Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

„Ef eitthvað hljómar of vel til að geta verið satt, þá er það sjaldnast satt“
Föstudagur 25. janúar 2013 kl. 17:04

„Ef eitthvað hljómar of vel til að geta verið satt, þá er það sjaldnast satt“

„Ef eitthvað hljómar of vel til að geta verið satt,  þá er það sjaldnast satt“ eru viðvörunarorð sem oft hafa heyrst í kjölfar hruns íslensks efnahagslífs. Séð í baksýnisspeglinum  má okkur vera ljóst að margar þær upplýsingar og fréttir sem haldið var að okkur í aðdraganda hrunsins  reyndust fara verulega á svig við sannleikann og snyrtar til svo þær féllu að því er menn töldu að fólk ætti að heyra. Slíkt virðist nú vera að verða raunin hvað varðar þann fréttaflutning er viðhafður er um svokallaðan „frjálsan samning“ er  eignarhaldsfélagið Fasteign hefur gert við lánadrottna sína, og meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarráði  Reykjanesbæjar  undirgengist fyrir hönd bæjarbúa. .

Fegruð mynd
Niðurstaða „samninga“ þeirra sem nú eru kynntir til sögunnar hefðu átt á vera ein frumforsenda þess að Reykjanesbær hefði bærilega  burði til þess að ná skuldahlutfalli sínu niður fyrir þau 150% á næstu 9 árum án frekari niðurskurðar en orðið er. Samningar með þeim mikla afslætti sem samningamaður Fasteignar Lárus Blöndal   gefur til kynna hér á vef Víkurfrétta í dag, og formaður stjórnar Fasteignar Árni Sigfússon  í hádegisfréttum RÚV   hefði orðið mikil búbót.  Eins og svo oft áður þegar EFF  á í hlut er ekki öll sagan sögð, bara það sem hljómar vel. Lækkaðar greiðslur Reykjanesbæjar   miðað við fyrri leigusamning eru ekki 30-60%  heldur tæplega  10% sé allur kostnaður bæjarins  tekinn með. Og enn er eftir að klára Hljómahöllina. Sá kostnaður verður vart undir 500 milljónum króna.

Það er illskiljanlegt, nema út frá pólitískum hagsmunum hversvegna valið er að kynna samninginn á þann hátt sem nú er gert .  Viðamikil og vel unninn umsögn endurskoðendafyrirtækisins Deloitte skýrir nákvæmlega hvað hér er um að ræða. Lánasamning þar sem allt lánið, rúmlega 12 milljarðar króna verða greiddir  baka, og enginn afsláttur gefinn, auk alls  annars kostnaðar er nýju fyrirkomulagi fylgir. Rekstur og  viðhald , allt innifalið. Niðurfelling skulda er heldur ekki 2 milljarðar eins og fram kom í fréttum RÚV í hádeginu, heldur 1,835 milljarður króna, svo þar sé rétt farið með tölur.

Að loknum griðatíma sem varir merkilegt nokk  það sem eftir er af kjörtímabili meirihlutans verða greiðslur vegna húsnæðis sem áður var leigt af Fasteign  vel á elleftu hundruð milljón króna á ári , sé allt tekið með,  þar með talin sá rúmlega milljarður króna sem tapast hefur á ævintýrinu. Að deila tapinu einnig niður á kostnaðinn hlýtur að teljast sanngjarnt. Það þýðir að hver fjögurra manna fjölskylda í Reykjanesbæ þarf að greiða að minnsta kosti  80.000 krónur í húsaleigu á hverju ári vegna Fasteignar-ævintýris meirihluta sjálfstæðismanna næstu 27 árin.

„Hinn frjálsi samningur“ sem meirihlutinn hefur nú samþykkt er vonandi endir á langri sorgarsögu. Sögu sem hljómaði vel í byrjun og hefði getað endað vel hefðu menn gætt hófs og skynsemi . Sögu sem sýnir okkur svo vel að pólitísk hugmyndafræði og metnaður einstakra flokka  á ekki alltaf samleið með hagsmunum almennings. Rekstur Reykjanesbæjar hefur verið erfiður mörg undanfarin ár og fjármagnaður að stórum hluta með sölu eigna og gegndarlausum niðurskurði í flestum málaflokkum. Það er því miður  í  komið að þolmörkum eins og aðrar fréttir dagsins í dag  bera glöggt vitni um. „Ef eitthvað hljómar of vel til að geta verið satt, þá er það sjaldnast  satt“. Það sannar saga eignarhaldsfélagsins Fasteignar og  kynning þeirra “frjálsu samninga sem nú hafa verið gerðir.

Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024