Ef á okkur hefði verið hlustað
Umdeildar ákvarðanir hafa verið teknar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar undanfarin ár Ef íbúarnir hefðu verið spurðir álits værum við enn eigendur að einu stærsta og verðmætasta orkufyrirtæki landsins og umhverfisslys hefði aldrei litið dagsins ljós í Helguvík. Ef íbúarnir hefðu verið spurðir hefðu skólarnir aldrei verið seldir og fjárhagsstaða bæjarins væri ekki sú versta á landinu.
Ef hitaveitan hefði ekki verið seld
Árið 2007 byrjuðu sjálfstæðismenn að selja hitaveituna. Sögðu þeir að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur, bærinn myndi áfram eiga hlut í fyrirtækinu. Það var svikið og var fyrirtækið allt selt árið 2009. Salan á HS var réttlætt með því að við myndum áfram eiga HS veitur. Það var síðan einnig svikið og HS veitur seldar, eins langt og lög leyfa. Heildarsöluandvirði þessa óskabarns okkar Suðurnesjamanna var 13,1 milljarður króna. Það var nú allt of sumt. Gullgæsin okkar var að langmestum hluta borguð með hlutabréfum, lánasamningi og skuldabréfi en ekki peningum. Þess má geta að fyrir ári síðan var Bláa Lónið metið á 30 milljarða króna. Í því mati er ekki orkuvinnslan né orkumannvirkin. Þessu sorglega máli er ekki enn lokið þar sem deilt er um andvirði skuldabréfs svo skiptir milljörðum og varðar því mikla fjárhagslega hagsmuni bæjarins.
Ef United Silicon hefði ekki komið
Árið 2010 og 2014 gerði meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn fjárfestingarsamninga við Thorsil og United Silicon í Helguvík. Samningar veita margvíslega afslætti af sköttum og gjöldum. Samningurinn við United Silicon er metinn á rúma 30 milljarða króna í eftirgjöf, samkvæmt atvinnuvegaráðuneytinu. Nauðsynlegt er að fá samninginn svo sjá megi hvað Reykjanesbær gaf mikið eftir af gjöldum. Bíð ég eftir upplýsingum frá bæjarvöldum, en margt bendir til þess að Reykjanesbær hafi samið af sér.
Hefðu bæjarbúar fengið að taka afstöðu í þessum tveim stóru málum með virku íbúalýðræði í gegnum bindandi íbúakosningu er ég sannfærður um að niðurstaðan hefði orðið allt önnur.
Meirihluti bæjarstjórnar; Samfylkingar, Beinnar leiðar og Frjáls afls lét undan þrýstingi íbúa um að íbúakosning færi fram um deiliskipulag í Helguvík og kísilver Thorsil. Kosningin var eitt allsherjar klúður vegna lélegs undirbúnings, auk þess sem bæjarstjórn hafði gefið það út áður að niðurstaðan yrði ekki bindandi. Þessi vinnubrögð voru bæjaryfirvöldum til skammar og ekki í anda íbúalýðræðis.
Íbúarnir eiga að hafa áhrif
Það er mikilvægt að leitað sé til íbúanna með stór og veigamikil mál. Sem dæmi mætti nefna skipulags-, framkvæmda- og umhverfismál. Framkvæmdin verður að vera hnökralaus og íbúarnir verða að geta treyst því að farið sé eftir niðurstöðunni.
M-listi Miðflokksins í Reykjanesbæ vill efla íbúalýðræði og virkja okkar nærsamfélag í ákvarðanatöku. Við viljum innleiða „íbúa-appið“ svo íbúarnir geti kosið um mikilvæg mál á einfaldan og þægilegan hátt. Íbúasamráð skilar ánægðari íbúum og auknu trausti á bæjarvöldum.
X-M svo á þig verði hlustað.
Gunnar Felix Rúnarsson,
skipar 2. sætið fyrir Miðflokkinn
skipar 2. sætið fyrir Miðflokkinn