Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 22. september 2003 kl. 15:10

Díoxínmengun frá sorpbrennslustöðinni við Hafnaveg

Gamla sorpbrennslustöðin við Hafnaveg þykir í dag vera barns síns tíma samkvæmt nýjum stöðlum og reglugerðum en á undanförnum árum hefur staðið nokkur styrr um stöðina vegna umræðu um hugsanlega mengun frá sorpeyðingarstöðinni, þá sérstaklega vegna díoxínmengunar, sem hugsanleg getur valdið sjúkdómum í mönnum. En díoxín er stór hópur þrávirkra lífræna mengunarvalda og einkenni þeirra er að þeir leysast auðveldlega í fituvefum manna og dýra, safnast þar upp, auk sem efnafræðilegir eiginleikar þeirra breytast mjög lítið.

Díoxín getur myndast við ófullkominn bruna í sorpbrennslustöðvum, þ.e. ef brennsla úrgangs, sem inniheldur klórsambönd (olía, sum plastefni og fleira), fer fram við lágt hitastig og hæga kælingu á útblásturlofti.  En við brennslu úrgangs í sorpbrennslustöðinni við Hafnaveg er úrgangur brenndur við hátt hitastig og útblásturloft kælt mjög hratt sem á að koma í veg fyrir díoxínmengun.

Að kröfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja (HES) og Varnarliðsins gerði Sorpeyðingarstöð Suðurnesja díoxínmælingar í jarðvegi í kringum sorpbrennslustöðina til að skera úr um hugsanlega mengun frá stöðinni. Aldrei hafa svo stórar sýnatökur farið fram áður við sorpbrennslustöð hér á landi enda þykir hver sýnataka mjög dýr. Niðurstöður voru borin saman við þýsk viðmið (tafla 1.).

Tafla 1. Díoxín staðlar. Einingar díoxíns eru í píkógrömmum (10-12)

Viðmið

Aðgerðir

< 5 pg díoxín/g jarðvegs

Engar aðgerðir

5–40 pg díoxín/g jarðvegs

Ef uppsprettan finnst í nágrenninu, ætti að minnka áhrifin

40–100 pg díoxín/g jarðvegs

Ef uppsprettan finnst í nágrenninu, skal minnka áhrifin

> 100 pg díoxin/g jarðvegs

Hreinsun á jarðvegi á leiksvæðum

> 1000 pg díoxin/g jarðvegs

Hreinsun á jarðvegi á búsvæðum

> 10000 pg díoxín/g jarðvegs

Hreinsun á jarðvegi á iðnaðarsvæði

Fyrstu 6 sýnin voru tekin í kringum gömlu stöðina en tvö síðustu sýnin voru tekin annars vegar við hina nýju sorpbrennslustöð S.S í Helguvík, Kölku, og út við Garð hins vegar. Þau sýni ættu að sýna náttúruleg bakgrunnsgildi díoxíns í jarðvegi á Suðurnesjum.  Niðurstöður jarðvegsýnanna má sjá hér að neðan í töflu 2:

Tafla 2. Niðurstöður díoxínmælinga.

Sýni

TEQ (pg/g jarðvegs)

Viðmið (Blank)

0,004

Sýni 1

0,012

Sýni 2

0,011

Sýni 3

0,168

Sýni 4

0,628

Sýni 5

0,689

Sýni 6

45,462

Sýni 7 (Helguvík)*

0,027

Sýni 8 (Garður)*

0,017

* Sýnin sýna náttúruleg gildi í jarðvegi

Niðurstöður gefa til kynna að díoxínmengun í jarðvegi í kringum sorpeyðingarstöðina við Hafnaveg er mjög lítil ef miðað er við staðlana eða langt undir 5 pg/g mörkunum. En þess má geta að 1 píkógramm er einn trilljónasti hluti úr grammi (0,000000000001 g). Ef miðað væri við 20000 m2 lóð stöðvarinnar, efsta 5 cm jarðlagið sem sýnin eru tekin úr, eðlisþyngd jarðvegs (» 2t/m3) og tekið hæsta gildið (0,7 pg/g) væri heildarmagn díoxín á lóð ca. 1-2 milligrömm eftir 25 ára starfsemi.

Athygli vekur að sýni 6 hefur mjög hátt gildi miðað við sýni 4 og 5 en þau sýni voru staðsett beggja megin við sýni 6 og með sömu tíðni vindstefnu.  Leiða mætti þá ályktun að sú díoxínmengun sem finnst í sýni 6 sé ekki komin frá sorpeyðingarstöðinni vegna keimlíkra aðstæðna sýna 4 og 5 sem sýna mjög lág gildi. Það sem styður þetta enn frekar er að sýni 6 var tekið nálægt svæði sem var notað sem ruslahaugur hjá varnarliðinu í hartnær 50 ár en var hreinsað upp fyrir nokkrum árum.Mögulegt er að mengunin í sýni 6 sé komin frá því svæði. 

Útfrá niðurstöðum mælinganna er hægt að álykta að áhrif díoxíns á umhverfið vegna 25 ára starfsemi sorpbrennslustöðvarinnar við Hafnaveg eru hverfandi. 

 

Aron Jóhannsson

Umhverfisfulltrúi Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024