Ef við stöndum ekki með okkur sjálf, hver gerir það þá?
Að undanförnu hefur verið nokkur umræða í samfélaginu um framtíðarrekstur Nesvalla í Reykjanesbæ í tengslum við að fyrirhugað er að flytja forsjá rekstrar þessa heimilis undir stjórn Hrafnistu í Reykjavík. Skiljanlega, og í ljósi þess að bæði Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) og Hrafnista voru beðin um tilboð í rekstur hjúkrunarheimila á Suðurnesjum, hefur aðkoma HSS að rekstrinum verið nokkuð í umræðunni, með tilheyrandi áhrifum á starfsfólk HSS. Við undirritaðar viljum því með grein þessari fjalla að nokkru um þau atriði er okkur finnast skipta máli í umræðunni.
Forsendur HSS
Að beiðni vinnuhóps allra sveitarfélaga á Suðurnesjum (DS) var HSS beðið að gera „tilboð“ í rekstur 90-93 hjúkrunarrýma, þar sem þrír möguleikar voru gefnir. Tekið var fram að tilboðið væri gert út frá þeirri forsendu að ekki yrði um framlög sveitarfélaganna að ræða:
a) á Nesvöllum og Hlévangi (samtals 90-93 rými)
b) á Nesvöllum og Garðvangi (samtals 90-93 rými)
c) á Nesvöllum og öðrum tilgreindum stöðum (s.s. HSS) (samtals 90-93 rými)
Eftir vandlega athugun var það skoðun HSS að Garðvangur í núverandi ástandi væri ekki kostur og hámarksfjöldi þeirra rýma sem beðið var um væru fleiri en rúmast á Hlévangi og Nesvöllum samanlagt miðað við gefnar forsendur.
Í ljósi þessa og mögulegra samlegðaráhrifa við þá öldrunarþjónustu sem HSS veitir var því valið að vinna út frá lið c) sem gefinn var í tilboðsgerðinni með það að leiðarljósi að fullnýta samlegðaráhrif sem slíkur rekstur gæti gefið og veita jafnframt þjónustu umfram þær lágmarkskröfur sem krafist er. Síðast en ekki síst yrðu öll hjúkrunarrými á svæðinu rekin af einum aðila. Um leið myndi það styrkja mögulegt þjónustuframboð HSS og rekstrargrunn stofnunarinnar í því óvissuástandi sem nú er. Með vali á þessari leið var gengið út frá að hagsmunir HSS, sjúkra aldraðra og samfélagsins alls á Suðurnesjum færu saman.
Sökum breyttra krafna um stærðir hjúkrunarrýma var af hálfu HSS talið skynsamlegt að fækka heimilismönnum á Hlévangi og gera jafnframt ráð fyrir að rými sem þurfa að vera til staðar eins og hvíldarinnlagnir, endurhæfingar- og biðpláss yrðu vistuð á HSS. Á sama tíma yrði áfram unnið að mótun framtíðarstefnu öldrunarmála á Suðurnesjum. Þannig yrði best tryggð þjónustan við þá sem sjúkastir væru hverju sinni. Fjöldi þeirra rýma væri á bilinu 10-13 í samræmi við stefnu Félags- og tryggingarmálaráðuneytisins (nú Velferðarráðuneyti) og kemur fram í ritinu Skipulag hjúkrunarheimila útgefið 2008. Tekið var fram af hálfu HSS að tryggja yrði fjármagn svo þetta yrði unnt, þar sem það er ráðuneytið en ekki sveitarfélögin sem hefur heimild til flutnings hjúkrunarrýma af þessu tagi.
Ekkert svar
Í umræðunni hefur spunnist sá skilningur að í tilboði HSS til vinnuhópsins hafi verið sett ófrávíkjanlegt skilyrði sem ekki var hægt að ganga að og snýr að áðurnefndum 10-13 hjúkrunarplássum sem yrðu vistuð á HSS. Það sem HSS lagði fram var ekki ófrávíkjanlegt skilyrði að okkar mati. Þetta var tillaga HSS sem eðlilegt hefði verið að ræða frekar ef eitthvað var óljóst eða áhugi til að haga útfærslunni á annan veg.
Þess ber að geta að ekkert svar hefur enn borist til HSS frá vinnuhópnum sem bað um tilboð þetta til HSS.
Hver stendur með okkur?
Eftir mikla og vandaða vinnu starfsmanna HSS þar sem leitast var af heilum hug við að bæta og efla þjónustu við aldraða á Suðunesjum umfram lágmarkskröfur finnst okkur starfsmönnum HSS að sjálfsögðu leitt að ákveðið var að leita annað og fórna um leið þeim möguleikum sem HSS bauð upp á. Í slíku tilboði hefði ekki til að mynda þurft að gera ráð fyrir því sem hefur verið kallað „ófrávíkjanlegar kröfur“, þar sem um er ræða nýtt hjúkrunarheimili og gert er ráð fyrir að hvíldarinnlagnir rúmist innan heildarfjölda hjúkrunarrýma. Áfram hefðu þó verið til staðar samlegðaráhrif er unnt hefði verið að nýta.
Hvað varðar þann rekstur sem umræðurnar virðast snúast um nú, þ.e. eingöngu rekstur Nesvalla, og gerður hefur verið samningur um við Velferðarráðuneytið teljum við nauðsynlegt að fram komi að HSS var aldrei á neinum tímapunkti beðið að gera tilboð í þann hluta af hálfu rekstraraðila Nesvalla, Reykjanesbæ.
Við efumst ekki um að Hrafnista er fullfær um að sinna rekstri hjúkrunarrýma samkvæmt gildandi kröfum og óskum þeim velfarnaðar verði sú lausn ofan á, en bendum á að öll sú þekking, umhyggja og metnaður sem krafist er til rekstrar slíks heimilis er þegar til staðar meðal starfsfólks HSS. Ef við stöndum ekki með okkur sjálfum hver gerir það þá? Það er sú spurning sem við spyrjum nú. Við starfsmenn HSS eigum ekki erfitt með að svara þeirri spurningu og munum að minnsta kosti hér eftir sem hingað til standa með okkar stofnun og þjóna samfélaginu öllu hverjar sem lyktir þessa máls verða.
Bestu kveðjur,
Þórunn Benediktsdóttir,
framkvæmdastjóri hjúkrunar, HSS
Bryndís Sævarsdóttir,
yfirhjúkrunarfræðingur, sjúkrahússviðs, HSS
Edda Bára Sigurbjörnsdóttir,
yfirhjúkrunarfræðingur, öldrunarsviðs, HSS.