Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Efnt til samkeppni um merki Menntaskóla Grindavíkur
Föstudagur 17. október 2008 kl. 13:43

Efnt til samkeppni um merki Menntaskóla Grindavíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Efnt hefur verið til samkeppni um merki Menntaskóla Grindavíkur. Tillögur skulu berast fyrir 1. nóvember á skrifstofu bæjarins í umslagi merktu með dulnefni, innan í umslaginu skal vera lokað umslag með nafni höfundar. Verðlaun verða eftirfarandi 1. verðlaun kr. 100.000.-, 2. verðlaun kr. 50.000.- og 3. verðlaun kr. 30.000.-.  Dómefnd er skipuð fulltrúum í undirbúningsnefnd um stofnun skólans. Nefndin áskilur sér rétt til þróa hugmyndirnar áfram,

Þetta tengist þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur að koma því til að leiðar að byggður verði og starfræktur menntaskóli í Grindavík. Sérstök undirbúningsnefnd vinnur að framgangi þessa máls og hefur Eyjólfur Bragason verið ráðinn sem verkefnastjóri. Undirbúningur er þegar hafinn og er unnið að því að safna nauðsynlegum gögnum og gera áætlanir um staðsetningu, húsnæði, skipulag skólans og námsframboð. Brátt verður gengið á fund menntamálaráðherra og leitað eftir samþykki um stofnun skólans.

Hin nýju framhaldsskólalög verða lögð til grundvallar. Gert er ráð fyrir að skólinn verði einkarekinn og skal hann skipulagður með þriggja ára námi til stúdentsprófs, framhaldsskólaprófi, öðrum lokaprófum og starfsbraut. Mikil áhersla verður lögð á sérstöðu og einkennandi þætti í bæjarfélaginu og um leið hafðir í huga margir áhugaverðir möguleikar sem hér eru til staðar. Þar má nefna hinn mikilvæga sjávarútveg, vaxandi ferðaþjónustu, öflugt félags- og íþróttastarf, hina fjölbreyttu náttúru í Reykjanesfólkvangi og ekki síst hinn mikla jarðhita í næsta nágrenni.

Í þessu sambandi er lögð áhersla að náin samráð verði höfð við hina ýmsu aðila innan bæjarfélagsins um allar framkvæmdir á þessu sviði og að húsnæði menntaskólans verði miðstöð félags- og menningarstarfs í bænum.

Mikill einhugur er meðal bæjarbúa um þetta mál enda má telja fullvíst að menntaskóli hér  muni gjörbreyta aðstæðum nemenda til framhaldsnáms. Með skóla í heimabyggð verður þáttur heimila mun auðveldari í samvinnu við skólann og það er spennandi hugmynd að hið nýja húsnæði verði nýtt sem miðstöð aukinnar félags- og menningarstarfsemi.