Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Drögum athafnasemi almennings á Suðurnesjum fram í dagsljósið!
Föstudagur 19. nóvember 2010 kl. 09:57

Drögum athafnasemi almennings á Suðurnesjum fram í dagsljósið!

- Alþjóðleg athafnavika á Íslandi, 15.-21. nóvember.

Núna, vikuna 15.-21. nóvember, er Alþjóðleg athafnavika á Íslandi. Athafnavikan er hluti af Global Entrepreneurship Week, sem teygir sig til um 100 landa um allan heim. Tilgangur vikunnar er að sýna fram á gildi athafnasemi fyrir samfélagið í heild sinni, hvetja þjóðina til athafnasemi og senda jákvæð skilaboð út í þjóðfélagið. Áherslur athafnaviku á Íslandi eru að:

* Athafnasemi er forsenda fyrir uppbyggingu atvinnulífsins og auknum lífsgæðum á Íslandi.
* Nýsköpun er hvorki sérstök atvinnugrein, né töfralausn, heldur nauðsynlegur þáttur framfara í nýjum sem rótgrónum fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum.
* Snúa við umræðunni um atvinnulífið og gefa Íslendingum tilefni til að horfa björtum augum fram á veginn.
* Athafnasemi er lausn flestra vandamála og skapar ný tækifæri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Athafnavika var fyrst haldin á síðasta ári og þá voru 120 viðburðir um allt land, 50 samstarfsaðilar og um 5000 þátttakendur á Íslandi. Nú þegar er fjöldi viðburða skráður á vefsíðu vikunnar, athafnavika.is.

Athafnasemi á Suðurnesjunum

Athafnavikan er ný fyrir Suðurnesjamönnum. Það sést best á því að engir viðburðir voru á Suðurnesjunum í athafnaviku í fyrra, og ekki er úr mörgu að velja núna. En við vitum að það er margt spennandi að gerast á Suðurnesjunum og fullt af fólki að gera góða hluti. Við viljum hvetja það fólk áfram og styðja það til dáða, og hvetja hina, sem eru enn að hugsa málin, til að stíga skrefið og hrinda hugmyndum í framkvæmd. Við viljum hvetja hinn almenna Suðurnesjamann til athafnasemi. Það þarf ekki að vera stórt, en það þarf að láta hlutina gerast. Við hvetjum alla til að taka þátt í að byggja upp, ekki bara betra atvinnulíf, heldur líka betra samfélag, á Suðurnesjunum.

Global Entrepreneurship Week horfir til athafnasemi á sviði fyrirtækjarekstrar. Hinsvegar er í Alþjóðlegri athafnaviku á Íslandi horft víðar, og lögð áhersla á gildi athafnasemi á öllum sviðum. Leggðu góðu málefni lið með sjálfboðaliðastarfi. Komdu á Old boys hóp í fótbolta. Haltu sýningu á verkum þínum eða seldu þau á markaði!

Þeir sem eru með viðskiptahugmynd, hugmynd að vöru eða þjónustu, eða eru í rekstri og vilja efla fyrirtækið með nýsköpun og athafnasemi, þá viljum við sérstaklega hvetja þá til dáða. Atvinnulíf þarf fjölbreytni, bæði hvað varðar starfsemi og stærð fyrirtækja. Það er nauðsynlegt að við, hinn almenni Suðurnesjamaður, tökum þátt í að byggja upp atvinnulífið á svæðinu. Byggjum upp fjölbreytta flóru fyrirtækja, stórra sem smárra, sem efla atvinnulífið og gera mannlífið okkar margbreytilegt og og áhugavert.

Hvað er nýsköpun? Hvað er frumkvöðull? Á þetta erindi við mig?

Nýsköpun er orð sem er mikið notað um þessar mundir og mörgum finnst hún ekki eiga erindi við sig. Hún á hinsvegar erindi við okkur öll á einn eða annan hátt. Nýsköpun þýðir ekki að það þurfi alltaf að finna eitthvað nýtt undir sólinni. Nýsköpun getur falist í í því að gera eitthvað sem gert hefur verið áður en á nýjan og betri hátt. Nýsköpun þýðir ný tækifæri á markaði og nýtt og aukið virði fyrir viðskiptavini. Nýsköpun er ekki bara eitthvað sem á erindi við okkur í dag, til að vinna okkur út úr erfiðum tímum, nýsköpun á alltaf erindi við okkur og er mikilvægur grundvöllur framfara.

Að sama skapi er mikið talað um frumkvöðla í dag. Þetta er eitt af þessum orðum sem fyrir mörgum hefur fengið sjálfstætt líf sem á ekkert skylt við þeirra eigið. Frumkvöðull er sá sem byrjar eitthvað nýtt, sá sem kemur auga á nýja möguleika í atvinnurekstri og hrindir þeim í framkvæmd. Það er einmitt það síðastnefnda sem skiptir öllu máli - að hrinda hlutunum í framkvæmd, að vera athafnasamur.

Stuðningur við athafnasemi á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi

Takmarkaður stuðningur hefur verið til staðar fyrir þá sem hafa viljað fara út í grasrótarverkefni í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á Suðurnesjunum. Þó hefur það sem til staðar hefur verið komið ýmsum verkefnum af stað og stutt fólk til dáða. Upp eru að spretta frumkvöðlafyrirtæki á borð við Handlers, sem gerir sýningartauma fyrir hunda, nýsköpunarfyrirtæki á sviði orkumála á borð við HBT, afþreyingarfyrirtæki eins og filma.is og AwareGo á sviði upplýsingatækniöryggis, svo örfá séu nefnd.

Nú eru í farvegi breytingar í átt að markvissari og öflugri stuðningi, m.a. með tilkomu Frumkvöðlasetursins á Ásbrú, og við vonumst til að á komist enn öflugra og víðtækara samstarf á Suðurnesjunum öllum til að styðja við athafnasemi á þessu sviði. Það er von þeirra sem að þessu standa að þetta muni draga fleiri frumkvöðla fram í dagsljósið, hjálpa fleiri hugmyndum að verða að veruleika og verða að arðvænlegum fyrirtækjum á Suðurnesjunum. Frumkvæðið að því að koma verkefnum af stað þarf þó að koma frá hinum almenna Suðurnesjamanni og við viljum hvetja athafnasamt fólk til að vera duglegt að nýta þá aðstöðu og þá aðstoð sem stendur til boða.

Athafnavika 2011 - gerum betur!

Förum af stað. Gerum hugmyndir okkar að veruleika, hverjar sem þær eru. Verum virk, verum kraftmikil, bjartsýn, jákvæð og sýnum frumkvæði. Verum athafnasöm! Stefnum að því að á Athafnaviku 2011 verði á Suðurnesjunum fjölbreytt og öflug dagskrá sem sýnir ekki bara umheiminum, heldur líka okkur sjálfum, hvað í okkur býr!

Bjarndís Helena Mitchell og Þóranna K. Jónsdóttir

Bjarndís Helena Mitchell er frumkvöðull, stofnandi og framkvæmdastjóri Handlers en Handlers hannar, framleiðir og selur sýningartauma fyrir hunda. Bjarndís er einnig talsmaður Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi.

Þóranna K. Jónsdóttir er verkefnastjóri Frumkvöðlasetursins á Ásbrú. Frekari upplýsingar um Frumkvöðlasetrið má finna á incubator.asbru.is