Davíð á fjölmennum fundi í Reykjanesbæ
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins var á fundi Sjálfstæðismanna sem haldinn var í Stapa í kvöld. Fullt var í Stapa og stóð fundurinn í um tvær klukkustundir. Davíð kom víða við í ræðu sinni og ræddi meðal annars um stefnu Samfylkingarinnar og Frjálslyndra í sjávarútvegsmálum. Sagði Davíð að ef andstæðingar Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum kæmust í ríkisstjórn myndi efnahagur landsins hrynja ef tillögur flokkanna í sjávarútvegsmálum næði fram að ganga. Davíð minntist einnig á útkomu Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum og sagði hana ekki nógu góða. Eftir framsögu Davíðs voru fyrirspurnir leyfðar og voru fjölmargir sem spurðu frambjóðendur spurninga. Meðal þess sem spurt var um var hvenær frambjóðendur sæju fyrir sér að breikkun Reykjanesbrautar myndi ljúka og spurning kom fram varðandi háskólamenntun á Suðurnesjum. Böðvar Jónsson sem situr í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sagði að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi myndu berjast fyrir því að breikkun Reykjanesbrautar yrði lokið fyrr en áætlað er. Í svari Böðvars varðandi háskóla á Suðurnesjum sagði hann það mjög mikilvægt að háskóladeild risi á Suðurnesjum. Í lok fundarins hvöttu frambjóðendur, ásamt forsætisráðherra fundarmenn til að vinna vel fyrir Sjálfstæðisflokkinn því útlit væri fyrir mjög spennandi kosningar.
VF-ljósmynd: Nokkrir af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ásamt forsætisráðherra á kosningafundi í Stapa í kvöld.
VF-ljósmynd: Nokkrir af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ásamt forsætisráðherra á kosningafundi í Stapa í kvöld.