Deila um fjármál Reykjanesbæjar : Debit og Kredit
Ýmislegt vakti athygli mína eftir að hafa lesið greinar hr. Árna Sigfússonar bæjarstjóra Reykjanesbæjar og hr. Kjartans Más Kjartanssonar bæjarfulltrúa vegna deilu þeirra um fjármál bæjarins í Víkurfréttum í s.l. viku.
Það er ljóst að ekki er allt með feldu og nú eru teikn á lofti um að komið sé að ögurstundu er varðar hagsmuni bæjarbúa til framtíðar. Þetta má heyra á tali manna hér í bæ. Bæjarbúar þurfa ekki að leggja það á sig að geyma þessar greinar sem ofangreindir aðilar hafa skrifað vegna þessa máls, því viska og dómgreind almennings og langlundargeð er með þeim hætti að telja má fullvíst að þessum meirihluta Sjálfstæðismanna verði kastað fyrir róðra í næstu bæjarstjórnarkosningum.
Þar sem ég hef ekki nægilega haldgóð gögn undir höndum er varða þessi skrif þeirra félaga er samt ljóst að Kjartan Már hefur vinninginn enda þarf ekki mikið innsæi til að sjá að sjónarspil bæjarstjórans er til þess fallið að villa um fyrir fólki um hina raunverulegu fjárhagsstöðu bæjarins. Ein er sú leið sem farin hefur verið í þessum tilgangi er að selja fasteignir þess til að fjármagna hallareksturinn.
Hér verða bæjarbúar að vera á varðbergi að ekki sé seldur eignarhluti bæjarfélagsins t.d. í Hitaveitunni, óskabarni Suðurnesjamanna, því ef það ferli færi í gang, einkavinavæðingin, mætti búast við að Hitaveitan stórhækkaði orkugjöldin þ.e.a.s. hita og rafmagn á almenning, því .. jú … “hluthafarnir gera kröfu um arðsemi” yrði svar stjórnarmanna.
Já, velferðarkerfið heldur áfram að hnigna eins og nýjasta dæmið sannar með stórhækkun á leikskólagjöldum sem munu valda barnafjölskyldum miklum búsifjum því þar á meðal er fólkið sem er að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta skipti. Síðan væri það alveg eftir öðru að hækka fasteignagjöldin til að kóróna þessa “fjölskyldustefnu” eins og það er kallað hjá bæjaryfirvöldum.
Til að tryggja bæjarbúum raunhæfan kost í næstu sveitastjórnarkosningum, hefur hópur manna hafið undirbúning að stofnun nýs bæjarmálafélags undir merkjum Frjálslynda flokksins. Þar verður leitast við að fá fólk sem vill breytingar til starfa.
Stofnfundur félagsins verður auglýstur þegar þar að kemur.
Kær kveðja,
Baldvin Nielsen