. Þrautseigja og æðruleysi , ásamt ómældum náungakærleik hefur verið okkar vopn í baráttunni við kreppuna , sem svo hart hefur bitið.
Einkenni Suðurnesjamanna hafa komið í ljós á erfiðum tímum, og af þeim getum við verið stolt. Við höfum staðið með sjálfum okkar , og vörð um það sem okkur er kærast. Og þar hefur komið í ljós á eftirminnanlegan hátt að það sem fyllir okkur Suðurnesjamenn bjartsýni og þakklæti er gjafmildin og samkenndin sem birtist í svo margvíslegri mynd. Mótlætið hefur þjappað okkur saman og opnað augu okkar fyrir mikilvægi þess að rétta náunganum hjálparhönd.
Okkur hefur, með samstöðu og baráttu tekist að mestu að standa vörð um grunnstoðir velferðarinnar á Suðurnesjum. Það ber að þakka fjölmörgum fyrirtækjum og einstaklingum sem á óeigingjarnan og af myndarskap hafa lagt hönd á plóginn.
Meðal þeirra tækifæra sem við höfum fengið til þess að styðja og hjálpa, er Velferðarsjóðurinn. Sjálfboðaliðar í Keflavíkurkirkju fengu hugmyndina að honum í október 2008. Fyrir tilstilli hans hefur verið hægt að styðja stóran hóp í samfélaginu okkar með margvíslegum hætti. Til viðbótar matarkortum, sem fólk getur notað í verslunum á svæðinu, má nefna hádegismat, kostnað við lyf og læknisþjónustu, íþróttir og tómstundir fyrir börn og hjálp við flutninga.
Sunnudaginn 6. febrúar næstkomandi verður dagskrá í Kirkjulundi sem helguð verður sjóðnum og þeim hugsjónum sem hann byggir á. Yfirskriftin er, Velferðarþing í Keflavíkurkirkju og af því tilefni verða veittar viðurkenningar til hvatningar þeim sem hafa lagt sjóðnum lið á síðasta ári. Sérstök ástæða er þó til þess að vekja athygli á dagskránni. Edda Heiðrún Bachmann leikkona ávarpar þingið en hún hefur þurft að glíma við skelfilegan sjúkdóm sem hefur rænt hana mættinum í líkamanum. Talar hún um innri styrk í mótlæti og má vænta þess að erindi hennar verði afar áhrifaríkt. Einnig talar Ragnheiður Sverrisdóttir verkefnisstjóri kærleiksþjónustusviðs þjóðkirkjunnar, en hún mun fjalla um heimsóknarþjónustu. Loks kynnir Lovísa Lilliendahl verkefni velferðarráðuneytisins en hún stýrir hópi sem settur var á laggirnar til eflingar samfélaginu hér Suður með sjó.
Einnig er rétt að vekja athygli á dagskránni um morguninn, en kl. 11:00 er fjölskylduguðsþjónusta og í hádeginu bera sjálfboðaliðar fram súpu fyrir messugesti. Tilvalið er að taka daginn snemma í kirkjunni og njóta þess vaxandi samfélags sem þar hefur myndast.
Eins víst og það er að eftir vetur kemur vor, getum við einnig verið þess fullviss að brátt taki að birta á ný. Við sjáum og finnum að erfiðleikarnir hafa opnað okkur ný tækifæri til þess að gefa af okkur samfélagi okkar til góðs. Það er sama hvert framlagið er, hvort heldur um er að ræða framrétta hjálparhönd eða gjöf að einhverju tagi. Við skulum standa saman og sjá til þess að þegar kreppunni linnir getum við staðið stolt yfir hvernig við tókumst á við vandamálin. Þar munar um hvern þann er vill leggja góðum málum lið, næg eru tækifærin í hinum fjölmörgu félagasamtökum sem finnast í bænum okkar.
Þórunn Benediktsdóttir og Hannes Friðriksson
Sjálfboðaliðar í Keflavíkurkirkju