Dönsk næringarspeki?
Hún er komin aftur frá Danmörku og boðar landsmönnum “heilsusamlegan” næringarboðskap. Hér er átt við næringarþerapistann og hjúkrunarfræðinginn, Þorbjörgu Hafsteinsdóttur, sem fyrir nokkrum árum kom hingað til lands og boðaði fagnaðarerindi undir kjörorðunum “Grunnreglurnar tíu” sem gerð var ágæt skil í tíu þátta sjónvarpsþætti sem sýndur var á Skjá 1. Með því að tileinka sér grunnreglurnar átti heilsufar einstaklinga að batna til mikilla muna enda mátti skilja á Þorbjörgu að íslenskir þjóðfélagsþegnar væru að þrotum komnir, bæði líkamlega og andlega og ekki síst æska Íslands en eins hún lét hafa eftir sér svo ósmekklega í viðtali við Fréttablaðið þann 1. okt. 2005 að þá eru: “Börnin í vaxandi mæli út úr heiminum og verða ofvirk og heimskari með ári hverju og stundum þegar ég tala við unglingana fæ ég á tilfinninguna að ég sé að tala við vangefna.” Ástæða þessa telur næringarþerapistinn vera slæmt neyslumunstur og þannig fullyrðir hún að “sykur, kolvetni og gerviefni vannærir og skaðar heilann” og að mjólkurprótein virki sem morfín á taugakerfi barna og í kjölfarið byrji glíman við hegðunarvandamál. Boðskapur Þorbjargar felst sem sagt m.a. í því að telja fólki trú um að sykur sé eitur sem og mjólk og því mikil heilsufarsleg hætta því samfara að neyta afurða eins og margs konar bakkelsi, gos- og ávaxtasafa, súkkulaði, mjólk, osta, skyr, ís og jógúrt, svo eitthvað sé nefnt!
En nú er Þorbjörg komin aftur og með tvær bækur í farteskinu sem hún er höfundur að. Önnur bókanna vekur sérstakan áhuga enda er titill hennar grípandi: “10 árum yngri á 10 vikum”. Bækurnar verma 1. og 2. sætið yfir mest seldu bækur á Íslandi samkvæmt bóksölulista 24. apríl til 7. maí. Það er ekkert nýmæli að bækur sem tengjast óhefðbundinni nálgun við “næringu- og heilsufræði” komist á metsölulista og má rekja ástæðuna fyrst og fremst til heilsufarslegra loforða og reynslusagna þar sem fólk jafnvel fullyrðir að hafa læknast af hinum ýmsustu meinum eftir að hafa farið að tileinka sér ákveðið mataræði. Dæmi um bækur sem hafa náð á metsölulista og tengjast óhefðbundinni nálgun: “Atkins-kúrinn” (þar er boðað að fólk eigi að borða sem mest af fitu og próteinum og sem allra minnst af kolvetnum); “Candida sveppasýking” (þar sem hinn svo kallaði candida sveppur er álitinn ástæða flestra kvilla sem hrjá mannkynið og lausnin felst m.a. í að útiloka sykur “tilbúinn og fjöldaframleiddan mat” og mjólk); “Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk” (þar á fólk sem er í O-blóðflokki fyrst og fremst að neyta afurða úr dýraríkinu og fólk í A-blóðflokki afurða úr jurtaríkinu); og að síðustu er nefnd til sögunnar bók sem kom út á árinu 1992 og ber nafnið “Í toppformi” (e. Fit for life). Og er ástæða til að staldra aðeins við þá bók en toppformsbókin byggir m.a. á þeirri bullkenningu að ekki megi blanda saman kolvetnum og fitu og að morgni dags eigi eingöngu að neyta ávaxta. En af hverju minnist ég á þessa næstum tuttugu ára gömlu útgáfu? Jú, ástæðan tengist því að út er komin á íslensku enn ein “töfrabókin” og er eftir danskan “heilsuráðgjafa”, Lenu Hanson að nafni. Bókin sem um ræðir nefnist “Léttara og betra líf” og byggir á “toppformsfræðunum” en eins og Lena segir m.a. í viðtali við Fréttablaðið (14.maí) að “þá getum við lært ýmislegt af villtum dýrum þar sem þau borði ekki of mikið og aðeins eina fæðutegund í einu”. Og hún bætir svo við: “Við viljum alltaf blanda öllu saman, höldum alltaf að við fáum ekki nóg en endum með því að borða of mikið. Svo drekkum við mjólk ein spendýra eftir að móðurmjólkina þrýtur.”
Ég held að flestir geti verið sammála um að eitt það skemmtilegasta sem við gerum er að neyta bragðgóðrar fæðu. Því miður vill neyslan hjá sumum verða hömlulaus á meðan aðrir borða of lítið. Skilaboð eins og þau sem felast m.a. í því að tengja sykur og jafnvel mjólk við fíkn eða eitur kann auðveldlega að leiða til þess að í hvert sinn sem fólk fær sér góðgæti að þá verði það þjakað samviskubiti og afleiðingin kann að verða átröskun og birtingarmyndir átröskunar geta verið margvíslegar eins og svelti og ofát til skiptis, ofát með uppköstum (lotugræðgi) eða jafnvel lystarstol.
Að lokum vitna ég í “dagbókarskrif” sem sjá má á mbl.is (Smartland Mörtu) þar sem einn þátttakandi í átakinu, “10 árum yngri á 10 vikum” lýsir velgengni sinni eftir að hafa fylgt ráðleggingunum eftir í 13 daga: “Á morgun eru tvær vikur síðan ég byrjaði í átakinu og það hefur gengið svo vel. Núna seinnipartinn og í kvöld er í fyrsta skiptið sem ég finn fyrir að mig langar í eitthvað ógeðslegt... kók, nammi, köku, pylsu, pizzu og alls, alls, allskonar drasl. Ég hef enn ekki fengið mér neitt af þessu og hefur það ekki angrað mig (síður en svo).” Svo mörg voru þau orð!
Ólafur Gunnar Sæmundsson,
næringarfræðingur og stundakennari við Háskóla Reykjavíkur