Eflum atvinnu á Suðurnesjum og snúum bökum saman
Blásum til sóknar með því að efla samstöðumátt meðal iðnaðarmanna, verktaka og verkfræðistofa á Suðurnesjum.
Margir hafa verið að bíða eftir að atvinna eflist á Suðurnesjum. Ótal verkefni og tækifæri munu opnast bráðlega sem felast í verktöku fyrir þau fyrirtæki sem eru að hasla sér völl á Suðurnesjum. Þegar losnar um hnúta þá er halda aftur af uppbyggingu hjá þeim fyrirtækjum sem eru í burðarliðnum að hefja eða halda áfram með uppbyggingu sína. Þá þurfum við Suðurnesjamenn að vera tilbúnir að ganga til verka. En eru þau fyrirtæki sem eru á Suðurnesjum ekki of smá, ein og sér til að bjóða í eða takast á við þessi verkefni sem skapast?
Ég tel hagkvæmast fyrir öll þessi fyrirtæki sama hvaða iðnaði eða þjónustu þau hafa þessum stóru aðilum upp á að bjóða, að sameinast um verktöku. Þau ættu að stofna til samstarfs undir svokölluðum regnhlífarsamtökum til þess að geta átt kost á því að koma að verktöku á svæðinu. Til að eiga þess kost að geta komið að samningaborðinu þegar um stærri verktökur og þjónustusamninga er að ræða. Hér mundi á örskammri stundu skapast hundruð manna fyrirtæki sem tæki til starfa þegar stærri verk bjóðast sem kalla á samstarf þessa aðila.
Tel ég hagkvæmast að koma sér upp samræmdri krónutölu á útselda vinnu er unnið er eftir, til að auðvelda leikinn, sem allir mundu þá sættast um. Því þetta regnhlífarfyrirtæki þarf að hafa einfaldar leikreglur og vinna eftir ákveðnum formerkjum sem skilgreina þarf í upphafi starfsins. Í eðli sínu gætu öll fyrirtæki á Suðurnesjum tekið þátt í þessari starfssemi, þ.e. þar sem takast þarf á við stóra verktöku eða þjónustusamninga sem í boði eru.
Hægt væri að skilgreina stærðarmörk verkefna sem bjóða á í saman. Einnig gæti ég séð fyrir mér að bjóða í verkefni á landsvísu eða á evrópska efnahagssvæðinu seinna meir, sé hugur til þess í framtíðinni.
Ég vil biðja öll fyrirtæki og iðngreinafélög á Suðurnesjum að taka þetta til íhugunar og að skoða hvort ekki sé grundvöllur til samstöðu, því ef ekki nú þá hvenær?
Kær kveðja
Erlingur Bjarnason
Íbúi í Reykjanesbæ.