Dropinn holar steininn
Oft á mínum þingferli hef ég vakið máls á málefnum Suðurnesja. Stóra baráttumálið og réttlætismálið er að Suðurnesjamenn fái sambærilega heilbrigðis- og velferðarþjónustu, löggæslu og aðgengi að menntun og aðrir landsmenn.
Einn af hornsteinum samfélaganna á Suðurnesjum er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Góð heilsugæsla, bráða- og slysamóttaka og lyflækningar eru lykilatriði fyrir íbúa og nauðsynleg svo íbúar séu sáttir við búsetuskilyrði á svæðinu. Fólk á rétt á heilsugæslu í heimabyggð og á ekki að þurfa að sækja hana um langan veg.
Á höfuðborgarsvæðinu eru um 11.500 manns á hverja heilsugæslu. Suðurnesjamenn eru að nálgast 30.000 og við höfum aðgengi að einni heilsugæslu ásamt heilsugæslunni í Grindavík. Til stendur að opna heilsugæslu í Innri-Njarðvík en hún á samkvæmt áætlunum ekki að opna fyrr en 2026. Þeirri framkvæmd verður að flýta og opna einnig heilsugæslu í Suðurnesjabæ þar sem búa tæplega fjögur þúsund manns.
Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er allt að vilja gert en álag á hvern starfsmann er mikið enda skortir tuttugu lækna og tugi aðra heilbrigðisstarfsmenn, svo þörf fyrir heilbrigðisþjónustu sé uppfyllt miðað við íbúafjölda. Því sér hver maður að heilbrigðisþjónustan sem fyrir er, nægir ekki og stjórnvöld verða að taka á því ábyrgð.
Fjölgun íbúa á Suðurnesjum hefur verið gífurleg undanfarin ár og ef litið er til seinustu tíu ára hefur okkur fjölgað um 35%. En fjárveitingar til HSS hafa ekki fylgt þeirri íbúafjölgun. Ég fullyrði, og þarf ekki annað en að fletta ríkisreikningi til að sjá að það er rétt, að HSS er fjársvelt stofnun.
HSS þarfnast fjárveitinga frá Alþingi til að kaupa tæki og bæta aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsmenn. Viðurkenna þarf stofnunina sem kennslustofnun og fjölga stöðugildum lækna í námi í heimilislækningum. Og efla þarf samvinnu Landspítalans og HSS um lyflækningar ásamt því að bæta til muna mönnun og tækjabúnað á bráða- og slysadeild. Mönnunarvandi er út um allt land en það er ýmislegt hægt að gera til að laða fólk að stofnuninni. Þar skiptir starfsaðstaða og tækjabúnaður miklu.
Þann 7. mars síðastliðinn kom heilbrigðisráðherra á fund velferðarnefndar Alþingis að minni beiðni. Eftir þann fund bind ég nokkrar vonir við að ráðherra hafi skilning á sérstöðu HSS og muni sjá til þess að við henni verði brugðist í næstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og í næstu fjárlögum.
Samkvæmt lögum á fjármála- og efnahagsráðherra að mæla fyrir fjármálaáætlun til næstu fimm ára fyrir 1. apríl næstkomandi. Því er ekki langt að bíða að sjá áform ríkisstjórnarinnar um bætta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Ég mun halda áfram og krefjast úrbóta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Við eigum betra skilið.
Oddný G. Harðardóttir,
alþingismaður.