Eftir hverju er verið að bíða?
Ásbrú er nýtt íbúa – og skólahverfi í Reykjanesbæ. Borgaraleg not fasteigna á þessu fyrrum varnarsvæði hófst árið 2006. Um 1.800 manns búa þar í um 600 námsmannaíbúðum, mest ungar fjölskyldur.
Samgöngutengingar Ásbrúar við önnur hverfi Reykjanesbæjar eru í ólestri og verða að breytast strax!
Samgönguyfirvöld hafa lofað hringtorgi og undirgöngum fyrir fótgangandi og hjólandi umferð sem bráðabirgðalausn um nokkurt skeið!
Þrátt fyrir góðan vilja Reykjanesbæjar til að bjóða grunn – og leikskóla ásamt annarri þjónustu á Ásbrú þurfa íbúar að sækja margvíslega þjónustu í önnur hverfi bæjarins. Þá er yfir Reykjanesbrautina að fara. Þessi lífshættulega braut er á forræði Samgönguráðuneytis og Vegagerðar ríkisins. Bæjaryfirvöld lögðu áherslu á að hún yrði strax gerð öruggari með hringtorgi og undirgöngum.
Sú barátta hófst strax árið 2007 þegar íbúar byrjuðu að flytja á svæðið.
En ráðuneytið skar niður fjármagn í framkvæmdina snemma árs 2009.
Þá var biðlað til þingmanna og þeir beðnir að berjast fyrir verkefninu. Þá lofuðu þeir því að verkefninu skyldi lokið haustið 2009.
Enn bólar ekkert á framkvæmdinni og lítið sést til þingmannanna Samfylkingarinnar sem lofuðu að fylgja verkinu eftir við ráðherrann !
Nú er sagt að gerð hringtorgs ljúki haustið 2010, en samtímis er sagt að undirgöngum verði frestað til ársins 2011, samkvæmt nýsamþykktum vegalögum.
Aðgerða er þörf strax því þarna hafa orðið mjög alvarleg slys. Þessari framkvæmd þarf að flýta.
Öllum er ljóst að ákvarðanafælni ríkir hjá stjórnvöldum en við teljum þetta of langt gengið! Eftir hverju er verið bíða – Hver er forgangsröðin?
Við þurfum skýr svör frá Samgönguráðuneyti, Vegagerðinni og þingmönnum sem menn vilja og ætla að standa við!
Kæru nágrannar – stöndum saman í því að gera bæinn okkar betri og öruggari!
Gunnar Ellert Geirsson.
Höfundur er áhugamaður um samgöngubætur við Ásbrú.
Mynd: Úr safni vf.is