Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

 Ef A stæði fyrir Allan sannleikann ?
Föstudagur 26. maí 2006 kl. 09:54

Ef A stæði fyrir Allan sannleikann ?

Undir áróðri andstæðinga Sjálfstæðisflokksins verður manni stundum hugsað til þessara orða sem maður heyrir svo oft í bandarískum réttardrömum: „sverðu að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann“. Á vef A-listans er að finna „fasteignaleigureiknivél“. Hún er góð og gild fyrir sitt leyti. Hún gerir ráð fyrir því að ef hægt væri að færa fasteign þess einstaklings sem hana skoðar inní eignarhaldsfélag eins og Eignarhaldsfélagið Fasteign hf, yrðu kjör viðkomandi þau sömu og Reykjanesbær býr við. Gott og vel.

Berum saman rétta greiðslubyrði
Þegar fulltrúar A-listans síðan segja frá þessari reiknivél nota þeir dæmi um 25 milljón króna fasteign sem kostar samkvæmt reiknivélinni 173.250 krónur á mánuði. Við skulum því gera það líka. En berum hins vegar greiðslubyrðina saman við sambærilegt verðtryggt lán hjá íbúðarlánasjóði á 4,15% vöxtum. Miðum við að Seðlabanka Íslands takist til langframa að halda verðbólgumarkmiði sínu og verðbólga verði því 2,5%. Í ljósi þess að „fasteignaleigureiknivélin“ gerir ekki ráð fyrir neinni ávöxtun eigin fjár, skulum við jafnframt miða við að taka verði lán fyrir öllum 25 milljónunum og að það verði tekið til 40 ára svo greiðslubyrðin yrði sem lægst.

Niðurstaðan er sú að samkvæmt „fasteignakaupareiknivél“ íbúðarlánasjóðs á ibudarlan.is, myndu afborganir í upphafi vissulega verða lægri eða 109.818 krónur í fyrsta mánuði. En færu síðan hækkandi vegna verðbólgu og vaxta og yrðu 294.301 króna við seinustu greiðslu. Þannig er allur sannleikurinn sá að meðalgreiðslubyrði, sé byggt á sömu forsendum og „fasteignaleigureiknivélin“ gerir ráð fyrir, yrði 187.186 krónur. Allan tímann yrðu leigugreiðslurnar hins vegar þær sömu eða 173.250 krónur á mánuði.

Fjárfest í fólki, ekki steinsteypu
Stóri munurinn á þessum tveimur leiðum er sá að með láninu eignumst við húsnæðið á endanum. Það getur verið mikilvægt fyrir einstaklinginn sem verður að gera ráð fyrir að tekjur hans dragist saman þegar hann hættir að vinna. En allur sannleikurinn er sá að sveitarfélög fara ekki á eftirlaun. Ef rétt er á spilunum haldið, fækkar heldur ekki í fjölskyldunni með tímanum heldur fjölgar og tekjur hennar aukast. Því ætti það ekki að vera markmið sveitarfélaga að binda fé útsvarsgreiðenda í steinsteypu, heldur búa sem best að íbúum sínum á hverjum tíma. Að þeir fái dafnað sem skyldi og að tekjur þeirra verði sem hæstar. Sú hagræðing sem felst í því að fasteignir bæjarins séu reknar af sérfræðingum í stóru eignarhaldsfélagi, skilar sér umfram allt í því að meiri tími og orka er til þess að styrkja samkeppnishæfni sveitarfélagsins. Tími til að einbeita sér að því sem skiptir máli.

Fasteign er dæmi um vandaðan rekstur bæjarins
Vissulega er Reykjanesbær vel rekið sveitarfélag og hefur þar af leiðandi aðgang að hagstæðari lánum en því sem nefnt var í dæminu hér á undan. Fasteign er einmitt gott dæmi um þann metnað sem ríkir í rekstri bæjarins. Með þessu fyrirkomulagi hefur tekist að ná niður viðhaldskostnaði með hagkvæmni stærðarinnar og reglubundnu viðhaldi, gert er við hlutina strax í stað þess að fresta viðgerðum og nota peningana í eitthvað annað. Bygginarkostnaður hefur lækkað gríðarlega, dæmi eru um 300 milljón króna sparnað í vaxtagreiðsum og útborgunum á leigutíma einnar eignar. Síðast en ekki síst hefur bærinn ávaxtað þá fjármuni sem hann lagði inní Fasteign. Bæði hefur hagnaður félagsins skapað bænum arð, en þó er líklega enn athygliverðari sú ávöxtun sem orðið hefur á hlutafé í félaginu, Reykjanesbær á um 35% í félaginu og verðmæti bréfanna hefur vaxið gríðarlega samfara því að eignir félagsins hafa vaxið úr 8 milljörðum í 12 á stuttum líftíma þess.

Þegar upp er staðið er því ekki bara líklegt heldur er það reynsla Reykjanesbæjar að samanburður á þessum tveimur leiðum sé fasteignafélaginu mjög hagstæður. Enda var það niðurstaða bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar eftir slíkan samanburð að ganga ætti í Fasteign. Nú hefur A-listinn fundið upp nýjar reikniaðferðir og segist hafa komist að annari niðurstöðu. Þrátt fyrir áskoranir um að fá fram allan sannleika málsins, hafa þeir þó ekki lagt fram neina útreikninga máli sínu til stuðnings, enda er ekki útlit fyrir að þeir geti staðist. Það lítur þvert á móti út fyrir að þeir séu byggðir á pólitískum forsendum, en ekki þeim viðskiptalega grunni sem Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. er byggt á.

Sigurgestur Guðlaugsson
Nemi við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024