Dalshverfi III laust til umsóknar
Opnað hefur verið fyrir lóðaumsóknir í nýjasta hverfi Reykjanesbæjar, Dalshverfi III, sem staðsett er í austasta hluta bæjarins. Lóðirnar eru fyrir ein- og tvíbýli, rað- og fjölbýlishús og íbúðirnar eru alls 300 talsins í hverfinu.
Markmið skipulags hverfisins er að skapa fjölskylduvænt hverfi, með öruggum gönguleiðum, góðum tengslum við náttúru með grunnskóla og leikskóla í göngufæri. Íbúðastærðum er stillt í hóf og byggðin er lágreist en samt þétt sem býður upp á gott skjól og sólríka garða. Þar sem hverfið er í jaðri byggðar eru góð tækifæri til útivistar í óspilltri náttúru, m.a. á Vogastapa.
Lóðunum verður úthlutað í tveimur áföngum eftir skýrum og gagnsæjum reglum. Norðurhluta hverfisins er úthlutað fyrst en áætlað er að suðurhlutanum verði úthlutað í síðasta lagi um mitt ár eftir því sem gatnagerð miðar áfram. Allar nánari upplýsingar og úthlutunarreglur má finna á reykjanesbaer.is – þar má m.a. finna upptöku af kynningarfundi sem haldinn var 31. janúar.
Í haust leitaði umhverfis- og skipulagsráð til bæjarbúa um tillögur að götunöfnum í Dalshverfi III og nafni á hverfistorgið. Bæjarbúar tóku vel við sér og á sjöunda hundrað tillögur bárust. Fjöldi þeirra var ævintýratengdur og niðurstaðan var að göturnar og torgið í nýja þessu nýjasta hverfi bæjarins heita nú: Álfadalur, Trölladalur, Dísardalur, Huldudalur, Risadalur, Dvergadalur, Jötundalur, Drekadalur og Skessutorg. Viðurkenningar verða veittar fyrir nafnatillögurnar þegar sóttvarnir leyfa.
Samfélag í sókn
Stöðugt er unnið að skipulagsmálum í Reykjanesbæ af starfsfólki umhverfissviðs bæjarins og umhverfis- og skipulagsráði. Uppbygging bæjarins hefur gengið jafnt og þétt fyrir sig undanfarin ár, síðustu tvö haustin hafa t.d. Samtök iðnaðarins talið tæplega 300 íbúðir í byggingu í Reykjanesbæ og eftirspurn eftir íbúðum er mikil enda hér gott að búa – samfélagið gott og bærinn okkar vel rekinn síðustu sjö árin.
Sem dæmi um mörg og margvísleg verkefni þá má nefna að árið 2021 tókum við í umhverfis- og skipulagsráði 377 mál fyrir á tuttugu og einum fundi, 60 grenndarkynningar voru gerðar, unnið var að sextán nýjum eða breyttum deiliskipulagsverkefnum, 63 lóðum var úthlutað á árinu auk þess að lokið var við endurskoðun aðalskipulags og tillaga að aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035 samþykkt í auglýsingu.
Vexti bæjarins og sú staðreynd að Reykjanesbær er orðinn fjórða fjölmennasta sveitarfélagið á landinu fylgja nýjar áskoranir. Eitt af því sem umhverfis- og skipulagsráði og starfsmönnum sviðsins er mjög umhugað um er umferð og umferðarstreymi um bæinn og öryggi gangandi og hjólandi, sérstaklega öruggar gönguleiðir að skólum. Í samvinnu við Vegagerðina var unnið umferðarlíkan fyrir Reykjanesbæ sem nýtt er til þess að endurskoða og endurskipuleggja umferðina og verkfræðistofan Efla greindi gönguleiðir að skólum og unnið er að úrbótum samkvæmt þeirri greiningu. Þá hefur verið unnin og samþykkt metnaðarfull umhverfis- og loftslagsstefna fyrir bæinn okkar, unnið er að uppgræðslu- og skógræktaráætlun og verið er að vinna samgöngustefnu fyrir Reykjanesbæ sem tengist aðalskipulagi bæjarins.
Á næstunni mun endurskoðað aðalskipulag verða kynnt á hverfafundum og þá gefst bæjarbúum tækifæri enn og aftur til þess að koma með ábendingar, fyrirspurnir og athugasemdir. Ég hlakka til þeirra funda og til þess að eiga samtal um bæinn okkar og framtíðina, því saman gerum við bæinn okkar enn betri.
Eysteinn Eyjólfsson,
formaður umhverfis- og skipulagsráðs og formaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.