Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Dropinn holar steininn
Fimmtudagur 28. apríl 2022 kl. 10:26

Dropinn holar steininn

Róbert Jóhann Guðmundsson,
skipar 4. sæti á lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí næstkomandi.


Nú eru að verða komin fjögur ár síðan ég settist í umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar og hef notið þess tíma og lært mikið. Á fyrsta fundinum var m.a. á dagskrá að farið yrði í endurskoðun á aðalskipulagi Reykjanesbæjar og nú tæpum fjórum árum síðar er það í kynningu og ég hvet íbúa að kynna sér það vel og koma með athugasemdir. Á þessum fyrsta fundi var einnig tekið fyrir erindi Minjastofnunar Íslands um að Húsafriðunarnefnd taki fyrir varðveislugildi Sundhallar Keflavíkur við Framnesveg. Niðurstaða þess máls var að sundhöllin skyldi víkja fyrir nýrri byggð. Eins og allir vita stendur húsið þarna enn engum til sóma. Það geta verið margar ástæður fyrir því að hlutirnir gerist ekki nógu hratt. Skipulagsmál, frá hugmynd og þangað til að bygging eða hverfi verður að veruleika, taka langan tíma og ótal ástæður geta verið fyrir því. Mín upplifun er sú að starfsmenn Reykjanesbæjar eru allir af vilja gerðir til að leiðbeina og upplýsa íbúa þegar eftir því er óskað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gríðarleg uppbygging sem er rétt að byrja

Fjögur ár er ekki langur tími og þegar ég lít til baka er ótrúlega margt sem við höfum áorkað. Við höfum opnað nýjan og glæsilegan grunnskóla í Dalshverfi (Stapaskóla) og erum að byggja við hann íþróttahús og sundlaug, þar verða Njarðvíkingar með heimavöll í körfunni. Það er búið að gera glæsilegan gervigrasvöll aftan við Reykjaneshöll, verið er að úthluta lóðum í Dalshverfi 3, Njarðvíkurskógar eru mjög skemmtilegt útivistarsvæði, svo eru heilsustígarnir heldur betur góð viðbót og ekki langt þar til við getum gengið eða hjólað alla leið að Seltjörn svo eitthvað sé nefnt. Á næstu árum ætlum við að leggja mikla áherslu á Ásbrú, byggja nýjan grunnskóla og hefja mikla uppbyggingu en þar er landsvæði fyrir um 15.000 manna byggð og alveg ótrúlega flottar þéttingarhugmyndir nú þegar í rammaskipulagi. Það er búið að deiliskipuleggja marga fallega reiti í Keflavíkurhverfinu með þéttingu byggðar í huga sem ég vona svo sannarlega að verði að veruleika sem fyrst því þetta eru glæsileg og metnaðarfull verkefni. Og svo eru það Fitjarnar. Þar ætlum við að rífa það sem eftir er af gömlu steypustöðinni og þar verður gríðarlega skemmtilegt útivistarsvæði. Svo er Reykjanesbær er með reiðhjólaáætlun í smíðum sem felst í að fólk geti notað reiðhjólið í daglegum störfum sínum.

Með öllum þessum aðgerðum megum við ekki gleyma innviðunum eins og umferðarmálum og við verðum að hefjast handa strax til að bæta úr þeim málum, breikka vegi, bæta við leiðum o.s.frv. 

Við getum verið stolt af Reykjanesbæ, bærinn er sífellt að verða fallegri og hér er gott að búa.