Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Deyja úr leiðindum eða ...
Laugardagur 3. febrúar 2018 kl. 06:00

Deyja úr leiðindum eða ...

Fólk getur dáið úr leiðindum. Læknar skrá annað í sjúkraskrár því einkenni og afleiðingar leiðinda eru ekki augljós. Leiðindi geta leitt til sjúkdóma sem geta jafnvel dregið fólk til dauða. Á hinn bóginn valda sjúkdómar leiðindum. Langvarandi veikindi geta valdið manni djúpum leiðindum og þunglyndi. Þetta getur orðið vítahringur.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO skilgreindi fyrir hálfri öld þrenns konar heilbrigði: líkamlegt, andlegt og félagslegt. Heilbrigði er meira en að vera laus við sjúkdóma. Heilbrigðum manni á að líða eftir atvikum vel og vera þokkalega ánægður og glaður. Til að svo sé þarf hann að vera heilbrigður líkamlega, andlega og félagslega.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líkamlegt heilbrigði þekkjum við og eins sjúkdóma sem upp koma þegar það bregst. Leiðindi geta átt þátt í því. Andlega heilbrigð erum við laus við geðsjúkdóma (sem menn þora nú æ oftar að tala um) og laus við leiðindi (sem of sjaldan er talað um sem heilbrigðismál).
Hugtakið félagslegt heilbrigði eða félagsheilsa er okkur minnst tamt á tungu og margir vita ekki hvað er. Það varðar samfélagið sem manneskjan tilheyrir, félagstengslin, þarf fólk að finna öryggi og ánægju og hafa í sig og á.

Góð félagsleg tengsl lengja og bæta lífið. Það á við í fjölskyldum, í alls kyns félögum og á vinnustað. Jákvæðu fólki vegnar almennt betur og lifir lengur, enda á það auðveldara með samskipti. Öryggisnet bæði þjóðfélagsins og nærsamfélagsins skipta miklu máli.

Félagslegar aðstæður hafa ekki aðeins áhrif á félagsheilsu heldur einnig geðheilsu og líkamlega heilsu. Fíkn og ávanabinding er í grunninn lærð hegðun sem hægt er að forðast og venja sig af þótt það kosti átök. Allt sem stuðlar að einangrun fólks er heilsuspillandi og ekki síður það sem ógnar öryggi þess. Bitnar ekki síst á þeim sem eldri eru. Marga skorti frumkvæði til að hafa sig út úr einangruninni af sjálfsdáðum og þarfnast þar hjálpar.

Lýðheilsa er heilsa almennings og varðar miklu fleira en heilbrigðismál, svo sem jöfnuð, menntun, atvinnu, hreint loft og vatn, frárennsli, matvælaeftirlit og mæðravernd. Einnig jafnræði þegnanna og að þeir búi við frið, jafnt innan heimilis sem utan.

Ísland er almennt öruggara land en flest önnur, morð fátíð og við erum að mestu laus við hernað. Hér var samhjálp og samhyggð allt frá landnámsöld sem frjálshyggja nútímans holar innan. Það er fátt eins heilsuspillandi og að svelta og lifa í stöðugum ótta um afkomu og líf sitt og barna sinna.
Miklu skiptir að við blöndum geði við fólk, ekki bara við okkar nánustu, og byggjum upp félög og þjóðfélag sem stuðlar að því að allir njóti sín, finni sig í einhverju, taki þátt og láti sig aðra varða. Þannig drögum við úr leiðindum (jafnvel þótt við séum ekkert rosa skemmtileg). Þannig bætum við og lengjum líf okkar og annarra og við verðum öll hamingjusamari.

Þorvaldur Örn Árnason,
formaður Frístunda- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Voga